Skrúður

Hnit: 64°54′00″N 13°37′00″V / 64.90000°N 13.61667°V / 64.90000; -13.61667
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skrúður

64°54′00″N 13°37′00″V / 64.90000°N 13.61667°V / 64.90000; -13.61667 Skrúður er 160 metra há hamraeyja út frá mynni Fáskrúðsfjarðar. Þar sem hún er breiðust er hún 530 metrar en á lengd 590 metrar. Fjölskrúðugt fuglalíf er í eynni. Eggja- og fuglatekja var mikil í eyjunni fyrrum. Eyjan var friðlýst árið 1995. Skrúður er gerður úr basalti og súru gosbergi. Skrúður heyrir undir jörðina Vattarnes. Vestan megin við hann er eyjan Andey.

Skrúðsbóndinn[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt þjóðtrúnni býr í Skrúðnum Skrúðsbóndinn, sem er vættur sem rændi sauðum bænda, sem létu fé sitt ganga í eyjunni. Skrúðsbóndinn seiddi einu sinni til sín prestdóttur til fylgilags. Sagnir eru til um að Skrúðsbóndinn hafi bjargað mönnum úr sjávarháska.

Fuglalíf[breyta | breyta frumkóða]

18 fuglategundir verpa í eyjunni. Lundi er algengasti varpfuglinn þar en talið er að um 150.000 lundahjón byggi Skrúðinn. Svartfuglar eins og langvía og stuttnefja eru algengir varpfuglar í eynni, en álka og teista eru sjaldgæfari. Súla hóf að verpa í Skrúðnum árið 1943 og hefur henni fjölgað jafnt og þétt. Fýll og rita eru algengir bjargfuglar í Skrúðnum. Silfurmáfur, sílamáfur og svartbakur hafa sést í eynni. Þar hafa einnig sést æðarkollur, þúfutittlingar, maríuerlur, snjótittlingar, grágæsir, hrafnar, sæsvölur og stormsvölur.

Skrúðshellir[breyta | breyta frumkóða]

Í eyjunni er sérkennilegt náttúrufyrirbæri sem er stór hellir, sem skiptist í tvo minni hella, þann ytri og þann innri. Fremri hellirinn er áætlaður um 3200 m² og sá innri 2600 m². Hellirinn er talinn vera um 125 metra langur, 85 metra breiður og mesta hæð hans er 22 metrar. Í hellinum er lundavarp. Fyrr á tímum var róið úr Skrúðnum og þá höfðust vermenn við í Skrúðshelli.

Þann 26. desember 1986 fórst tankskipið Syneta við Skrúðinn og létust allir skipverjar. Bubbi Morthens hefur sungið eigið ljóð um þetta sjóslys.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Fuglalíf í Skrúðnum“. Sótt 20. febrúar 2006.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist