Vífilsstaðavatn
Vífilsstaðavatn er vatn í jökulsorfinni laut í Garðabæ. Vatnið er 27 hektarar. Það er í 38-40 m hæð yfir sjávarmáli. Meðaldýpt vatnsins er 0,5 m. Útfall úr vatninu fer í vestur í Vífilsstaðalæk og rennur til sjávar í Arnarnesvog. Berggrunnur á vatnasviði Vífilsstaðavatns er að mestu grágrýti en innst á svæðinu Vatnsbotnar er bólstraberg og móberg. Vatnið er umlukið holtum á þrjá vegu og eru hlíðarnar brattar norðan og sunnan megin og lítið undirlendi við vatnið. Áður var í holtunum lítill gróður en nú vex þar lúpína og birki. Mjög lítið yfirborðsvatn rennur í vatnið heldur fær það vatn úr grunnvatni bæði frá lindum sem eru í vatninu sjálfu og úr lindum í Dýjakrókum sem eru suðaustan við vatnið.
Vatnið og umhverfi þess voru friðlýst árið 2007 og nær friðlýsingin yfir 188 hektara en það eru vatnið og og hlíðarnar að sunnan- og austanverðu upp frá vatninu að meðtöldu Grunnavatnsskarði. Í vatninu eru sérstæðir stofnar bleikju, urriða, áls og hornsíla. Hornsílin í vatninu eru mjög sérstök þar sem þau skortir kviðgadda. Glerálar frá Ameríku og Evrópu ganga upp Vífilsstaðalæk í Vífilsstaðavatn og rannsóknir á lífríki vatnsins hafa leitt í ljós að á vatnasviði Vífilsstaðavatns mætast Evrópu- og Ameríkuálar en Ísland er eina landið sem vitað er að það gerist. í Hraunholtslæk við ósinn hefur flatfiskurinn Ósalúra fundist.
Á botni Vífilsstaðavatns mynda vatnaplöntur þéttar breiður og er síkjamari (Myriophyllum alterniforum) ríkjandi.
Andfuglar verpa við vatnið og mófuglar umhverfis það. Í vatnnu er fjöldi smádýra svo sem efjufló, rykmýslirfur, vatnabobba, vorflugupúpur og blóðsugur.
Umhverfis vatnið er útivistarstígur um 2,6 km. Reist var heilsuhæli (berklahæli) á jörðinni Vífilstöðum og stendur húsið nálægt vatninu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Vífilsstaðavatn Garðabær (Umhverfisstofnun)
- Vífilstaðavatn (Vefsíða Garðabæjar)
- Vífilsstaðavatn (Skógargátt) Geymt 30 október 2020 í Wayback Machine
- G. Björnsson, Heilsuhæli - Staðurinn fundinn, Reykjavík - 11. tölublað (17.03.1908)
- Tryggvi Þórðarson, Mengunarflokkun á Vífilsstaðavatni og efsta hluta Vífilsstaðalækjar, 2003, Garðabær