Fara í innihald

Loftsteinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nokkrir kolefnisþéttir loftsteinar. Frá vinstri: Allende, Tagish vatns og Murchison loftsteinarnir.

Loftsteinn er lítið himinfyrirbæri, sem aðdráttarafl jarðar dregur með miklum hraða um lofthjúpinn. Við ferð sína hitnar loftsteinninn mikið vegna núnings við sameindir andrúmsloftsins þannig að hann verður sjálflýsandi. Sést þá ljósrák á næturhimni og nefnist stjörnuhrap. Yfirleitt brenna loftsteinar til agna í lofthjúpinum en þeir stærstu lenda á yfirborðinu og geta þá myndað gíga. Minnstu loftsteinarnir eru á stærð við sandkorn, en þeir geta verið mun stærri. Hoba-loftsteinninn er stærsti loftsteinn sem fundist hefur á jörðu.

Nánar um loftsteina[breyta | breyta frumkóða]

Loftsteinar eru efnisagnir utan úr geimnum sem dragst inn í gufuhvolfið vegna aðdráttarafls jarðar. Þegar þeir falla í átt til jarðar á leið sinnni gegnum gufuhvolfið, verða þeir glóandi af hitanum sem myndast vegna loftmótstöðunnar sem þeir verða fyrir.

Flestir loftsteinar eru taldir mjög litlir, aðeins nokkur grömm. Þar af leiðandi brenna flestir þeirra upp í andrúmsloftinu á leið sinni til jarðar. Einstaka sinnum er loftsteinn það stór að hluti af honum kemst klakklaust gegnum allt gufuhvolfið og fellur á jörðina. Nokkrir slíkir hafa fundist og eru varðveittir á söfnum eða jafnvel þar sem þeir lentu.

Loftsteinar eru gerðir úr ýmsum efnasamböndum. Mest ber þó á járni. Önnur frumefni sem fyrir koma í þessum efnasamböndum eru (eftir tíðni þeirra) kalsíum, mangan, magníum, króm, kísill, nikkel og natríum. Í Murchison loftsteininum fundust amínósýrur sem talið er að hafi myndast í geiminum, og er það undirstaða ýmissa kenninga um tilurð lífs. Eftir að amínósýrur fundust einnig í Orgueil, Ivuna og Murray loftsteinunum var talið næsta víst að amínósýrur gætu myndast í ískristöllum utan jarðar.

Fjöldi og uppruni loftsteina[breyta | breyta frumkóða]

Ágiskanir um fjölda þeirra loftsteina sem koma inn í gufuhvolf jarðar á hverjum degi eru mjög mismunandi, allt frá 200.000 upp í 185.000.000. En hver sem hin raunverulega tala er, þá sjást að meðaltali um 10 loftsteinar (stjörnuhröp) á hverri klukkustund á stjörnubjartri nótti frá einum punkti á yfirborði jarðar. Ágiskanir um magn þess massa sem bætist við jörðina á hverjum degi vegna loftsteina er álíka mismunandi og ágiskanir um fjölda þeirra, eða allt frá nokkrum tonnum upp í rúm 100 tonn.

Sannast hefur að mikill fjöldi þeirra loftsteina sem koma inn í gufuhvolf jarðar á uppruna sinn að rekja til halastjarna. Þegar hali þeirra myndast dreifist hann um gifurlega stórt svæði og verða efnisagnir hans þá stundum á vegi jarðarinnar á braut hennar umhverfis sólu.

Loftsteinar hafa ekki fundist á Íslandi. Það stafar ekki af því að aldrei hafi fallið loftsteinn á landið heldur er ástæðan líklega sú að loftsteinar eru jafnan dökkir að lit og skera sig ekki mikið frá dökkleitu gosbergi Íslands.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi stjörnufræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.