Fara í innihald

Gullfoss

Hnit: 64°19′34″N 20°07′16″V / 64.32611°N 20.12111°V / 64.32611; -20.12111
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gullfoss
Gullfoss úr lofti
Map
StaðsetningHaukadalur
Hnit64°19′34″N 20°07′16″V / 64.32611°N 20.12111°V / 64.32611; -20.12111
Hæð32 m
Fjöldi þrepa2
Hæsta fall21 m
VatnsrásHvítá
Meðalrennsli140 m3/s
Gullfoss að sumri
Gullfoss að vetri
Gullfoss árið 1934.

Gullfoss er foss í Hvítá upp af Haukadal í Árnessýslu á Íslandi, hann er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.

Virkjun Gullfoss

[breyta | breyta frumkóða]

Iðnvæðing og náttúrufegurð

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi 20. aldar var talsverð umræða í þjóðfélaginu á Íslandi um virkjun fossa, einkum í því skyni að framleiða rafmagn svo íbúar landsins og atvinna gætu blómstrað. Gullfoss var hluti þessarar umræðu.

Ekki voru allir á því að virkja bæri Gullfoss. Þar á meðal voru Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, og Jónas Jónsson frá Hriflu.

Jónas lét í það skína í skrifum sínum að virði Gullfoss væri ekki hægt að mæla með peningum. Einnig féllu þau orð strax í byrjun 20. aldar að fossinn væri konungur íslenskra fossa. Engu að síður virtust flestir sammála því að það væri mikilvægt að virkja fossinn í þágu rafvæðingar og iðnaðar.

Eigendur Gullfoss

[breyta | breyta frumkóða]

Eigendur Gullfoss um aldamótin 1900 voru Tómas Tómasson í Brattholti og Halldór Halldórsson á Vatnsleysu.

Tómas þessi var faðir Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti, sem varð þekkt síðar fyrir umleitanir sínar til að fossinn yrði látinn ósnortinn.

Virkjanaáætlanir, leiga og sala

[breyta | breyta frumkóða]

Á 20. öldinni var fossinn leigður með milligöngu innlendra aðila til innlendra og erlendra aðila, en endanlegir leigutakar leigðu hann í því skyni að virkja hann. Eigendurnir seldu fossinn aldrei frá sér á þessu „virkjanatímabili“, ekki fyrr en síðar, eins og segir frá að neðan. Ýmist voru það vatnsréttindi fossins eða réttur til iðnreksturs sem voru leigð út. Ekkert varð af virkjanaáformum, þrátt fyrir sterkan áhuga. Vitað er, að í að minnsta kosti einu tilfelli fengust ekki peningar til verksins.

Árið 1928 hættu að berast greiðslur vegna leigu á fossinum og loks árið 1934 var leigusamningnum um hann aflýst, en fossinn hafði verið í leigu samfellt frá árinu 1907.

Um 1940 keypti íslenska ríkið fossinn, en þá hafði Einar Guðmundsson eignast þann hluta fossins sem Tómas Tómasson í Brattholti hafði átt.

Eftir að Íslenska ríkið eignaðist fossinn voru gerðar áætlanir um að veita vatni úr ánni fyrir ofan fossinn til virkjunar. Voru gerðar rannsóknir og áætlanir á sjötta áratugnum fram á þann áttunda á hagnýtingu árinnar. Var ætlunin sú að virkja ána þannig að ekki sæist á fossinum yfir sumartímann að áin væri virkjuð.

Ekkert varð af þessum fyrirætlunum, og á níunda áratugnum var fossinn ekki lengur á lista yfir helstu virkjanakosti sem áformað var að ráðast í það sem eftir lifði 20. aldar.

Fossmálið

[breyta | breyta frumkóða]

Fossmálið nefndust deilur, og dómsmál sem var höfðað vegna leigu á Gullfossi.

Annar angi fossmálsins var dómsmál sem leigutaki Gullfoss, Sturla Jónsson, höfðaði til að fá það viðurkennt að hann væri handhafi vatnsréttinda í Gullfossi.

Upphaf málsins má rekja til þess að Tómas Tómasson, annar eigandi fossins, viðurkenndi ekki Sturlu sem leigutaka, en eigendurnir höfðu upphaflega leigt fossinn manni sem framleigði hann til Sturlu. Málið endaði með því að Sturla var úrskurðaður löglegur handhafi vatnsréttinda í Gullfossi.

Hinn anginn var barátta Sigríðar Tómasdóttur fyrir því að fossinn yrði ekki virkjaður og tilraunir hennar til að fá fossinn viðurkenndan sem sína séreign.

Sigríður var yfirlýstur andstæðingur þess að Gullfoss yrði virkjaður, og gekk svo langt að hóta því að henda sér í fossinn yrði hann virkjaður.

Sem fyrr segir eignaðist ríkið Gullfoss um 1940. Þá hafði Sigríður þegar selt sinn eignarhluta fossins frá sér, þegar hún seldi Einari Guðmundssyni, fóstursyni foreldra sinna, jörðina sem Brattholt stóð á. Sigríður virtist ekki treysta ríkinu fyrir fossinum og reyndi að fá lögformlega staðfestingu á að hún hefði ekki selt fossinn frá sér, en það tókst ekki. Virðist tilfinning Sigríðar hafa verið rétt, því eins og fyrr segir, voru síðar gerðar áætlanir um að veita vatni úr ánni fyrir ofan fossinn til virkjunar, en slíkt hefði gerbreytt ásýnd fossins, í það minnsta yfir vetrartímann.

Nokkuð útbreidd er sú saga að Sigríður hafi komið í veg fyrir virkjun Gullfoss og önnur saga segir að hún hafi komið í veg fyrir að útlendingar fengju eignarhald á Gullfossi. Hvorugt er rétt, aðrar ástæður komu til.

Hins vegar er rétt að Sigríður var á móti virkjun fossins, eins og fyrr segir, og var reistur minnisvarði um Sigríði árið 1978, til að minnast verka hennar. Svo var Sigríðarstofa opnuð í nágrenni fossins árið 1994.

Friðun fossins

[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun áttunda áratugarins fór viðhorf fólks í umræðu um nýtingu vatnsafls að breytast í þá átt að meira fór að bera á umræðu um náttúruvernd en áður.

Um miðjan áttunda áratuginn komu fram hugmyndir um að friðlýsa Gullfoss. Þegar menn voru komnir af stað með að útbúa friðlýsingu fyrir fossinn, bauð Einar Guðmundsson fram eins mikið land til friðlýsingar meðfram Hvítá eins og menn töldu nauðsynlegt og samkomulag næðist um. Boðið var þegið og Gullfoss og landið sem Einar gaf var friðlýst árið 1979.

Nokkrum árum eftir að Gullfoss var friðaður komu fram hugmyndir um að skilgreina fossinn innan þjóðgarðs. Það varð þó ekki niðurstaðan, heldur sú að tryggja að rétt væri staðið að verndun svæðisins ásamt því að byggja upp þjónustu við ferðamenn.

  • Unnur Birna Karlsdóttir. 2005. Gulls ígildi. Skírnir - tímarit hins íslenska bókmenntafélags, Haust 2005. 179. ár: 237-278.