Gálgahraun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gálgahraun
Gróður í Gálgahrauni.

Gálgahraun er sérstæð hraunspilda á Álftanesi, nyrst í Garðahrauni við botni Lambhúsatjarnar. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Það er hluti af miklu hrauni sem þaðan rann fyrir um 8000 árum og nefnist einu nafni Búrfellshraun. Aðrir hlutar hraunsins eru t.d. Garðahraun og Hafnarfjarðarhraun. Gálgahraun er kennt við háan, klofinn hraundranga, Gálgaklett, þar sem sakamenn voru hengdir og dysjaðir. Þar var refsingarstaður þingsins í Kópavogi. Umboðsmaður Danakóngs á Bessastöðum hafði refsingarstaðinn svo til í túnjaðrinum hjá sér.

Gálgahraun er mjög sérstakt útlits, bæði úfið og hrikalegt. Talið er að glóandi hraunstraumur hafi runnið út á mýrlendi sem þarna hefur verið, suður af Lambhúsatjörn, og vatnsgufurnar hafi sprengt það allt sundur, gert í það gíga og stórar gjár, en hrúgað upp röðlum og klettum á öðrum stöðum. Í Gálgahrauni leynist að minnsta kosti einn hellir.

Jóhannes Kjarval málaði fleiri tugi málverka út í Gálgahrauni og eru sum þeirra talin með helstu meistaraverkum hans.

Í október 2013 stóðu Hraunvinir, sem er félagsskapur sem er á móti lagningu vegar gegum suðurenda hraunsins, fyrir mótmælum og lögðust fyrir vinnuvélar til að hindra framgang verkefnisins. Þann 21. október fóru fram stórfeldar handtökur á mótmælendum. Einn af þeim sem handtekinn var var Ómar Ragnarsson, skemmtikraftur og fréttamaður. [1]

Á Gálgakletti í Gálgahrauni vex sjaldgæf fléttutegund sem nefnist gálgaskegg eftir eina þekkta fundarstað hennar á Íslandi.[2] Gálgaskegg er á válista sem tegund í bráðri útrýmingarhættu á Íslandi.[3]

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Í byrjun áttunda áratugarins tók Ferðafélag Íslands að bjóða upp á gönguferðir um Gálgahraun.
  • Útivistassvæði voru á sínum tíma fyrirhuguð í Engidal, við íþróttasvæðið í Víðistaðadal, Gálgahraun norðan Álftanesvegar og hraunið og strandlengjan við Brúsastaði.
  • Eysteinn Jónsson sagði eitt sinn í viðtali: Þá eru einstök minni svæði, sem mjög mikil ástæða væri til að sinna. Ég vil sérstaklega i þvi sambandi nefna Gálgahraun, einkum norðurhluta þess, og ströndina við Lambhúsatjörn og Arnarnesvog.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ómar Ragnarsson handtekinn; grein af Vísi.is 2013[óvirkur tengill]
  2. Náttúrufræðistofnun Íslands (án árs). Gálgaskegg (Bryoria implexa). Geymt 26 október 2019 í Wayback Machine Sótt þann 26. október 2019.
  3. Náttúrufræðistofnun Íslands (1996). Válisti 1: Plöntur. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi jarðfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.