Flatey (Breiðafirði)

Hnit: 65°22.38′N 22°55.57′V / 65.37300°N 22.92617°V / 65.37300; -22.92617
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Flatey á Breiðafirði)

65°22.38′N 22°55.57′V / 65.37300°N 22.92617°V / 65.37300; -22.92617

Plássið við Grýluvog; yst til vinstri Eyjólfshús (gult) og Eyjólfspakkhús (grænt), næst Stórapakkhús (brúnt) og samkomuhúsið áfast því (er í hvarfi við Vog) og fremst Vogur (blár) sem var aðsetur verslunarstjóra og prestsetur.
Flatey um 1900.

Flatey er stærsta Vestureyjan á Breiðafirði og tilheyra henni alls 40 eyjar og hólmar. Hún er talin að hafa myndast undir afli skriðjökla á ísöld og þegar jökulfarginu létti hafi hún risið upp úr sæ. Flatey er um 0.5 km2 að flatarmáli, um 2 km á lengd og um hálfur km þar sem hún er breiðust. Eyjan er flatlend, þó gengur hæðarhryggur eftir henni endilangri. Lundaberg er hæsti hluti hennar, nærri norðausturenda hennar.

Vestureyjarnar liggja á stórri megineldstöð sem kennd er við Flatey og finnst því víða jarðhiti og margskonar stuðlaberg. Flatey er flokkuð undir þjóðjörð af ríkinu og er eyjan talin sem náttúruperla og menningarafurð Íslands. Mikið fuglalíf er á eyjunni og er hluti hennar friðaður (sérstaklega á varptíma) síðan 1975.

Gjöful fiskimið liggja allt í kringum eyjuna en í undirdjúpunum kringum Flatey er ekki aðeins fiskur heldur einnig merkar fornleifar; tvö skip. Annað sökk á 18. öld og hitt á 19. öld.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Byggð í Flatey á rætur sínar að rekja allt aftur á landnámsöld þegar Þrándur mjóbeinn nam eyjarnar vestan Bjarneyjarflóa og bjó hann í Flatey. Flatey hefur þá yfirburði framyfir aðrar Vestureyjar að hún er stærst og lá vel við - stutt er á fiskimið og í aðrar eyjar. Höfnin, skeifulaga eyja á móts við Þýskuvör, var sjálfgerð frá náttúrunnar hendi og veitir hún var í flestum áttum.

Á 12. öld bjó í eyjunni Þorsteinn Gyðuson sem var ríkur maður og voldugur. Í hans búskapartíð var Flateyjarklaustur byggt í eynni, það var reist 1172 en flutt að Helgafelli 1184. Það stóð þar sem nú kallast Klausturhólar, á háhrygg eyjarinnar, upp af Innstabæjarmýri. Við sáluhliðið stendur jarðfastur steinn sem klappaður hefur verið í bolli, svo fólk gæti signt sig áður en það gekk í gegn.

Í Sturlungu er Flateyjar getið, en ekkert svo hægt sé að glöggva sig á lífinu og búsháttum þar. Flateyjarbók getur þess að á eftir Sturlungaöld hafi sumar ættir í landinu risið hærra en aðrar og hafi Englendingar meðal annars slæðst til landsins og stundað viðskipti og fiskveiðar. Upp úr 1520 eignast Jón Björnsson af ætt Skarðverja, sem þá var ein af höfuðættum landsins, Flatey og var eyjan þá búin að vera í fjölskyldunni í að a.m.k. fjóra ættliðiði. Á sama tíma eignast Jón Flateyjarbók. Hún var geymd í eynni fram til 15. september 1647 þegar Brynjólfur biskup fékk hana að gjöf og færði konungi að gjöf. Þá var bókin orðin 250 ára, enda skrifuð á 14. öld.

Þegar einokunarverslunin var lögleidd á Íslandi 1602 höfðu Hollendingar og Þjóðverjar stundað verslun í eynni, og halda því greinilega áfram því 6. október 1659 sökk hollenskt kaupskip í höfninni. Það er sagt hafa verið vopnað 14 fallbyssum. Það vekur upp ýmsar spurningar að svona stórt verslunarskip skuli hafa verið í Flatey, og sérstaklega vegna þess að það var vopnað. 1660 er getið um tvö hollensk skip en síðan heyrist ekkert um kaupskipaferðir næstu 120 árin. Á þessum tíma hefur að líkindum ríkt stöðnun því eyjaskeggjar þurftu að sækja upp á land til að versla.

Bókhlaðan í Flatey

18. júní 1777 varð Flatey kauptún og hófst verslun þar sama ár. Verslunarsvæðið náði yfir Vestureyjarnar og sveitirnar á Barðaströnd. Timburhús var reist hjá Grýluvogsbotni og þar settust að Jens Larsen sem varð faktor og Snjólfur beykir. Seinna var Pétur Kúld settur yfir verslunina og eftir lát hans eignaðist sonur hans Eiríkur Kúld hlut í Flateyjarkaupstað og skipum á móti Olsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn, seldi Olsen sinn hlut gegn skuldabréfi en varð áfram verslunarstjóri í Flatey. Árið 1814, sama ár og mikið bankahrun varð í Danmörku fór Guðmundur Scheving til Kaupmannahafnar og keypti hálft Flateyjarkauptún af Olsen án vitundar Eiríks og bolaði Eiríki burt. Guðmundur hafði verið sýslumaður Barðastrandasýslu til 1812 en embætti var tekið af honum því hann hafði gengist Jörundi hundadagakóngi á hönd og fengið fé úr ríkissjóði gegnum Jörund. Hafði Jörundur gert Guðmund að amtmanni fyrir norðan en því embætti hélt hann einungis í átta daga. [1]

Í byrjun 20. aldar gekk vélbátur milli Flateyjar og hreppanna í Barðastrandar- og Dalasýslu.

Kaupfélag Flateyjar var sett á laggirnar 1920, lítið í byrjun en stækkaði til muna þegar verslun Guðmundar Bergsteinssonar lagðist af. Kaupfélagið verslaði og stundaði viðskipti fram yfir 1950. Á fimmta áratugnum voru stofnuð útgerðar og hraðfrystingarfélög. Frystihúsið á Tröllenda var byggt og jafnframt bryggjan, en atvinnureksturinn mætti halla á leið sinni og lognaðist fljótt út af. Haustið 1967 ákváðu þær fimm fjölskyldur sem eftir voru í eyjunni að flytja burt en byggð hafði þá verið frá 12. öld þar. [2]

Í Flatey hafa verið þekktir fræðimenn sem stóðu framarlega í alþýðumenntun á Íslandi og má þar nefna Gísla Konráðsson, sem bjó í eynni síðustu áratugi ævinnar. Bókhlaðan í Flatey var önnur í röðinni af bókasöfnum sem reist voru á Íslandi og barnaskóli var snemma reistur þar.[3] Árið 1926 var síðan reist kirkja á eyjunni - Flateyjarkirkja. Hún er mjög sérstök að því leyti að innandyra er hún eins og stórt listaverk. Allt loftið og altaristöfluna málaði Baltasar listmálari. Hafa nú bæði kirkjan og bókasafnið nýlega verið endurgerð.

Fólksfjöldi[breyta | breyta frumkóða]

Þegar manntal fór fram 1703 voru 20 heimili í Flatey með 106 íbúa, en að auki voru nokkrir húsmenn með fjölskyldur sínar. 1801 voru heimilin 17 og íbúarnir 81 að tölu. 1845 voru í eynni 143. Um aldamótin 1900 stóð byggðin í Flateyjarhrepp í sem mestum blóma og voru íbúarnir allt að 400. Lagðist síðan byggð að mestu af. Árið 1967 fluttu þær fjölskyldur sem voru með fasta búsetu burt. Enn eru þó tvö lögbýli í Flatey. Húsin eru vel varðveitt og er þetta ein merkasta heild gamalla húsa á Íslandi. Flest húsin eru frá 19. öld og byrjun 20. aldar og bera íbúðarhúsin, verslunarhúsin og pakkhúsin í Flatey vitni um bjartsýni og uppgang um aldamótin 1900. Húsin eru í einkaeigu og eru notuð sem sumarhús og er eyjan því full af lífi á sumrin. Eigendur húsanna eru flestir afkomendur Flateyinga og lítið er um að ný hús séu byggð nema á grunni eldra húsa. Eftirsóknarvert þykir að eiga sumarhús í Flatey vegna góðs veðurfars og kyrrsældar. Breiðafjarðarferjan Baldur siglir frá Stykkishólmi til Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Eyjaskeggjar fá rafmagn sitt frá díselrafstöð sem rekin er á eynni, en lengi hefur verið rætt um að leggja þangað streng. Vatnið er fengið úr brunnum á eynni, en þegar vatnsþörfin er mikil er bætt við með flutningi frá meginlandinu.

Flatey í kvikmyndum og bókum[breyta | breyta frumkóða]

Flatey er vinsælt sögusvið í kvikmyndum og bókum. Sakamálasagan Flateyjargátan eftir Viktor Arnar Ingólfsson gerist þar og eyjan er sögusviðið í barnabókinni Flateyjarbréfin eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur. Bókin Síðasta skip suður eftir Jökull Jakobsson og Baltasar fjalla um Flatey og Breiðafjarðareyjar í máli og myndum. Kvikmyndin Ungfrúin góða og húsið og Brúðguminn eru teknar upp í Flatey.

Nálægir staðir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ólafur Ásgeir Steinþórsson (1995). Ferð til fortíðar. Þjóðsaga H.F.
  • Árni Björnsson, Eysteinn G. Gíslason og Ævar Petersen (1989). Árbók 1989 - Breiðafjarðareyjar. Oddi.
  • „Skýrsla Orkubússtjóra“. Sótt 2010.
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]