Coventry

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Coventry
Miðborgin í Coventry
Miðborgin í Coventry
Staðsetning Coventry
Coventry í Englandi
LandEngland
SvæðiVestur Miðhéruð Englands
SýslaWarwickshire
Stofnun1043 e.Kr.
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriJohn Mutton
Flatarmál
 • Samtals98,64 km2
Mannfjöldi
 (2012)
 • Samtals323.132
 • Þéttleiki3.275,9/km2
TímabeltiGMT
Vefsíðawww.coventry.gov.uk

Coventry er borg í Englandi með 318 þúsund íbúa. Borgin varð mjög illa úti í loftárásum 1940. Coventry er elsti vinabær heims en hann myndaði tengsl við Stalíngrad (nú Volgograd) meðan seinna stríðið stóð enn yfir. Kunnasti íbúi í sögu Coventry er Lafði Godiva en sagan segir að hún hafi riðið nakin á hesti sínum um götur bæjarins á 11. öld til að losa íbúana undan skattaáþján eiginmanns síns.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Coventry er í Vestur-Miðhéruð Englands og er sú breska borg sem lengst er frá sjó. Næstu stærri borgir eru Birmingham til norðvesturs (30 km), Leicester til norðausturs (40 km), Oxford til suðurs (80 km) og London til suðausturs (140 km). Miðborgin samanstendur að miklu leyti af nýlegum byggingum, enda nær gjöreyðilagðist hún í loftárásum 1940.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Tvær tilgátur eru til um tilurð heitisins Coventry. Líklegri tilgátan er sú að borgin heitir eftir mannanafninu Cofa eða Coffa, sem átti að hafa gróðursett tré þar sem nú er miðborgin. Þannig breyttist Cofa's Tree yfir í Coventry. Hin tilgátan er sú að borgin hét upphaflega Coventre. Það er samsett úr Coven og Tre. Coven er komið úr convent, sem merkir klaustur. Tre er keltneska og merkir bær. Merkingin væri því klausturbærinn. Íbúar borgarinnar eru kallaðir Coventrians.

Saga Coventry[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Lafði Godiva. Málverk eftir John Collier ca. 1897

Talið er að byggð í Coventry hafi myndast í kringum nunnuklaustur sem stofnað var um 700 e.Kr. Byggð á staðnum var í upphafi óhagstæð sökum skóga sem varð að ryðja. Coventry kom fyrst við skjöl 1016 er Knútur ríki, sonur Danakonungs, herjaði á sveitirnar þar kring. Hann eyddi klaustrinu og byggðinni í Coventry. Staðurinn var endurbyggður um miðja 11. öld af Leofric, jarlinum af Mercíu, og eiginkonu hans Lafði Godivu. Þau stofnuðu nýtt klaustur af Benediktínusarreglu árið 1043 og helguðu það heilagri Maríu. Sagan segir að Leofric hafi skattpínt íbúa Coventry um of. Lafði Godiva fannst nóg um og bað bónda sinn ítrekað að draga úr sköttunum. Að lokum varð hann svo þreyttur á ítrekuðum beiðnum hennar að hann sagðist muni draga úr skattinum ef hún myndi ríða nakin um götur bæjarins. Lafðin tók hann á orðinu og gerði það eftir að hún hafði gefið út tilkynningu þess efnis að íbúar bæjarins skyldu halda sig innandyra og loka gluggum sínum meðan á reiðinni stæði. Sögulegum heimildum ber hins vegar ekki alveg saman við þessa þjóðsögu. 1095 flutti Robert de Limesey biskupsstól sinn til Coventry. Maríukirkjunni í klaustrinu var þá breytt í dómkirkju 1102 og stækkuð í framhaldinu.

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

María Stúart var til skamms tíma fangi í Coventry

Bærinn stækkaði ört. Hann hlaut þrenn mismunandi verslunarréttindi 1150-1200 af jarlinum af Chester og af Hinrik II Englandskonungi. Helstu vörur sem íbúar framleiddu og seldu voru ull, sápa, nálar, málmar og leðurvörur. Ullin var lituð blá og var eftirsótt víða í Evrópu. Auk þess var nokkur gler- og flísaframleiðsla í bænum. 1345 veitti Játvarður III Coventry borgarréttindi, þar á meðal réttindi til að kjósa sér borgarstjóra. Við lok 14. aldar voru íbúar Coventry orðnir 10 þúsund og þar með var borgin sú fjórða stærsta í Englandi. Auður staðarins varð til þess að borgarmúrar voru reistir til varnar. Múrarnir voru alls með 32 turna og 12 hlið. Verkinu lauk ekki fyrr en 1534 og var þá sagt að Coventry væri best varða borgin í Englandi utan London. Nokkru sinnum þingaði Englandskonungur í Coventry, sem þá var tímabundið önnur höfuðborg Englands. Helst var það Hinrik IV sem hélt þing þar 1404 og Hinrik VI meðan Rósastríðin stóðu yfir. Snemma á 16. öld leysti Hinrik VIII kaþólsku kirkjuna upp í Englandi. Var þá einnig klaustrið í Coventry lagt niður. Íbúarnir tóku vel í breytingarnar. Þegar María I Englandsdrotting (Blóð-María) reyndi að endurvekja kaþólsku kirkjuna með valdi, neituðu íbúarnir að hlýða og þoldu frekar ofsóknir. Fram til 1555 voru 12 manns brenndir á báli fyrir að neita að taka kaþólskri trú á ný. Elísabet I var gestur í Coventry 1565 og 1569 var María Stúart í varðhaldi í borginni til skamms tíma.

Borgarastríð[breyta | breyta frumkóða]

1617 sótti Jakob I konungur Coventry heim. Borgin hélt mikla veislu fyrir hann og studdi hann dyggilega. Það breyttist þó 1635 er konungur heimtaði skipaskatt, enda borgarbúar ekki hrifnir af því að þurfa að greiða aukaskatt fyrir flota konungs. Þar af leiðandi studdi borgin þingið þegar enska borgarastyrjöldin braust út. Í nokkur skipti réðist konungsherinn á borgina, en hún stóðst öll áhlaup, enda borgarmúrarnir enn í góðu standi. Í eitt skipti, 1642, birtist Karl I konungur í eigin persónu við Coventry ásamt sex þúsund manna riddaraliði en beið mikinn ósigur utan við borgarmúrana. Við lok stríðsins 1662, þegar konungdómurinn hafði verið endurreistur í landinu, lét Karl II konungur rífa niður borgarmúrana í hefndarskyni fyrir stuðning borgarbúa við þingið. Þótt Jakob II hafi fengið góðar viðtökur í Coventry 1687, fögnuðu borgarbúar innilega þegar Vilhjálmur af Óraníu varð Englandskonungur tveimur árum síðar.

Iðnbyltingin[breyta | breyta frumkóða]

Skipaskurðurinn Coventry Canal eins og hann lítur út í dag

Í upphafi iðnbyltingarinnar sköpuðu bættar samgöngur grundvöll fyrir betri afkomu iðnaðarins. Í lok 18. aldar var skipaskurðurinn Coventry Canal opnaður og 1838 fékk borgin járnbrautartengingu. Helsta atvinnugrein borgarinnar var silkivefnaður. Tíu þúsund manns störfuðu í þeirri grein 1818 en voru orðnir 25 þúsund 1857. Algert hrun varð á þessum iðnaði á sjöunda áratug 19. aldar sökum innflutnings á erlendum silkivörum. Þá skipti borgin yfir í annan iðnað, svo sem úrsmíði. 1861 unnu rúmlega tvö þúsund manns við þá iðju í borginni. Þegar sá iðnaður lenti undir í samkeppni við svissnesk og amerísk úr á níunda áratug 19. aldar, var byrjað að framleiða saumavélar og reiðhjól. 1890 var reiðhjólaframleiðslan í borginni orðinn sá stærsti í heimi, en við hann störfuðu 40 þúsund manns í 248 fyrirtækjum. Sá iðnaður þróaðist yfir í bílasmíði og loks flugvélasmíði þegar kom fram á 20. öld. Fyrsti enski bíllinn var smíðaður í Coventry 1897 hjá Daimler Motor Company. Á fyrri hluta 20. aldar fór framleiðsla á bílum ört stækkandi, en þar voru smíðaðir Jaguar, Rover og Rootes bílar. 1938 voru 38 þúsund manns starfandi í bílaiðnaðinum. 1916 hófst flugvélaframleiðsla í borginni og var hún ein sú mesta í Bretlandi fram að seinna stríði. Þegar stríðið hófst var stór hluti iðnaðarins í borginni að framleiða hergögn eða þjónusta herinn að öðru leyti.

Heimstyrjöldin síðari[breyta | breyta frumkóða]

Winston Churchill og fylgdarlið í rústum dómkirkjunnar 28. september 1941

25. ágúst 1939, aðeins nokkrum mánuðum áður en heimstyrjöldin hófst formlega, framdi frelsisher Íra (IRA) hryðjuverk í Coventry. Sprengju var komið fyrir í reiðhjólakörfu og sprakk hún í Broadgate, aðalgötu miðborgarinnar. Fimm manns biðu bana, 100 slösuðust. Coventry varð fyrir gífurlegum loftárásum þýska flughersins. Fyrstu árásirnar áttu sér stað í október 1940 og fórum fram í litlum holum í heilan mánuð. Dekkstu stundir borgarinnar hófust þó um kvöldið 14. nóvember sama ár. 515 þýskar flugvélar vörpuðu þá þúsundum sprengja yfir borgina. Árásirnar stóðu yfir í alla nótt (11 tíma) og lauk ekki fyrr en komið var fram undir morgunn. Þegar vélarnar höfðu losað sig við allar sprengjur, flugu þær til Frakklands, tóku upp nýjar og flugu beint aftur til Coventry til að halda áfram eyðingarferlinu. Þannig var borgin bókstaflega sprengd niður og látin brenna í eldhafi. Tveir þriðju hlutar borgarinnar eyðilagðist eða stórskemmdust. Miðborgin eyðilagðist að öllu leyti. Þriðjungur verksmiðja eyðilagðist, annar þriðjungur stórskemmdist og restinn hlaut minniháttar skemmdir. Aðeins 568 manns biðu bana, þar sem margir höfðu yfirgefið borgina skömmu áður og margir náðu að komast í loftvarnabyrgi í tæka tíð. Goebbels var svo ánægður með árangurinn að hann talaði um koventrieren (að gera Coventry) í þeirri meiningu að gjöreyða. Bretar kölluðu árásir þessar hins vegar Coventry Blitz. Hægt var að lagafæra margar verksmiðjanna þannig að þær gátu haldið framleiðslu sinni áfram eftir nokkra mánuði. Tvisvar enn varð borgin því fyrir loftárásum: 8.-11. apríl 1941 og 3. ágúst 1942. Enn létust hundruðir manna og margar verksmiðjur skemmdust. Coventry skemmdist meira í stríðinu en flestar aðrar enskar borgir sem urðu fyrir loftárásum. Aðeins London og Plymouth skemmdust meira.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Hillman Avenger framleiddur í Coventry

Eftir stríð varð ljóst að langflestar gömlu byggingar borgarinnar voru eyðilagðar. Miðborgin var að öllu leyti endurreist. Ekki var reynt að halda í gömlu borgarmyndina, heldur risu nútímahús, verslanir, skrifstofubyggingar og jafnvel ein allra elsta göngugata Evrópu. Skipulagið var þó ábótavant og því mynduðust engin eiginleg aðskilin hverfi og ekkert var einsleitt. Talað er um einn hrærigraut (hodge-podge) varðandi útlit og notkun bygginga í miðborginni. Sökum mikils bílaiðnaðar í borginni hlaut Coventry auknefnið Motor City og Hin breska Detroit. Ýmsar bíltegundir voru framleiddar þar, bæði breskir og erlendir. 1960 náði borgin mesta fjölda íbúa, 335 þúsund, en hefur dalað mikið síðan. Bílaiðnaðurinn staðnaði á 8. og sérstaklega 9. áratugnum og hætti með öllu 2006. Þetta olli miklum erfiðleikum og atvinnuleysi. Reyndar hafa bæði Jaguar og Peugeot heitið því að hefja framleiðslu í borginni á ný í náinni framtíð.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Godiva Festival

Godiva Festival er heiti á tónlistarhátíð en hún er nefnd eftir Lafði Godiva, þekktasta íbúa Coventry. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1997 og stóð í heilan dag. Strax árið eftir var hún lengd í þrjá daga. Tónlistarstefna hátíðarinnar er ýmis konar, allt frá poppi til reggí og hipp hopp. Aðalviðburður hátíðarinnar er Godiva-skrúðgangan, en hún hefur farið fram síðan á 17. öld.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Helsta knattspyrnufélag borgarinnar er Coventry City. Félagið spilaði í efstu deild í 34 ár, frá 1967-2001. Besti árangur þess er sjötta sætið leiktíðina 1969-70. Coventry sigraði í bikarkeppninni 1987 (sigraði þá Tottenham í úrslitaleik) en fékk ekki þátttökurétt í Evrópukeppni bikarhafa sökum atburðanna á Heysel-leikvanginum á sama ári.

Frá Coventry er vélhjólaliðið Coventry Buildbase Bees, sem keppir í efstu deild í landinu. Í liðinu eru níu hjólamenn og hafa þeir unnið mýmarga titla í gegnum tíðina, þar á meðal bikarþrennuna 2007. Á árunum 1998 og 2000 var landskeppnin í vélhjólaakstri (Speedway) háð í Coventry.

Coventry Jets er íþróttafélag sem keppir í ruðningi. Það var stofnað 2003 og er með bestu liðum landsins. Félagið varð enskur meistari 2008.

Rúgbý-liðin í borginni eru tvö: Coventry R.F.C. og Coventry Bears, en þau keppa í sitthvorri deildinni.

Önnur þekkt íþróttafélög í borginni eru Coventry Crusaders í körfubolta, Coventry Blaze í íshokkí og Coventry Godiva Harriers í frjálsum.

Árið 2005 var Coventry fyrsta enska borgin sem var gestgjafi í Alþjóðlegu barnaleikunum (International Children's Games).

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Coventry er elsti vinabær heims. Meðan seinna stríðið stóð enn yfir tengdust Coventry og Stalíngrad (nú Volgograd) vinaböndum en þar með vildu íbúar Coventry styðja íbúa Stalingrad gegn árásum þýska hersins. Samband þetta er elsta eiginlega vinabæjasamband heims. Einnig mynduðust sterk tengsl við þýsku borgina Dresden en hún varð einnig mjög illa úti í stríðinu sökum loftárása bandamanna. Tengsl Coventry og Parkes í Ástralíu mynduðust 1939 en formlega var vinasambandið ekki stofnað fyrr en síðar. Vinabæir Coventry:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Rústir dómkirkjunnar er heilög grund
Ford's Hospital

Sökum þess að Coventry varð illa úti í loftárásum seinna stríðs, eru nær engar gamlar byggingar í borginni.

  • Dómkirkjan í Coventry (einnig St Michael's Cathedral) er helsta kennileitið í Coventry. Hún var reist á 14. öld, en gjöreyðilagðist í loftárásum 1940. Aðeins turninn og ytri veggirnir stóðu eftir. Rústirnar eru friðaðar og er staðurinn nánast helgur í augum margra Breta. Turninn er 90 m hár og er hæsta mannvirki borgarinnar og þriðja hæsti kirkjuturn Englands. Eftir stríð var ný kirkja í nútímalegri stíl reist við hlið rústanna.
  • Kirkja heilagrar þrenningar (Holy Trinity Church) er elsta varðveitta kirkjan í Coventry. Hún var reist á 12. öld og kom fyrst við skjöl 1113. Kirkjan var endurreist 1665-68. Turninn var endurreistur 1826 og er 72 m hár. Kirkjan slapp á undraverðan hátt við meiriháttar skemmdir af völdum loftárása í seinna stríðinu. Árið 2002 uppgötvaðist freska frá 15. öld á loftvegg kirkjunnar sem sýnir Jesú og hinsta dóminn. Freskan er ein sú merkasta í enskri kirkju.
  • Maríuhúsið (St. Mary's Hall) er gamalt hús gildanna. Það var reist á 14. öld og notað sem höfuðstöðvar fyrir fjórar kirkjur í borginni. Það var einnig notað sem vopnabúr, en þó aðallega sem ráðhús í nokkrar aldir. 1569 var María Stúart, drottning Skotlands, sett í varðhald í húsinu til skamms tíma. Húsið dregur nafn sitt þó af gamla klaustrinu sem helgað var Maríu mey. Í dag er veitingahús í byggingunni.
  • Ford's Hospital (einnig Grey Friars Hospital) er gamalt gamlingjahæli frá 16. öld. Það var stofnað af verslunarmanninum William Ford 1509 sem dvalarstaður fyrir eldra fólk og rúmaði það 6 manns. Það hefur verið stækkað í gegnum tíðina og rúmaði mest 40 manns. Í loftárásum 1940 olli sprengja dauða sex dvalarmanna, hjúkrunarkonu og húsvarðarins. Húsið sjálft stórskemmdist, en var endurgert 1951-53. Það er friðað í dag.
  • Rómverjavirkið Lunt er endurgert virki í rómverskum stíl. 1930 fundust rómverskir leirmunir í nágrenni Coventry og við fornleifagröft á sjöunda áratugnum fannst rómverskt virki. Nútíma endurgerð á því er opin almenningi.
  • Ricoh Arena er íþróttavöllur og heimavöllur knattspyrnuliðsins Coventry City. Hann tekur rúmlega 32 þúsund manns í sæti. Leikvangurinn er einnig notaður í aðra stórviðburði, svo sem tónleika.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]