Fara í innihald

Lónsöræfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Í Tröllakrókum eru miklir drangar.
Egilssel er einn af skálum á svæðinu.

Lónsöræfi, einnig kölluð Stafafellsfjöll er landsvæði og friðland á suðaustur- Íslandi. Friðland á Lónsöræfum er í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs.

Svæðið er í umhverfi Jökulsár í Lóni og afmarkast gróflega af tindum í Vatnajökli í vestri, Skyndidalsá og flæðum Jökulsár í Lóni í suðri, Flugustaðatindum og Hofsjökli í austri og Geldingafelli í norðri.

Jarðmyndanir eru 5-7 milljón ára en þær yngstu eru frá ísöld. Brött fjöll, gljúfur, gil og fossar eru víða. Nokkrar fornar megineldstöðvar voru á svæði Lónsöræfa og er talsvert af líparíti þar sem ber keim af því. Nokkuð er af stuðlabergi á svæðinu. Í Tröllakrókum eru hrikalegir og sorfnir drangar meðfram þverhníptum hömrum.

Víða eru tindar yfir 1000 metra. Þar má nefna Sauðhamarstind (1319 m.), Jökulgilstinda (1313 m.), Hnappadalstind (1210 m) og svo rísa tindar í Vatnajökli eins og Grendill (1570 m). Af skriðjöklum eru m.a. Axarfellsjökull og Vesturdalsjökull. Í norðurhluta Lónsöræfa sést til Snæfells (1833 m.).

Birkikjarr er víða inn með Jökulsá og á köflum hávaxnari tré. Reynitré finnast en þau eru fá. Einir og gulvíðir vaxa einnig á grónum svæðum. Fjallaplöntur eins og jöklasóley og melasól fylgja skriðum niður undir láglendi.[1] Gullsteinbrjótur og bláklukka eru meðal einkennistegunda á svæðinu en þær eru hvað algengastar á Austurlandi.

Hreindýr eiga það til að halda til á svæðinu. Ýmsir fuglar eru á svæðinu eins og: Þúfutittlingur, steindepill, maríuerla, kjói, hrafn, hávella, heiðlóa og himbrimi.

Skálar á svæðinu eru Geldingafell, Egilssel við Kollumúlavatn og Múlaskáli sunnan við Kollumúla. Jeppaleið liggur frá Þórisdal í Lóni niður að Illakambi. Símasamband er mjög takmarkað á svæðinu.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Svæðið hefur tilheyrt Stafafelli í Lóni og hjáleigum þess. Þar hefur verið afréttur og er hann enn nýttur í dag. Rústir býlanna Eskifells og Grundar í Víðidal má finna innan Lónsöræfa.

Árið 1953 byggðu Lónmenn göngubrú á Jökulsá við gangnakofann í Nesi (Múlasel). Frá miðjum 7. áratugnum fór ferðafólk að leggja leið sína um vegslóða inn á Illakamb og tjaldaði undir kambinum.

Svæðið var friðlýst árið 1977 að fengnu samþykki landeigenda. Frumkvæði að friðlýsingu höfðu Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST). [2]Ferðafélag Austur-Skaftafellinga reisti Múlaskála í Nesi 1991-1992 og ári síðar byggði Ferðafélag Fljótsdalshéraðs skála við Kollumúlavatn í um 630 m hæð (Egilssel).

Göngubrú, sú lengsta á landinu var opnuð yfir Jökulsá í Lóni við Eskifell árið 2004. Hún er 95 metra löng. [3]

Kort af Lónsöræfum

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Lónsöræfi Geymt 28 maí 2015 í Wayback Machine Vatnajökulsþjóðgarður. Skoðað 14. ágúst, 2016.
  2. Lónsöræfi, Sveitarfélaginu Hornafirði Geymt 16 júlí 2016 í Wayback Machine Umhverfisstofnun, Skoðað 14. ágúst, 2016
  3. Ný göngubrú vígð í sumarMbl.is. Skoðað 14. ágúst, 2016