Hornbjargsviti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hornbjargsviti er viti sem stendur í Látravík, sem er næsta vík fyrir austan Hornvík. Fyrr á öldum þótti Látravík ekki álitlegur kostur til ábúðar, og var hún ekki byggð fyrr en 1872, þegar Jóhann Halldórsson bóndi og refakytta settist þar að. Jóhann er talinn síðasti landnámsmaðurinn, þar sem Látravík er síðasta jörðin sem mæld var úr óskiftum almenningi hér á Íslandi. Í Látravík var svo búið allt fram til 1909, en þá fór jörðin í eyði.

Það var svo árið 1930 að Vitamálastofnun kaupir jörðina og reisir þar Hornbjargsvita. Vitinn stendur ekki á Hornbjarginu sjálfu, menn munu fljótt hafa séð að það gengi ekki að hafa vitann þar sökum erfiðleika við búsetu nálægt honum, enda þurftu vitaverðir oft að dveljast langdvölum í vitanum við skyldustörf. Vitinn var fyrstu árin knúinn með gasi og gasþrýstingi, en 1960 var byggð lítil vatnsvirkjun og vitinn raflýstur. Árið 1995 var vitinn rafvæddur með sólar og vindorku og starf vitavarðar lagt niður. Nú er vitinn nánast alsjálfvirkur, einungis er komið 1-2 sinnum á ári til eftirlits.

Vitinn stendur í um það bil 20 metra hæð yfir sjávarmáli og er hæð vitans 10,2 metrar svo ljóshæð hans er 31 metri yfir sjávarmáli. Árið 2005 leigðu Ævar Sigdórsson og Una Lilja Eiríksdóttir Látravík, og hófu þar ferðaþjónustu.[1] Brautin niður í fjöru var endurbyggð, og vatnsvirkjunin löguð. Ennþá framleiðir þessi rúmlega 100 ára gamla virkjun rafmagn á sumrin, óbreytt síðan 1962 er hún var keypt notuð frá Noregi.

Nú rekur Ferðafélag Íslands gistiskála í húsinu.

Bygging vitans[breyta | breyta frumkóða]

Hús vitans var steypt á einu sumri. Fjöldi manns vann við bygginguna, nokkra þurfti að fá „að sunnan“. Við verkið var notuð steypuhrærivél sem var nýlunda á Ströndum á þessum tíma, og sennilega sú fyrsta sem þar sást. Bertel Sigurgeirsson trésmíðameistari stjórnaði verkinu, en hann stjórnaði einnig byggingu Landakotsspítala.

Meðan á verkinu stóð, bjuggu verkamennirnir í tjöldum, en ráðskonan bjó í skála, sem einnig var matast í, í fallegri laut, skammt fyrir austan vitann. Allt efnið í vitann var aðflutt nema grjótið sem var notað í púkk með steypunni, til að drýgja hana. Sementið innflutt, en allur sandur sótt á bátum í Hornvík þar sem því var mokað í strigapoka og borið um borð í bátinn. Mestallt efnið í vitann og húsið var híft upp í svokölluðum Svelg, sem er víkin austan við vitann. Þar var reistur krani sem efnið var híft upp með, allt var þetta gert á handaflinu einu saman. Það er mikil hreyfing í Svelgnum og klettarnir í kring 15 til 20 metra háir. Þaðan var efninu ekið í hjólbörum eða bera það á bakinu á byggingarstað, um það bil 300 metra.

Seinna sáu menn að mun betri lending var fyrir vestan vitann og hófu að nota hana, en þá var byggður stigi og rennibraut niður í fjöru og allt efnið dregið þar upp.

Húsinu var breytt á byggingatímanum, það var ákveðið að steypa veggi milli hússins og vitans, þar var svo kalt rými í mörg ár, en menn tengdu aldrei saman íbuðarhús og gasgeymslu. Að þessum sökum, varð húsið svona stórt, en það var innréttað til sem hluti íbúðarhússins, þegar rafmagnið kom í vitann 1962.radíóvitinn var í „Síberíu“,sem var hluti af þessu kalda og vel loftræsta rými. það herbergi hefur verið nýtt sem matargeymsla í fjölmörg ár, enda alltaf kalt þar inni. Benedikt Jónasson Verkfræðingur hannaði vitann.

Vitaverðir[breyta | breyta frumkóða]

Í Látravík hafa verið 14 vitaverðir frá 1930:

 • Carl S. Löve; 1930-1932
 • Valdimar Stefánsson; 1932-1936
 • Frímann Haraldsson; 1936-1941
 • Jóhannes Jakobsson; 1941-1942
 • Sigmundur Guðnason; 1942-1947
 • Óskar Aðalsteinn Guðjónsson; 1947-1950
 • Arnór Jónsson; 1950-1952
 • Ágúst Bjarnason; 1952-1955
 • Halldór Víglundsson; 1955-1958
 • Kjartan Jakobsson; 1958-1960
 • Jóhann Pétursson; 1960-1984
  • Ágúst Smári Beaumont 1979-1980
  • Björk Kristjadóttir 1979-1980
 • Ragnar Halldórsson; 1984-1987
 • Álfhildur Benediktsdóttir; 1984-1987
 • Ólafur Þ. Jónsson; 1987-1995

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Guðrún Guðlaugsdóttir (2. janúar 2007). „Hús Hornbjargarvita“. Morgunblaðið.