Fara í innihald

Sýrland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sýrland
سُورِيَا
Sūriyā
Fáni Sýrlands Skjaldarmerki Sýrlands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Humat ad-Diyar
Staðsetning Sýrlands
Höfuðborg Damaskus
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar lýðveldi

Leiðtogi Ahmed al-Sharaa (de facto)
Forsætisráðherra Mohammed al-Bashir
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
89. sæti
185.180 km²
1,1
Mannfjöldi
 • Samtals (2024)
 • Þéttleiki byggðar
54. sæti
25.000.000
118,3/km²
VLF (KMJ) áætl. 2010
 • Samtals 107,831 millj. dala (77. sæti)
 • Á mann 5.040 dalir (131. sæti)
VÞL (2013) 0.473 (166. sæti)
Gjaldmiðill sýrlenskt pund (SYP)
Tímabelti UTC+2
Ekið er hægri megin
Þjóðarlén .sy
Landsnúmer +963

Sýrland er land í vestur-Asíu sem liggur fyrir botni Miðjarðarhafs með landamæri að Líbanon, Ísrael, Jórdaníu, Írak og Tyrklandi. Deilt er um landamærin við Ísrael (Gólanhæðir) og Tyrkland (Hatay). Höfuðborgin, Damaskus, er eitt af elstu lifandi borgarsamfélögum heims, en talið er að borgin hafi verið stofnuð um 2500 f.Kr. Nafn landsins er grískt heiti á íbúum Assýríu og hefur oft verið notað sem samheiti yfir allt landsvæðið við botn Miðjarðarhafs.

Í Sýrlandi hafa margar þjóðir ráðið ríkjum: Egyptar, Hittítar, Assýríumenn, Persar og Grikkir og komu Rómverjar til sögunnar á fyrstu öld fyrir Krist. Á 7. öld féll landið undir völd múslima en hafði verið kristið. [1] Damaskus var höfuðborg Úmajada 661 til 750 þegar Abbasídar fluttu höfuðborg hins íslamska heims til Bagdad. Ottómanveldið lagði undir sig landið 1516 og réð til loka fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Nútímaríkið Sýrland var stofnað sem hluti af yfirráðasvæði Frakklands eftir Fyrri heimsstyrjöld. Þjóðabandalagið, fyrirrennari Sameinuðu þjóðanna, svipti Tyrki löndum utan Tyrklands og úthlutaði Frökkum (Líbanon og) Sýrland. Bretar tóku við í síðari heimsstyrjöld eftir að Frakkland var hertekið af nasistum.

Eftir að landið fékk sjálfstæði voru herforingjauppreisnir tíðar. Um þriggja ára skeið var landið í ríkjasambandi við Egyptaland, 1958 til 1961.

Sýrland sagði Ísrael stríð á hendur árin 1967 í sex daga stríðinu og Jom Kippur-stríðinu árið 1973. Ísrael hertók þá Gólanhæðir í landinu.

Ba'ath-flokkurinn rændi völdum í landinu 1963 en pólitískur óstöðugleiki hélt áfram. Eftir Svarta september 1970 var Hafez al-Assad valinn þjóðarleiðtogi. Hann bældi niður uppreisnir eins og í borginni Hama árið 1982 þar sem tugúsundir voru drepin.

Sonur hans, Bashar al-Assad, var kosinn eftirmaður hans án mótframboða árið 2000.

Hörð viðbrögð stjórnar hans við friðsamlegum mótmælum þegar Arabíska vorið hófst 2011 leiddu til vaxandi átaka og borgarastyrjaldar. Bashar al-Assad var loks steypt af stóli eftir skyndisókn uppreisnarmanna í desember árið 2024. Uppreisnarhópurinn Hayat Tahrir al-Sham var í lykilhlutverki. Lauk þar með um hálfrar aldar langri stjórn Assad-fjölskyldunnar í landinu.[2]

Alþjóðastarf

[breyta | breyta frumkóða]

Sýrland er aðili að Samtökum hlutlausra ríkja. Landinu hefur verið vísað úr Samtökum um íslamska samvinnu. Sýrlandi var einnig vísað úr Arababandalaginu í byrjun borgarastyrjaldarinnar en landið fékk aftur aðild að samtökunum árið 2023.

Í Sýrlandi býr fólk af mörgum þjóðarbrotum eins og Arabar, Grikkir, Armenar, Assýríumenn, Kúrdar, Sjerkesar, Mhalmítar, Mandear og Tyrkir. Um 90% íbúa eiga arabísku að móðurmáli og súnní íslam er ríkjandi trúarbrögð í landinu.

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Sýrland skiptist í 14 héruð sem aftur skiptast í 61 umdæmi.

No. Umdæmi Höfuðstaður
Umdæmi Sýrlands
1 Latakia Latakía
2 Idlib Idlib
3 Aleppo Aleppó
4 Al-Raqqah Al-Raqqah
5 Al-Hasakah Al-Hasakah
6 Tartus Tartus
7 Hama Hama
8 Deir ez-Zor Deir ez-Zor
9 Homs Homs
10 Damaskus
11 Rif Dimashq
12 Quneitra Quneitra
13 Daraa Daraa
14 Al-Suwayda Al-Suwayda

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Sýrland liggur á milli 32. og 38. breiddargráðu norður og 35. og 43. lengdargráðu austur. Landið er að mestu þurr háslétta en strönd þess við Miðjarðarhaf er mjó og sendin ræma sem liggur frá landamærum Tyrklands í norðri að landamærum Líbanon í suðri. Mikilvæg landbúnaðarhéruð eru í norðaustri og suðri. Fljótið Efrat rennur gegnum austurhluta landsins. Sýrland er eitt þeirra landa sem eru skilgreind sem hluti af „vöggu siðmenningar“ við botn Miðjarðarhafs. Um þrír fjórðu hlutar landsins eru hálfþurr runnasteppa sem nær frá ströndinni að eyðimerkurfjallgörðum í austri. Fjórðungur landsins er skilgreindur sem ræktarland. Stærsta vatn landsins er manngerða miðlunarlónið Assadvatn við Tabqa-stífluna í Efrat, 40 km norðan við Ar-Raqqah.

Loftslag í Sýrlandi er heitt og þurrt og vetur eru mildir þótt snjókoma þekkist á hálendinu. Olíulindir uppgötvuðust í austurhluta landsins árið 1956. Helstu olíuvinnslusvæðin eru í nágrenni Deir ez-Zor og eru framhald á olíuvinnslusvæðunum við Mósúl og Kirkúk í Írak. Eftir 1974 varð olía helsta útflutningsvara landsins.

Sýrlenskur skógarbjörn (Ursus arctos syriacus)

Láglendið við strönd Sýrlands er nær alfarið ræktarland og villigróður eingöngu lágir runnar, til dæmis runnar af glóðarlyngsætt. Í suðurhlíðum fjallgarðsins sem liggur samsíða ströndinni er að finna leifar af barrskógi. Eikur og runnaeikur vaxa á hásléttunni þar sem þurrkar eru meiri. Pistacia palaestina vex villt á runnasteppunum og malurt vex á sléttunum. Sumir hlutar fjallsins Jabal al-Druze eru þaktir þéttu makkíkjarri.

Í landinu er dýralíf mjög fjölbreytt þar sem samkeppni við manninn er ekki of mikil. Einkennisdýr landsins er sýrlenskur skógarbjörn sem er þó líklega útdauður í landinu. Þar má einnig finna fjallagasellu, arabíuóryx, villiketti, otra og héra. Kameljón eru algeng auk nokkurra tegunda af slöngum og eðlum. Miðjarðarhafsmunkselur finnst við ströndina. Í Sýrlandi eru fuglar á borð við flamengó og pelíkana. Gullhamstur lifir villtur í norðurhluta Sýrlands og er í útrýmingarhættu.

Úrkoma er nokkuð algeng þar sem raki berst með vindum frá Miðjarðarhafinu. Mest af henni fellur milli nóvember og maí en þar sem fjallgarðurinn við ströndina grípur mest af því er dældin austan við hann tiltölulega þurr. Sunnan við fjöllin, við Damaskus og Homs, nær regnið lengra inn í landið. Ársmeðalhiti er frá 7°C í janúar að 27°C í ágúst. Á hásléttunni í austri er hár hiti á daginn á sumrin en næturfrost algengt frá nóvember og fram í mars.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Sýrlendingar hafa aldrei ráðið eigin örlögum Rúv, sótt 12. desember 2024
  2. Eiður Þór Árnason (8. desember 2024). „Skyndi­sókn batt enda á 24 ára valda­tíð Bashar Assad í Sýr­landi“. Vísir. Sótt 8. desember 2024.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.