Fara í innihald

Surtsey

Hnit: 63°18′N 20°36′V / 63.300°N 20.600°V / 63.300; -20.600
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

63°18′N 20°36′V / 63.300°N 20.600°V / 63.300; -20.600

Mynd tekin 30. nóvember árið 1963, sextán dögum eftir að gossins varð vart.
Kort.

Surtsey er syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, en miðpunktur hennar er 63°18'N, 20°36'V. Hún er jafnframt sú eina þeirra sem hefur myndast á sögulegum tíma, eða í mesta neðansjávareldgosi á sögulegum tíma. Menn urðu gossins varir klukkan 7:15 að morgni þess 14. nóvember 1963, þegar það braust upp úr yfirborði sjávar skammt frá fiskibátnum Ísleifi II frá Vestmannaeyjum. Skipverjar mældu sjávarhita í hálfrar mílu (rúmlega 900m) fjarlægð og reyndist hitastigið vera nálægt 10 °C. Gosið magnaðist hratt og varð hár gosmökkur. Næsta morgun sást í gosmekkinum að eyja hafði myndast. Er því ljóst að gosið hefur hafist einhverjum dögum áður en þess varð vart. Þann 12. nóvember fannst brennisteinslykt í lofti í suðvestanátt í Vík í Mýrdal, en engra jarðhræringa hafði orðið vart dagana fyrir uppkomu gossins. Gosið stóð fram til 5. júní 1967 eða í um það bil þrjú og hálft ár. Síðan hefur flatarmál eyjunnar minnkað úr 2,7 km2 í 1,4 km2 sökum rofs sjávar og vinda.[1] Eyjan er um 20 km suðvestur af Heimaey, eða um 30 km suðvestur af Landeyjasandi á meginlandi Íslands.

Surtsey hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 8. júlí 2008.

Surtsey var friðlýst árið 1965. Umhverfisstofnun fer með umsjón Surtseyjarfriðlandsins. Surteyjarfélagið samræmir og leitast við af efla vísindarannsóknir í Surtsey. Óheimilt er að fara í land í Surtsey eða kafa við eyna nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Heimilt er að veita leyfi til ferða úti í Surtsey til rannsókna og verkefna sem tengjast þeim, eða til kvikmyndatöku og/eða ljósmyndunar vegna gerðar fræðsluefnis með sérstaka skírskotun til Surtseyjar eða rannsókna þar.

Surtsey er nefnd eftir Surti, jötni úr norrænni goðafræði sem er sagður þekja heiminn eldi í ragnarökum.

Skýringarmynd af Surtseyjargosinu
1: Vatnsgufa
2: Aska
3: Eldgígur
4: Vatn
5: Lög af hrauni og ösku
6: Jarðlag
7: Gosrás
8: Kvikuþró
9: Bergeitill
  1. Sveinn P. Jakobsson. „Surtsey - Jarðfræði“. Surtseyjarfélagið. Sótt 3. október 2009.

erlendir