Sönglag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Djasssöngkonan Billie Holiday var fræg sem bæði söngkona og textahöfundur.

Sönglag er lag með texta sem er ætlað til söngs, andstætt hljóðfæratónlist (instrúmental tónlist). Sönglag hefur þannig oft einkennandi laglínu og söngtexta sem getur verið sérstaklega saminn fyrir lagið af textasmið, eða notast við ljóð sem hefur verið samið áður af ljóðskáldi. Lagið getur verið hugsað fyrir einsöng með bakraddasöngvurum, dúett eða tríó, eða margradda hópsöng. Hugtakið sönglag er samt yfirleitt ekki notað yfir klassísk kórverk, óperulög eða óratoríur. Sönglag getur verið flutt án undirleiks (a capella) eða með stuðningi hljóðfæraleiks eða hljómsveitar. Djasssöngur getur til dæmis farið fram við undirleik á eitt píanó eða gítar eða heillar stórsveitar.

Mikið af þjóðlagatónlist og dægurtónlist eru sönglög. Þjóðlög hafa mótast í flutningi alþýðufólks í langan tíma, en dægurlög eru oft samin af atvinnulagahöfundum fyrir stóra markaði. Þau eru bæði flutt sem lifandi tónlist og gefin út. Sönghefti er safn sönglaga þar sem oft er vísað í lagboða (þekkt lag sem sungið er við söngtextann). Sönglög koma víða fyrir sem hluti af leikritum, söngleikjum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Ólíkar hefðir hafa skapast í kringum flutning á ólíkum tegundum sönglaga, eins og ljóðasöng, sagnadansa, gamanvísur, vinnusöngva, vögguvísur og messusöng. Rödduð sönglög sungin af litlum hópi söngvara, eins og keðjusöngvar og madrígalar, urðu vinsæl á barokktímanum. Farandsöngvarar sem ferðast á milli staða og flytja sönglög eiga sér ríka hefð víða um heim. Hópsöngvar eru sungnir í veislum, á krám, íþróttaleikjum og í skrúðgöngum.

Dæmigert sönglag er þáttaskipt og hefur tiltekna uppbyggingu sem er ólík eftir því um hvers konar tónlist er að ræða. Mörg nútímasönglög byggjast á erindum sem skiptast á við endurtekið viðlag með krók. Erindin eru sungin við sama lag, en stundum er annað lag notað í brú eða millikafla á milli annars og þriðja erindis, þannig að lagið fær bygginguna AABA (þar sem B er brúin). Stundum er inngangskafla og niðurlagi bætt við upphaf og enda lagsins.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi tónlistargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.