Höskuldsey
Höskuldsey er eyja sunnarlega á Breiðafirði, norður af Akureyjum. Þar var um langt skeið helsta verstöð á sunnanverðum Breiðafirði og reru þaðan stundum tugir báta. Eyjan er nú í eyði en húsin standa enn og þar er viti.
Eyjan er láglend og ekki mjög stór og bar ekki mikinn búskap en virðist hafa verið orðin þekkt verstöð mjög snemma því að í Eyrbyggju segir frá því að Þorsteinn þorskabítur hafi drukknað í róðri frá Höskuldsey árið 938 og horfið inn í Helgafell ásamt förunautum sínum. Helgafellsklaustur átti eyna frá því um 1280 og þaðan var mikið útræði allt fram til 1920. Þó var lendingin aldrei góð. Auk heimabæjarins, sem var á miðri eyni, voru þar allmargar búðir og voru sumar einungis notaðar á vertíð en í öðrum var búið allt árið.
Timburhús var reist í Höskuldsey um 1920 og nokkru síðar steinhús en hún fór í eyði 1960. Viti var reistur á austanverðri eynni 1926, en fluttur í nýtt hús árið 1948. Núverandi vitahús er 7,2 metra ferstrendur turn. Ljóseinkenni hans er Fl WRG 6s (þrískipt blikkljós á 6 sekúndna fresti).
Þjóðsögur sögðu að Höskuldsey mundi sökkva ef þar væru samtímis stödd 20 hjón. Ekki er vitað til að það hafi nokkru sinni gerst.