Fara í innihald

Klassísk skilyrðing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Einn af hundum Pavlovs

Klassísk skilyrðing, einnig kölluð pavlovsk skilyrðing eða viðbragðsskilyrðing, er einföld tegund náms. Fyrstur til að lýsa slíku námi var Ivan Petrovich Pavlov, nóbelsverðlaunahafi í lífeðlisfræði.

Í klassískri skilyrðingu er óskilyrt áreiti, það er áreiti sem vekur sjálfkrafa upp tiltekið óskilyrt svar án þess að til þurfi nám, parað við hlutlaust áreiti. Pörunin veldur því að áreitið vekur einnig svörun. Það sem áður var hlutlaust áreiti kallast nú skilyrt áreiti og svarið sem það vekur kallast skilyrt svar.

Frægasta dæmið um þetta eru án efa hundar Pavlovs. Ef kjötduft er sett á tungu hunda mun munnvatnsframleiðsla þeirra aukast ósjálfrátt. Kjötduftið er því í þessu tilfelli óskilyrt áreiti og munnvatnsframleiðslan óskilyrt svar. Ef ljós er kveikt eða bjöllu er hringt (hlutlaust áreiti) áður en kjötduftið er gefið parast ljósið eða bjölluhljómurinn við kjötduftið og verður að skilyrtu áreiti. Þegar kveikt er á ljósinu eða bjallan látin óma vekur það skilyrt svar, það er: munnvatnsframleiðsla hundanna eykst, og það án þess að þeim sé gefið kjötduftið.

Ef hljómun bjöllunnar eða kviknun ljóssins er endurtekið oft án kjötduftsins verður svokölluð slokknun, það er skilyrt svar hundanna, munnvatnsframleiðslan, verður smám saman minni. Þetta þýðir þó ekki að hundarnir hafi gleymt að bjölluhljómur eða ljós paraðist við mat. Það nægir að gefa þeim kjötduft einstaka sinnum til þess að þeir byrji aftur að seyta munnvatni við það að bjallan glymji.