Fara í innihald

Frances Arnold

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efnaverkfræði
20. og 21. öld
Nafn: Frances Hamilton Arnold
Fædd: 25. júlí 1956 (1956-07-25) (68 ára)

Edgewood, Pennsylvaníu, Bandaríkjunum

Svið: Efnaverkfræði, lífverkfræði, lífefnafræði
Alma mater: Princeton-háskóli (BS)
Kaliforníuháskóli í Berkeley (M.S., PhD)
Helstu
vinnustaðir:
Tækniháskólinn í Kaliforníu
Verðlaun og
nafnbætur:
Nóbelsverðlaunin í efnafræði (2018)

Frances Hamilton Arnold (25. júlí 1956) er bandarískur efnaverkfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi. Hún er prófessor í efnaverkfræði, lífverkfræði og lífefnafræði við Tækniháskólann í Kaliforníu. Árið 2018 var Arnold sæmd Nóbelsverðlaununum í efnafræði fyrir rannsóknir sínar á stýrðri þróun til að byggja upp ensím.[1]

Uppvöxtur og menntun

[breyta | breyta frumkóða]

Frances Arnold er dóttir Josephine Inman og kjarneðlisfræðingsins Williams Howard Arnold. Hún er jafnframt sonardóttir herforingjans Williams Howard Arnold eldri.[2] Hún ólst upp í úthverfinu Edgewood við Pittsburgh og hverfunum Shadyside og Squirrel Hill í Pittsburgh. Hún útskrifaðist úr Taylor Allderdice-gagnfræðiskólanum í borginni árið 1974.[3] Sem gagnfræðiskólanemandi ferðaðist Arnold á puttanum til Washington, D.C. til þess að mótmæla Víetnamstríðinu og vann fyrir sér sem gengilbeina á djassklúbbi og sem leigubílstjóri.[4]

Arnold útskrifaðist úr Princeton-háskóla árið 1979 með BS-gráðu í vélaverkfræði og flugvélaverkfræði. Þar hafði hún lagt áherslu á rannsóknir á sólarorku.[5] Auk þess að ljúka skylduáföngum námsbrautar sinnar tók hún áfanga í hagfræði, rússnesku og ítölsku og sá fyrir sér að hún myndi gerast erindreki eða framkvæmdastjóri. Hún velti því fyrir sér að fara í framhaldsnám í alþjóðasamskiptum.[6] Hún tók sér eins árs hlé frá Princeton-háskóla eftir annað árið sitt þar og ferðaðist til Ítalíu til að vinna þar í verksmiðju sem framleiddi hluta í kjarnakljúfa. Að ári loknu sneri hún aftur til Bandaríkjanna til að ljúka námi.[7]

Þegar hún kom aftur til Princeton-háskóla hóf Arnold nám við Orku- og umhverfisrannsóknarstöð skólans – hóp vísindamanna og verkfræðinga sem vinna að þróun sjálfbærrar orku. Þetta átti eftir að vera eitt af meginviðfangsefnum Arnolds síðar á rannsóknarferli hennar.[7]

Eftir útskrift úr Princeton-háskóla árið 1979 vann Arnold sem verkfræðingur í Suður-Kóreu og Brasilíu og við Sólarorkurannsóknarmiðstöð Colorado.[7] Við stofnunina vann hún að hönnun sólarorkustöðva fyrir afskekkta staði og tók þátt í að rita skýrslur um málefnið fyrir Sameinuðu þjóðirnar.[6]

Arnold skráði sig síðar til náms við Kaliforníuháskóla í Berkeley og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í efnaverkfræði árið 1985.[8] Hún fékk jafnframt mikinn áhuga á lífefnafræði við skólann.[9][7] Doktorsritgerð hennar fjallaði um aðferðir við sækniskiljun.[8][10]

Eftir að hafa lokið doktorsnámi sínu lauk Arnold nýdoktorsrannsókn í lífeðlisefnafræði við Berkeley-háskóla.[11] Árið 1986 fékk hún vinnu sem gestakennari við Tækniháskólann í Kaliforníu (Caltech). Hún var gerð lektor árið 1986, dósent árið 1992 og prófessor árið 1996. Hún var útnefnd Dick og Barbara Dickinson-prófessor í efnaverkfræði, lífverkfræði og lífefnafræði árið 2000 og hlaut síðan stöðu Linus Pauling-prófessors í sömu greinum árið 2017.[12] Árið 2013 var hún útnefnd framkvæmdastjóri Lífverkfræðistofu Donnu og Benjamins M. Rosen við Caltech.[12]

Arnold sat í vísindanefnd Santa Fe-stofnunarinnar frá 1995-2000.[13] Hún er meðlimur í ráðgjafarnefnd ríkisrannsóknarstofnunarinnar Joint BioEnergy Institute og styrkjasjóðs David og Lucile Packard-stofnunarinnar fyrir vísindi og verkfræði. Auk þess situr hún í ráðgjafarráði forseta Vísinda- og tækniháskóla Abdúlla konungs og í dómnefnd fyrir verkfræðiverðlaun Elísabetar drottningar. Arnold hefur unnið við bandarísku vísindaakademíuna til að hjálpa handritshöfundum í Hollywood að skrifa á réttan hátt um vísindaleg málefni.[14]

Arnold er meðal hugarsmiða á bak við rúmlega 40 einkaleyfi í Bandaríkjunum.[9] Árið 2005 tók hún þátt í stofnun Gevo, Inc., fyrirtækis sem býr til eldsneyti og efnablöndur úr endurnýtanlegum hráefnum.[9] Árið 2013 stofnaði hún ásamt tveimur fyrrum nemendum sínum, Peter Meinhold og Pedro Coelho, fyrirtækið Provivi til að leita að öðrum leiðum en plágueyðum til að vernda akra.[9][15] Arnold hefur setið í framkvæmdastjórn erfðafræðifyrirtækisins Illumina frá árinu 2016.[16][17]

Arnold býr í La Cañada Flintridge í Kaliforníu. Hún var gift efnaverkfræðingnum Jay Bailey, sem lést úr krabbameini árið 2001.[18][16] Þau áttu son að nafni James Bailey.[19] Arnold var sjálf greind með brjóstakrabbamein árið 2005 og fór í 18 mánaða meðferð fyrir sjúkdómnum.[20][21]

Arnold giftist stjarneðlisfræðingnum Andrew E. Lange árið 1994 og eignaðist með honum tvo syni, William og Joseph.[22][19] Lange framdi sjálfsmorð árið 2010 og annar sonur þeirra, William Lange-Arnold, lést af slysförum árið 2016.[16]

Arnold hefur áhuga á ferðalögum, köfun, skíðum, torfæruhjólreiðum og fjallgöngum.[21]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Samúel Karl Ólason (3. október 2018). „Fá nóbelsverðlaun fyrir að taka stjórn á þróuninni“. Vísir. Sótt 30. nóvember 2019.
  2. Memorial Tributes. National Academies Press. 26. september 2017. doi:10.17226/24773. ISBN 978-0-309-45928-0.
  3. Guarino, Ben (3. október 2018). 'Her work is incredible': Pittsburgh native Frances Arnold shares Nobel Prize in chemistry“. Pittsburgh Post-Gazette.
  4. Kharif, Olga (15. mars 2012). „Frances Arnold's Directed Evolution“. Bloomberg Businessweek. Sótt 1. september 2012.
  5. „Princeton engineering alumna Frances Arnold wins Nobel Prize in Chemistry“. Princeton University (enska). Sótt 4. október 2018.
  6. 6,0 6,1 Ouellette, Jennifer (8. mars 2013). „The Director of Evolution“. Slate (bandarísk enska). ISSN 1091-2339. Sótt 5. október 2018.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 „Evolution Gets an Assist“. Princeton Alumni Weekly (enska). 17. október 2014. Sótt 5. október 2018.
  8. 8,0 8,1 Arnold, Frances Hamilton (1985). Design and Scale-Up of Affinity Separations) (PhD). University of California, Berkeley. OCLC 910485566 – gegnum ProQuest.
  9. 9,0 9,1 9,2 9,3 „Frances H. Arnold“. NAE Website. Sótt 3. október 2018.
  10. „A to G | Harvey W. Blanch“. stage.cchem.berkeley.edu (enska). Sótt 3. október 2018.
  11. „Interview with Frances H. Arnold – Design by Evolution“. www.chemistryviews.org (enska). Sótt 3. október 2018.
  12. 12,0 12,1 „Frances Arnold Wins 2018 Nobel Prize in Chemistry | Caltech“. The California Institute of Technology (enska). Sótt 4. október 2018.
  13. „Frances Arnold Wins Nobel Prize in Chemistry“. Santa Fe Institute (enska). Sótt 25. júlí 2019.
  14. „Frances Arnold's directed evolution“. American Association for the Advancement of Science (enska). Sótt 3. október 2018.
  15. Freeman, David (31. maí 2016). „Meet The Woman Who Launched A New Field of Scientific Study“. Huffington Post (bandarísk enska). Sótt 4. október 2018.
  16. 16,0 16,1 16,2 „This Nobel winner lost a son and two husbands and survived cancer“. NBC News (bandarísk enska). Sótt 5. október 2018.
  17. „Board of Directors“. Illumina (enska). Sótt 8. október 2018.
  18. D. S. Clarke (2002) Biotechnology and Bioengineering vol 79, no 5, page 483 "In Appreciation:James E. Bailey, 1944–2001"
  19. 19,0 19,1 Overbye, Dennis (27. janúar 2010). „Andrew Lange, Scholar of the Cosmos, Dies at 52“. The New York Times. Sótt 3. október 2018.
  20. Hamilton, Walter (3. júlí 2011). „Frances Arnold: Career path of a Caltech scientist“. Los Angeles Times. Sótt 1. september 2012.
  21. 21,0 21,1 Hamilton, Walter (3. júlí 2011). „Frances Arnold: Career path of a Caltech scientist“. Los Angeles Times (bandarísk enska). ISSN 0458-3035. Sótt 5. október 2018.
  22. „Andrew E. Lange '80“. Princeton Alumni Weekly. 21. janúar 2016. Sótt 3. október 2018.