Kólera

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kólera er bakteríu-smitsjúkdómur sem berst inn í líkaman með mengaðri fæðu. Bakterían (Vibrio choler) myndar eiturefni sem festist í slímhúð þarmanna. Kólera getur valdið gríðalegum niðurgangi á stuttum tíma og einnig alvarlegu vökvatapi og vatnsskort. Ef ekki er brugðist nógu fljótlega við getur fólk dáið. Meðgöngutíminn er mjög stuttur en er hann einungis 1-5 dagar. Það getur verið flókið að greina kóleru frá öðrum gerðum af bráðaniðurgangi út frá einkennum og viðbrögðum eingöngu, þess vegna þarf að rækta sýkilinn úr blóð- eða saursýnum sjúklinga til að staðfesta að kólera sé sjúkdómurinn. Kólera dreifist með menguðu vatni og matvælum. Þegar skyndilega koma upp miklir kólerufaraldrar er orsakarinnar oftast að leita í menguðum vatnsbólum. Niðurgangurinn getur fyllt í allt 1 lítra á klukkustund, lyktin minnir á fiskifýlu og í útliti minnir hann helst á vatn með flekkjum af hrísgrjónum. Þessir flekkir eru í raun slím ásamt sýkli og þekjuvef. Sjúklingarnir missa ekki bara vatn heldur missa þeir líka mikið af nauðsynlegum söltum. Ofþornunin lýsir sér á mjög marga hætti og er það meðal annars hraður hjartsláttur, þurr húð og mikill þorsti.

Mestan hluta 20. aldar var kólera ekki þekkt í vesturheimi en skaut síðan aftur upp kollinum við lok aldarinnar. Kóleru-bakterían var fyrst einangruð og borin kennsl á af ítalanum Filippo Pacini 1854. Fyrstu einstöku bólusetninguna framkvæmdi og þróaði spænski læknirinn og bakteríusérfræðingurinn Jaume Ferran i Clua 1885, sem ennfremur var þar með fyrsti einstaka bakteríu-bólusetning manneskju en áður hafði aðeins tekist að bólusetja gegn vírusum.

Árið 2010 var áætlað að 3–5 milljón einstaklingar veiktust árlega og 58,000–130,000 dæju af völdum kóleru. Langflest tilfelli eru í þróunarlöndum og þá einkum Afríku sunnan Sahara en enfremur löndum á borð við Afganistan, Írak, Dóminíska lýðveldið og Haiti. Kringum 1980 var áætlað að fleiri en 3 milljónir létust á ári. Erfitt er að áætla nákvæmlega fjölda árlegra tilfella ekki síst vegna þess að fátækari lönd draga lappirnar í tilkynningum vegna þess þau vilja ekki fæla frá ríka ferðamenn. Í október 2016 kom upp faraldur í Jemen, sem WHO kallaði "versta farald í heimi". Kólera hefur aldrei borist til Íslands.