Fara í innihald

Mia Mottley

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mia Mottley
Mia Mottley árið 2021.
Forsætisráðherra Barbados
Núverandi
Tók við embætti
25. maí 2018
ÞjóðhöfðingiElísabet 2. (til 2021)
ForsetiSandra Mason
LandstjóriSandra Mason (til 2021)
ForveriFreundel Stuart
Persónulegar upplýsingar
Fædd1. október 1965 (1965-10-01) (58 ára)
Barbados
ÞjóðerniBarbadosk
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkurinn
HáskóliQueen's College (Barbados)[1]
London School of Economics

Mia Amor Mottley (f. 1. október 1965) er barbadoskur stjórnmálamaður, núverandi forsætisráðherra Barbados og leiðtogi barbadoska Verkamannaflokksins. Mottley er áttundi forsætisráðherra landsins og fyrsta konan til að gegna embættinu. Hún hefur setið á þingi Barbados frá árinu 1994 og hefur áður verið menntamálaráðherra og ríkissaksóknari landsins.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Mia Amor Mottley fæddist árið 1965 og er komin úr barbadoskri stjórnmálafjölskyldu. Hún er barnabarn fasteignasalans Ernests Deighton Mottley, sem varð fyrsti borgarstjóri höfuðborgarinnar Bridgetown árið 1959. Hann sat á þingi fyrir Íhaldsflokkinn frá árinu 1946 og starfaði við fátækrahjálp. Hann var sæmdur liðsforingjatign í Orðu breska heimsveldisins fyrir veitta þjónustu árið 1962 og var aðstoðarmaður verslunarráðherrans Wynters Angernons Crawford við sjálfstæðisráðstefnu Barbadosa í London í júlí árið 1966. Föðurbróðir Miu Mottley, einnig nefndur Ernest Deighton Mottley, var leiðtogi hins stuttlífa Kristilega jafnaðarflokks sem stofnaður var í mars 1975.

Mia Mottley er dóttir lögfræðingsins Elliotts Deighton Mottley, sem sat í stuttan tíma á barbadoska þinginu en lét síðan af þingsæti sínu og gerðist ræðismaður Barbados í New York. Í desember árið 1964, tæpum þremur árum eftir að hann hlaut lögmannsréttindi, kvæntist hann Söntu Amor Tappin og eignaðist með henni dótturina Miu Mottley næsta ár. Elliott Deighton Mottley var síðan kjörinn á þing fyrir Bridgetown í maí árið 1969.

Mia Mottley gekk í Merrivale-grunnskólann, í Drottningarháskólann á Barbados og í Alþjóðaskóla Sameinuðu þjóðanna. Árið 1986 lauk hún lögfræðinámi við Hagfræði- og stjórnmálafræðiháskólann í London.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]
Mia Mottley flytur ræðu í Genf árið 2019.

Mia Mottley hefur tvívegis verið leiðtogi barbadoska Verkamannaflokksins: Fyrst frá 2008 til 2010 og síðan aftur frá árinu 2013 eftir að flokkurinn bað ósigur í þingkosningum árið 2013.[2]

Mottley hefur setið á barbadoska þinginu frá árinu 1994 og varð menntamálaráðherra árið 2000.[3] Hún hefur gegnt ýmsum ríkisstjórnarembættum upp frá því, meðal annars embætti aðstoðarforsætisráðherra og ríkissaksóknara. Hún var fyrsta konan í sögu Barbados til að gegna þessum embættum.[4] Árið 2016 varð hún meðlimur í bandarísku hugveitunni Inter-American Dialogue.[5]

Eftir að Verkamannaflokkurinn vann sigur í þingkosningum árið 2018 tók Mottley við af Freundel Stuart í embætti forsætisráðherra Barbados þann 25. maí.[6] Undir forystu Mottley vann flokkurinn sögulegan stórsigur með 72,8 % atkvæðanna og hreppti öll 30 sætin á barbadoska þinginu. Þessi sigur er fordæmalaus í sögu landsins.[7]

Í maí árið 2019 hlaut Mottley, ásamt karabíska íþróttamanninum og mannréttindafrömuðinum Shawn King, Demantsboltaverðlaunin fyrir veitta þjónustu að undirlagi barbadosku söngkonunnar Rihönnu.[8]

Í september árið 2019 varaði Mottley við því á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að jafnvel þótt markmiðum Sameinuðu þjóðanna um herta losun á gróðurhúsalofttegundum verði náð eigi margar eyjar í Karíbahafinu í hættu á að kaffærast vegna rísandi sjávarmáls af völdum hnattrænnar hlýnunar í náinni framtíð.[9] Hún spáði því jafnframt að heimshlýnun kunni að hleypa af stað fólksflótta og að eyríki Karíbahafs kunni að bera þyngstu byrðina af loftslagsbreytingum þrátt fyrir að losa varla nema 1 % af gróðurhúsalofttegundum. Mottley lauk máli sínu með vísun í sænska aðgerðasinnann Gretu Thunberg og sagði:

„Ungt fólk á skilið loftslagsréttlæti, og við líka.“[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Marlon Madden, "PM encourages more human interaction", Barbados Today, 5. desember 2019.
  2. „Mottley replaces Arthur as opposition leader in Barbados“ (bandarísk enska). Caribbean360. 26. febrúar 2013. Sótt 18. september 2020.
  3. Ronda Thompson (16. mars 2011). „Mottley's call for national dialogue“. www.nationnews.com (enska). Sótt 18. september 2020.
  4. „Mia Amor Mottley“ (enska). The Dialogue. Sótt 18. september 2020.
  5. „Member in the News: Mia Amor Mottley“ (enska). The Dialogue. Sótt 18. september 2020.
  6. „Barbados elects first woman PM“ (bresk enska). 25. apríl 2018. Sótt 18. september 2020.
  7. „Barbados General Election Results 2018“. www.caribbeanelections.com. Sótt 18. september 2020.
  8. „Member in the News: Mia Amor Mottley“ (enska). The Dialogue. Sótt 18. september 2020.
  9. 9,0 9,1 „Barbados PM: Caribbean Islands Will Not Survive Climate Change“. sg.news.yahoo.com (enska). Sótt 18. september 2020.


Fyrirrennari:
Freundel Stuart
Forsætisráðherra Barbados
(25. maí 2018 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti