Fara í innihald

Malasía

Hnit: 03°08′00″N 101°42′00″A / 3.13333°N 101.70000°A / 3.13333; 101.70000
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Malaysia)

03°08′00″N 101°42′00″A / 3.13333°N 101.70000°A / 3.13333; 101.70000

Malasía
Malaysia
Fáni Malasíu Skjaldarmerki Malasíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Bersekutu Bertambah Mutu (malasíska)
Eining er styrkur
Þjóðsöngur:
Negaraku
Staðsetning Malasíu
Höfuðborg Kúala Lúmpúr
Opinbert tungumál malasíska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Ibrahim Iskandar af Johor
Forsætisráðherra Anwar Ibrahim
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Malajasambandið 31. ágúst 1957 
 • Stofnun 16. september 1963 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
67. sæti
330.803 km²
0,3
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
43. sæti
32.730.000
92/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 900,426 millj. dala (30. sæti)
 • Á mann 27.287 dalir (51. sæti)
VÞL (2019) 0.810 (62. sæti)
Gjaldmiðill Ringgit (MYR)
Tímabelti UTC+8
Þjóðarlén .my
Landsnúmer +60

Malasía er land í Suðaustur-Asíu. Það skiptist milli tveggja landsvæða; Vestur-Malasíu á Malakkaskaga og Austur-Malasíu á eyjunni Borneó, með Suður-Kínahaf á milli. Vestur-Malasía á landamæriTaílandi í norðri, og mjótt sund skilur það frá Singapúr í suðri. Austur-Malasía á landamæri að Brúnei í norðri og Indónesíu í suðri. Höfuðborg Malasíu er Kúala Lúmpúr en stjórnarsetrið er í Putrajaya. Árið 2010 var íbúafjöldi Malasíu 28,33 milljónir og þar af bjuggu 22,6 milljónir í vesturhlutanum. Höfðinn Tanjung Piai á suðurodda Vestur-Malasíu er syðsti punktur meginlands Asíu.

Uppruna Malasíu má rekja til hinna ýmsu ríkja malaja á Malakkaskaga sem lentu á áhrifasvæði Breska heimsveldisins á 18. öld. Skiptingin milli Malasíu og Indónesíu var ákveðin í samningum milli Bretlands og Hollands í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Ríkin á Malakkaskaga mynduðu síðan Malajabandalagið árið 1946 sem breyttist í Sambandsríkið Malaja árið 1948. Þetta ríki fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1957. Þetta ríki sameinaðist Norður-Borneó, Sarawak og Singapúr árið 1963 og bætti því við nafnið sem varð Malasía. Tveimur árum síðar var Singapúr rekið úr sambandinu.

Malasía er fjölmenningarríki sem hefur mikil áhrif á stjórnmál landsins. Opinber trúarbrögð Malasíu eru íslam en 20% íbúa aðhyllast búddisma, 9% kristni og 6% hindúatrú. Stjórnarfar í Malasíu er þingbundin konungsstjórn þar sem einn af fimm hefðbundnum einvöldum landsins er kjörinn konungur á fimm ára fresti. Stjórnkerfið byggist á breskri fyrirmynd.

Malasía er eitt af þeim löndum Asíu sem býr við hvað mesta efnahagslega velsæld. Hagvöxtur hefur verið 6,5% að meðaltali í hálfa öld. Efnahagslífið er drifið áfram af miklum náttúruauðlindum en hefur þróast yfir í fleiri geira. Malasía býr við nýiðnvætt markaðshagkerfi sem er það þriðja stærsta í Asíu og 29. stærsta í heimi. Malasía var stofnaðili að Sambandi Suðaustur-Asíuríkja, Leiðtogafundar Austur-Asíu, Stofnun um íslamska samvinnu, Efnahagssamvinnustofnun Asíu- og Kyrrahafslanda, Breska samveldinu og Samtökum hlutlausra ríkja.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Gervihnattarmynd af Malasíu
Malasía er í hitabeltinu og býr við hitabeltisloftslag árið um kring.

Malasía er 329.613 km² að stærð og er því 66. stærsta land heims. Það á landamæri að Taílandi í Vestur-Malasíu, og Indónesíu og Brúnei í Austur-Malasíu.[1] Malasía tengist Singapúr um mjótt eiði og brú. Landhelgi Malasíu liggur auk þess að landhelgi Víetnam[2] og Filippseyjum.[3] Landamærin liggja eftir landslagsþáttum eins og Perlis-á, Golok-á og Pagalaya-skurðinum, en mörk landhelginnar eru víða umdeild.[1] Brúnei er næstum hólmlenda innan landamæra Malasíu,[4] sem fylkið Sarawak skiptir í tvennt. Malasía er eina landið sem er bæði á meginlandi Asíu og Malajaeyjum.[5] Tanjung Piai, sem er í malasíska fylkinu Johor, er syðsti oddi meginlands Asíu.[6] Malakkasund milli eyjunnar Súmötru og meginlandshluta Malasíu er ein af fjölförnustu siglingaleiðum heims. Um 40% af vöruflutningum heimsins fara þar um.[7]

Malasía skiptist í tvo hluta með Suður-Kínahaf á milli. Báðir hlutar hafa svipað landslag, með flötum strandhéruðum sem liggja að hæðum og fjöllum.[1] Meginlandshlutinn, þar sem um 40% af Malasíu er,[5] er 740 km að lengd frá norðri til suðurs, og mesta breidd hans er 322 km.[8] Titiwangsa-fjöll skipta honum eftir endilöngum skaganum,[9] en hæsti tindur þeirra er Korbu-fjall, 2.183 metrar á hæð.[10] Fjöllin eru vaxin þéttum skógi[11] og eru aðallega mynduð úr graníti og öðru gosbergi sem er mjög veðrað og hefur myndað karstlandslag.[5] Í fjallgarðinum eiga sumar af helstu ám Malasíu upptök sín.[11] Strandhéruðin sem umkringja skagann eru mest 50 km að breidd, en strandlengja meginlandshlutans er 1.931 km að lengd. Einu hafnirnar þar eru á vesturströndinni.[8]

Kinabalu-fjall séð frá toppi pagóðu.
Kinabalu-fjall, hæsti tindur Malasíu.

Austur-Malasía er á eyjunni Borneó. Sá hluti er með 2.607 km langa strandlengju[1] og skiptist í strandhéruð, hæðir og dali, og fjalllendi innar í landinu.[5] Crocker-fjöll liggja í norður frá Sarawak og skipta fylkinu Sabah.[5] Þar er Kinabalu-fjall sem nær 4.095 metra hæð[12][13] og er hæsta fjall Malasíu. Kinbalu-fjall er í Kinbalu-þjóðgarðinum sem er einn af fjórum heimsminjastöðum í landinu.[14] Hæstu fjallgarðarnir liggja á landamærum Malasíu og Indónesíu á Borneó. Í Sarawak eru Mulu-hellar, stærsta hellakerfi heims, í Gunung-þjóðgarðinum sem er líka á heimsminjaskrá.[5]

Í kringum þessa tvo meginhluta Malasíu eru fjölmargar eyjar. Stærst þeirra er Banggi-eyja.[15] Hitabeltisloftslag er ríkjandi í Malasíu með monsúnvindum úr suðvestri frá apríl til október og norðaustri frá október til febrúar.[8] Nálægð við sjóinn dregur úr hitanum.[5] Raki er oftast mikill og meðalúrkoma er 250 cm.[8] Veðurfar er ólíkt í meginlandshlutanum og á Borneó, þar sem áhrifa meginlandsvinda gætir meira á skaganum, en áhrifa úthafsvinda gætir meira á eyjunni. Staðbundið veðurfar er breytilegt á hálendi, láglendi og við ströndina. Talið er að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á yfirborð sjávar og úrkomu, með aukinni hættu á flóðum og þurrkum.[5]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Malasía er sambandsríki sem skiptist í þrettán fylki og þrjú alríkissvæði. Ellefu fylki og tvö alríkissvæði eru á Malakkaskaga, en tvö fylki og eitt alríkissvæði á Borneó. Hvert fylki skiptist í umdæmi sem aftur skiptast í undirumdæmi (mukim). Í fylkjunum Sabah og Sarawak á Borneó eru umdæmin flokkuð í landshluta.

Fylkin þrettán byggjast á sögulegum konungsríkjum malaja. Níu þeirra eru enn með konungsfjölskyldur. Einn af hefðbundnum ráðamönnum þessara ríkja er kjörinn konungur Malasíu á fimm ára fresti. Konungurinn skipar fjóra landstjóra í þeim fylkjum sem ekki eru konungsríki eftir að hafa ráðfært sig við ráðherra þess fylkis. Hvert fylki hefur eigið þing sem situr í einni deild, og eigin stjórnarskrá. Sabah og Sarawak hafa mun meiri sjálfstjórn en önnur fylki og eru með sína eigin innflytjendalöggjöf og stjórnun landamæra.

Fylki

Listi yfir fylkin 13 og höfuðborgir þeirra (innan sviga):

  1. Johor (Johor Bahru)
  2. Kedah (Alor Setar)
  3. Kelantan (Kota Bharu)
  4. Malakka (Malakkaborg)
  5. Negeri Sembilan (Seremban)
  6. Pahang (Kuantan)
  7. Penang (George Town)
  8. Perak (Ipoh)
  9. Perlis (Kangar)
  10. Sabah (Kota Kinabalu)
  11. Sarawak (Kuching)
  12. Selangor (Shah Alam)
  13. Terengganu (Kuala Terengganu)
Alríkisumdæmi
  1. Alríkisumdæmið Kúala Lúmpúr
  2. Alríkisumdæmið Labuan
  3. Alríkisumdæmið Putrajaya

Trúarbrögð

[breyta | breyta frumkóða]
Hlutfall iðkenda trúarbragða í Malasíu, 2010.
Hlutfallsleg dreifing íbúa Malasíu eftir trúarbrögðum, byggt á manntali árið 2010.[16]

Stjórnarskrá Malasíu tryggir trúfrelsi og lýsir Malasíu formlega veraldlegt ríki, en að íslam sé „trúarbrögð sambandsins“.[17] Samkvæmt manntali frá 2010 fara trúarbrögð og þjóðerni saman. Um 61,3% íbúa Malasíu eru múslimar, 19,8% búddistar, 9,2% kristnir, 6,3% hindúatrúar, og 1,3% aðhyllast konfúsíusisma, daóisma og önnur hefðbundin kínversk trúarbrögð. 0,7% lýstu sig trúlausa og 1,4% töldu upp önnur trúarbrögð eða gáfu ekkert upp.[16] Súnní íslam og Shafi'i-skóli íslamsks réttar eru ráðandi útgáfa íslam í Malasíu.[18][19] 18% íbúa eru múslimar utan trúfélaga.[20]

Stjórnarskrá Malasíu skilgreinir sérstaklega hvað felst í því að vera Malaji. Samkvæmt henni eru Malajar múslimar, tala malajamál reglulega, viðhafa siði og venjur Malaja og búa eða eiga forfeður í Brúnei, Malasíu eða Singapúr.[5] Manntalið árið 2010 gefur til kynna að 83,6% íbúa af kínverskum uppruna aðhyllist búddisma, og stórir hlutar þeirra aðhyllist daóisma (3,4%) og kristni (11,1%), auk lítilla hópa múslima á svæðum eins og í Penang. Meirihluti íbúa af indverskum uppruna eru fylgjendur hindúatrúar (86,3%), en stórir hlutar aðhyllast kristni (6,0%) og íslam (4,1%). Kristni er aðaltrúarbrögð Bumiputera (46,5%), en 40,4% telja sig múslima.[16]

Múslimum ber að fylgja úrskurðum Syariah-dómstóla (þ.e. sjaríadómstóla) í trúmálum. Íslamskir dómarar eiga að fylgja Shafi'i-skóla íslamsks réttar sem er aðallögfræðiskóli (madh'hab) Malasíu.[18] Lögsaga Syariah-dómstólanna nær aðeins yfir múslima í tilteknum málum, sem varða til dæmis hjónaband, skilnað, trúarfráhvarf, trúskipti, forræði og fleira. Engin önnur sakamál eða önnur mál heyra undir lögsögu Syariah-dómstólanna. Borgaralegir dómstólar taka ekki fyrir mál sem heyra undir Syariah-dómstólana.[21]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Malaysia“. CIA. Sótt 27. mars 2014.
  2. „To Reduce Conflicts, Indonesia and Malaysia Should Meet Intensively“. Universitas Gadjah Mada. Sótt 26. október 2010.
  3. Prescott, John Robert Victor; Schofield, Clive H (2001). Undelimited maritime boundaries of the Asian Rim in the Pacific Ocean. International Boundaries Research Unit. bls. 53. ISBN 978-1-897643-43-3.
  4. „Brunei“. CIA. Sótt 13. september 2011.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 5,5 5,6 5,7 5,8 World and Its Peoples: Malaysia, Philippines, Singapore, and Brunei. Marshall Cavendish Corporation. 2008. bls. 1160, 1166–1192, 1218–1222. ISBN 978-0-7614-7642-9.
  6. Wei, Leow Cheah (3. júlí 2007). „Asia's southernmost tip“. Travel Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. júlí 2007. Sótt 26. október 2010.
  7. Schuman, Michael (22. apríl 2009). „Waterway To the World – Summer Journey“. Time. New York. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. apríl 2009. Sótt 16. ágúst 2011.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 Saw, Swee-Hock (2007). The population of Peninsular Malaysia. Institute of Southeast Asian Studies. bls. 1–2. ISBN 978-981-230-730-9.
  9. Stevens, Alan M. (2004). Kamus Lengkap Indonesia Inggris. Ohio University Press. bls. 89. ISBN 978-979-433-387-7.
  10. Ooi Keat Gin, Gin (2010). The A to Z of Malaysia. Rowman & Littlefield. bls. lxxxii. ISBN 978-0-8108-7641-5.
  11. 11,0 11,1 Main Range (mountains, Malaysia). Sótt 1. október 2010.
  12. Richmond, Simon (2010). Malaysia, Singapore & Brunei. Lonely Planet. bls. 74–75. ISBN 978-1-74104-887-2.
  13. Thiessen, Tamara (2012). Borneo: Sabah – Brunei – Sarawak. Bradt Travel Guides. bls. 192. ISBN 978-1-84162-390-0. Sótt 23. apríl 2014.
  14. „Mount Kinabalu – revered abode of the dead“. Ecology Asia. Sótt 17. september 2010.
  15. Daw, T. (apríl 2004). „Reef Fish Aggregations in Sabah, East Malaysia“ (PDF). Western Pacific Fisher Survey series. 5. Society for the Conservation of Reef Fish Aggregations: 17.
  16. 16,0 16,1 16,2 „Population Distribution and Basic Demographic Characteristics“ (PDF). Department of Statistics, Malaysia. bls. 82. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 22. maí 2014. Sótt 4. október 2011.
  17. Ambiga Sreenevasan (18. júlí 2007). „PRESS STATEMENT: Malaysia a secular state“. The Malaysian Bar. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. desember 2018. Sótt 6. september 2017.
  18. 18,0 18,1 Peletz, Michael G. (2002). Islamic Modern: Religious Courts and Cultural Politics in Malaysia. Princeton University Press. ISBN 978-0-691-09508-0.
  19. „Chapter 1: Religious Affiliation“. Pew Research Center. 9. ágúst 2012. Sótt 4. september 2013.
  20. „Chapter 1: Religious Affiliation“. 9. ágúst 2012. Sótt 5. október 2016.
  21. Mahathir, Marina (17. ágúst 2010). „Malaysia moving forward in matters of Islam and women by Marina Mahathir“. Common Ground News Service. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. desember 2010. Sótt 14. september 2010.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.