Fara í innihald

Indónesía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Republik Indonesia
Fáni Indónesíu Skjaldarmerki Indónesíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Bhinneka Tunggal Ika (kaúíska)
Sameining í fjölbreytni
Þjóðsöngur:
Indonesia Raya
Staðsetning Indónesíu
Höfuðborg Djakarta
Opinbert tungumál Indónesíska
Stjórnarfar Forsetaræði

Forseti Joko Widodo
Varaforseti Ma'ruf Amin
Sjálfstæði frá Hollandi
 • Yfirlýst 17. ágúst 1945 
 • Viðurkennt 27. desember 1949 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
14. sæti
1.904.569 km²
4,85
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
4. sæti
270.203.917
141/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 3.507 millj. dala (7. sæti)
 • Á mann 12.882 dalir (96. sæti)
VÞL (2019) 0.728 (107. sæti)
Gjaldmiðill Rúpía (IDR)
Tímabelti UTC+7 til +9
Þjóðarlén .id
Landsnúmer +62

Indónesía er ríki í Suðaustur-Asíu sem samanstendur af 17.508 eyjum í Malajaeyjaklasanum. Það er stærsta ríki heims sem telst til eyjaklasa og fjórða fjölmennasta ríki heims. Indónesía er jafnframt það ríki þar sem flestir múslimar búa. Indónesía er þó ekki íslamskt lýðveldi. Höfuðborg landsins er Djakarta. Landamæri þess liggja að Papúu-Nýju Gíneu, Austur-Tímor og Malasíu. Önnur nágrannaríki eru Singapúr, Filippseyjar, Ástralía og Andaman- og Níkóbareyjar sem tilheyra Indlandi.

Landið eins og það er í dag varð til þegar nýlendur Hollendinga í Suðaustur-Asíu, Hollensku Austur-Indíur, fengu sjálfstæði á fimmta áratug tuttugustu aldar. Árið 1975 tóku Indónesar yfir austurhluta eyjunnar Tímor, en vesturhluti eyjunnar var fyrir hluti af Indónesíu. Austur-Tímor hlaut svo sjálfstæði á ný á árunum 1999 til 2002. Í Indónesíu búa mörg þjóðarbrot sem sum hver berjast fyrir sjálfstæði, svo sem í Aceh og Papúu (áður Irian Jaya). Þessi staðreynd endurspeglast í kjörorði landsins Sameining í fjölbreytni.

Nafnið Indónesía er dregið af forngrísku orðunum Ἰνδός Indos og νῆσος nesos, sem merkja „Indlandseyjar“.[1] Nafnið var búið til á 18. öld, löngu áður en nútímaríkið var stofnað.[2] Árið 1850 stakk enski ferðalangurinn George Windsor Earl upp á hugtakinu Indunesians eða (sem hann vildi heldur) Malayunesians, yfir íbúa „Indlandseyja eða Malajaeyja“.[3] Í sama riti notaði nemandi hans, James Richardson Logan, orðið Indonesia sem samheiti fyrir „Indlandseyjar“.[4][5] Hollenskir fræðimenn sem skrifuðu um Austur-Indíur voru hins vegar tregir til að nota heitið Indonesia og vildu heldur notast við Malajaeyjar (Maleisce Archipel), Hollensku Austur-Indíur (Nederlandsch Oost Indië eða einfaldlega Indië), Austrið (de Oost), eða Insulinde.[6]

Eftir 1900 varð heitið Indónesía algengara meðal fræðimanna utan Hollands, og innlendir þjóðernissinnar tóku það upp í baráttu sinni.[6] Adolf Bastian frá Berlínarháskóla gerði nafnið vinsælt með bók sinni Indonesien oder die Inseln des Malayischen Archipels, 1884–1894. Fyrsti innlendi fræðimaðurinn sem notaði nafnið var Ki Hajar Dewantara þegar hann stofnaði fréttastofuna Indonesisch Pers-bureau í Hollandi árið 1913.[2]

Indversk skip hafa frá fornu fari siglt í verslunarferðir alla leið til Afríku. Þetta skip er frá 800 e.o.t.

Steingervingar af Homo erectus sem er einnig þekktur sem Javamaðurinn benda til þess að Indónesía hafi verið byggð mönnum fyrir tveim milljónum til 500.000 árum.

Ástrónesíumenn, sem eru meirihluti af íbúum Indónesíu komu frá Tævan um 2000 f.Kr. og hröktu hina innfæddu Melanesíubúa til austurhéraða landsins. Mjög góð skilyrði til ræktunar eru í Indónesíu og hrísgrjónarækt undir vatni hófst þar á áttundu öld f.Kr. Verslun var mikil við ríki á Indlandi og í Kína.

Múskatjurtin er upprunnin á Bandaeyjum í Indónesíu. Þessi jurt var einu sinni ein eftirsóttasta varan í alþjóðaviðskiptum og laðaði fyrstu evrópsku nýlenduveldin til Indónesíu.

Frá sjöundu öld dafnaði ríkið Srivijaya en veldi þess byggðist á verslun og áhrifum af hindúisma og búddisma. Milli áttundu og tíundu aldar, risu og hnigu á eyjunni Jövu ríkin Sailendra sem var landbúnaðarsamfélag sem byggðist á búddisma og Mataram sem var hindúaríki. Þessi samfélög skildu eftir sig stór helgilíkneski eins og Borobudur og Prambanan. Hindúakonungsdæmið Majapahit var stofnað á Austur-Jövu seint á 13. öld og undir stjórn Gajah Mada þá náðu áhrif þess yfir stóran hluta Indónesíu. Þetta tímabil er oft talið gullöld í sögu Indónesíu.

Fyrstu merki um útbreiðslu Íslam í Indónesíu eru frá 13. öld á Norður-Súmötru. Smám saman breiddist múslímasiður út og varð ríkjandi trúarbrögð á Jövu og Súmötru í lok 16. aldar.

Fyrstu Evrópubúarnir komu til Indónesíu árið 1512 þegar portúgalskir verslunarmenn undir forustu Francisco Serrão reyndu að einoka uppruna múskatblaða og cubebpipars á Malukueyjum. Síðar komu hollenskir og breskir verslunarmenn og árið 1602 stofnuðu Hollendingar Hollenska Austur-Indíafélagið og urðu voldugastir Evrópumanna á eyjunum. Hollenska Austur-Indíafélagið varð gjaldþrota og leystist upp árið 1800. Ríkisstjórnin í Hollandi setti þá á stofn nýlenduna Hollensku Austur-Indíur.

Sukarno, fyrsti forseti Indónesíu

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Fjöllin Semeru og Bromo á Austur-Jövu. Eldvirkni á Indónesíu er með því sem mest gerist í heiminum.

Indónesía liggur milli 11. breiddargráðu suður og 6. breiddargráðu norður, og 95. og 151. lengdargráðu austur. Landið er stærsta eyríki heims. Það nær 5.120 km frá austri til vesturs og 1.760 km frá norðri til suðurs.[7] Samkvæmt Samstarfsráðuneyti um landhelgi og fjárfestingar telur Indónesía 17.504 eyjar (þar af 16.056 skráðar hjá Sameinuðu þjóðunum)[8] dreifðar kringum miðbaug. Af þessum eyjum er um 6.000 byggðar.[9] Stærstu eyjarnar eru Súmatra, Java, Borneó (sem Indónesía deilir með Brúnei og Malasíu), Súlavesí og Nýja-Gínea (sem Indónesía deilir með Papúu-Nýju-Gíneu).[10] Indónesía á landamæri að Malasíu á eyjunum Borneó og Sebatik, að Papúu Nýju-Gíneu á Nýju-Gíneu, og að Austur-Tímor á eyjunni Tímor. Auk þess liggur landhelgi landsins að landhelgi Singapúr, Malasíu, Víetnam, Filippseyjum, Palá og Ástralíu.

Puncak Jaya er hæsti tindur Indónesíu, 4.884 metrar á hæð. Tobavatn á Súmötru er stærsta stöðuvatnið, 1.145 km² að stærð. Lengstu ár Indónesíu eru á Kalimantan og Nýju-Gíneu. Meðal þeirra eru Kapuas-á, Barito-á, Mamberamo-á, Sepik-á og Mahakam-á. Þær eru flutningsleiðir milli helstu byggða við þær.[11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. Tomascik, Tomas; Mah, Anmarie Janice; Nontji, Anugerah; Moosa, Mohammad Kasim (1996). The Ecology of the Indonesian Seas – Part One. Hong Kong: Periplus Editions. ISBN 978-962-593-078-7.
 2. 2,0 2,1 Anshory, Irfan (16. ágúst 2004). „The origin of Indonesia's name“ (indónesíska). Pikiran Rakyat. Afrit af uppruna á 15. desember 2006. Sótt 15. desember 2006.
 3. Earl 1850, bls. 119.
 4. Logan, James Richardson (1850). „The Ethnology of the Indian Archipelago: Embracing Enquiries into the Continental Relations of the Indo-Pacific Islanders“. Journal of the Indian Archipelago and Eastern Asia. 4: 252–347.
 5. Earl 1850, bls. 254, 277–278.
 6. 6,0 6,1 van der Kroef, Justus M (1951). „The Term Indonesia: Its Origin and Usage“. Journal of the American Oriental Society. 71 (3): 166–171. doi:10.2307/595186. JSTOR 595186.
 7. Kuoni 1999, bls. 88.
 8. „16,000 Indonesian islands registered at UN“. The Jakarta Post. 21. ágúst 2017. Afrit af uppruna á 30. nóvember 2018. Sótt 3. desember 2018.
 9. „The World Factbook: Indonesia“. Central Intelligence Agency. 29. október 2018. Sótt 11. nóvember 2018.
 10. „Facts & Figures“. Embassy of the Republic of Indonesia, Washington, D.C. Afrit af uppruna á 6. júní 2017. Sótt 14. mars 2021.
 11. „Republic of Indonesia“. Microsoft Encarta. 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. október 2009. Sótt 1. nóvember 2009.