Fara í innihald

McCarthyismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Áróðursspjald frá 6. áratugnum.

McCarthyismi er óformlegt heiti á viðleitni Bandaríkjastjórnar til að „hreinsa“ meinta kommúnista úr stjórnkerfi og skemmtanaiðnaði í Bandaríkjunum á 5. og 6. áratug 20. aldar, þegar Kalda stríðið var að hefjast og „rauða hættan“ áberandi í umræðunni. Stefnan fól í sér óttaprang og pólitískar ofsóknir gegn fólki sem grunað var um að tengjast Bandaríska kommúnistaflokknum, vera hallt undir kommúnisma eða vinveitt Sovétríkjunum. Stefnan er kennd við öldungadeildarþingmanninn Joseph McCarthy frá Wisconsin en hún var búin til af forsetanum Harry Truman ásamt J. Edgar Hoover sem þá var forstöðumaður Alríkislögreglunnar.

Mest áberandi dæmið um McCarthyisma í Bandaríkjunum voru kvaðningar fyrir rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings um and-bandarískar athafnir þar sem fólk sem var ásakað um tengsl við kommúnisma var yfirheyrt opinberlega og jafnframt beðið um að ákæra aðra. Um tíma var kvaðning fyrir nefndina nóg til að fólk missti starf sitt og stöðu í þjóðfélaginu. Óformlegir svartir listar gengu meðal fyrirtækja og stofnana og urðu til þess að útiloka fólk frá verkefnum og ráðningum í störf. Talið er að 10-12.000 manns hafi misst vinnuna vegna ofsóknanna og hundruð voru fangelsuð. Meðal þekktra fórnarlamba McCarthyismans má nefna Leonard Bernstein, Charlie Chaplin, Lucille Ball og Arthur Miller.

McCarthyisminn tók að dala eftir miðjan 6. áratuginn, einkum vegna andstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna undir stjórn Earl Warren.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.