Maldíveyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
ދިވެހިރާއްޖޭގެ ޖުމުހޫރިއްޔާ
Dhivehi Raajjeyge Jumhooriyyaa
Fáni Maldíveyja Skjaldarmerki Maldíveyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
ekkert
Þjóðsöngur:
Gavmii mi ekuverikan matii tibegen kuriime salaam
Staðsetning Maldíveyja
Höfuðborg Male
Opinbert tungumál dívehí
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Ibrahim Mohamed Solih
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
206. sæti
298 km²
nær ekkert
Mannfjöldi
 - Samtals (2013)
 - Þéttleiki byggðar
166. sæti
393.500
1.102,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2011
 - Samtals 2.841 millj. dala (162. sæti)
 - Á mann 5.973 dalir (96. sæti)
Gjaldmiðill maldíveysk rúfía (MVR)
Tímabelti UTC+5
Þjóðarlén .mv
Landsnúmer +960

Maldíveyjar eða Maldívur eru eyríki í Indlandshafi, suðsuðvestur af Indlandsskaga. Eyjarnar eru tvær samsíða raðir baugeyja í Lakshadweep-hafi um 700 km suðvestan við Srí Lanka og 400 km suðvestan við Indland. Þær eru 26 talsins með 1.196 kóraleyjum. Eyjarnar voru mikilvægur áfangastaður í siglingum Araba um Indlandshaf. Þar fannst mikið af pontum sem voru notaðar sem gjaldmiðill í Asíu og Austur-Afríku.

Maldíveyjar eiga sér langa og merkilega sögu sem áfangastaður á siglingaleiðum um Indlandshaf. Lengst af hafa Maldíveyjar verið sjálfstæðar fyrir utan þrjú tímabil í sögu þeirra. Um miðja 16. öld voru eyjarnar um skamma hríð hluti af Portúgalska heimsveldinu og um miðja 17. öld ríkti Hollenska heimsveldið yfir eyjunum í fjóra mánuði. Eyjarnar voru Breskt verndarríki frá 1887 til 1965. Þær urðu aftur sjálfstæðar 1965.

Maldíveyjar eru á Chagos-Maldíveyja-Lakshadweep-hryggnum sem er stór neðansjávarfjallgarður í Indlandshafi. Þær mynda sérstakt vistsvæði ásamt Chagoseyjum og Lakshadweep-eyjum. Baugeyjarnar dreifast um 90.000 km² svæði sem gerir Maldíveyjar að einu dreifðasta ríki heims. Af þeim 1.192 eyjum sem mynda eyjaklasann eru 192 byggðar. Höfuðborg eyjanna og stærsta borg þeirra, Malé, er á suðurodda Norður-Malérifs. Þar búa um 100 þúsund manns. Með vísan til sögunnnar er Malé stundum kölluð Konungseyjan enda eyjan þar sem konungar Maldíveyja sátu.

Íbúar Maldíveyja eru tæp 400 þúsund. Þeir snerust til súnní íslam vegna áhrifa frá arabískum kaupmönnum á 12. öld. Súfismi á sér langa sögu á eyjunum. Opinbert tungumál eyjanna er dívehí sem er indóarískt mál en enska er líka mikið töluð.

Maldíveyjar eru minnsta land Asíu, hvort sem litið er til stærðar eða fólksfjölda. Meðalhæð yfir sjávarmáli er aðeins 1,5 metrar sem gerir þær líka að lægsta landi heims. Hæsti punktur eyjanna er aðeins 2,4 metrar yfir sjávarmáli. Hækkun sjávarborðs vegna hnattrænnar hlýnunar er því mikil ógn fyrir íbúa eyjanna.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.