Fara í innihald

Kíl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kíl
Kiel (þýska)
Loftmynd af miðborginni
Loftmynd af miðborginni
Fáni Kílar
Skjaldarmerki Kílar
Kíl er staðsett í Þýskalandi
Kíl
Kíl
Hnit: 54°19′24″N 10°08′22″A / 54.32333°N 10.13944°A / 54.32333; 10.13944
Land Þýskaland
SambandslandSlésvík-Holtsetaland
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriUlf Kämpfer
Flatarmál
 • Borg118,6 km2
Hæð yfir sjávarmáli
5 m
Mannfjöldi
 (2022)
 • Borg247.717
 • Þéttleiki2.100/km2
TímabeltiUTC+01:00 (CET)
 • SumartímiUTC+02:00 (CEST)
Póstnúmer
24103–24159
Vefsíðakiel.de

Kíl (þýska: Kiel) er hafnarborg í Norður-Þýskalandi í Kílarflóa við strönd Eystrasalts og er höfuðborg sambandslandsins Slésvíkur-Holtsetalands. Íbúafjöldi er 247 þúsund (2019). Borgin hefur verið aðalhafnarborg og skipasmíðastöð Þýskalands frá miðri 19. öld. Hún er við eystri enda Kílarskurðarins sem tengir Eystrasaltið við Norðursjó. Borgin er þekkt fyrir Kílarvikuna (Kieler Woche) sem er stærsti siglingaviðburður heims.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Kíl liggur við botn Kílarflóa sem gengur suður inn úr Eystrasalti. Kílarskurðurinn gengur í flóann rétt norðan við miðborgina. Stór hluti vesturstrandar Kílarflóans samanstendur af hafnarsvæði. Næstu borgir eru Lübeck til suðausturs (75 km), Flensborg til norðurs (90 km) og Hamborg til suðurs (95 km).

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Kíl hefur ætíð heitið svona, en hefur ýmist verið stafsett Kyle, Kyl eða Kil. Það merkir þröngur fjörður eða þröngur vatnsfarvegur (sbr. Andakíll í Borgarfirði).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítt netlulauf á rauðum skildi. Í netlulaufinu er múraður svartur bátur. Netlulaufið á rauða skildinum er merki Schauenburg-ættarinnar sem stjórnaði Slésvík-Holtsetalandi til 1460. Báturinn merkir að Kiel er hafnarborg. Múrsteinarnir merkja borgarréttindin.

Saga Kílar[breyta | breyta frumkóða]

Hafnarsvæðið í Kíl

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Það var Schauenborgargreifinn Adolf IV. af Holtsetalandi sem stofnaði borgina Kíl milli 1233 og 1242. Hún var lengi vel nyrsta borg þýska ríkisins. 1242 fékk Kíl borgarréttindi og 1283 fékk borgin inngöngu í Hansasambandið, en var þó aldrei eins virk í því og margar aðrar borgir. Kíl var rekin úr sambandinu 1518.

Siðaskiptin og háskóli[breyta | breyta frumkóða]

Kíl í kringum árið 1600. Horft til norðurs. Mynd eftir Georg Braun og Franz Hogenberg.

Siðaskiptin í borginni hófust 1526 er Marquard Schuldorp, ættaður frá Kíl, sneri heim eftir að hafa lært hjá Marteini Lúter í Wittenberg. Borgarráðið var hrifið af kennslu hans og ákvað að taka upp nýja siðinn. Kaþólskir kennimenn voru reknir úr borginni og klaustrið var lagt niður. 1665 var Christian-Albrechts háskólinn í Kíl stofnaður. Hann fékk húsnæði í gamla klaustrinu og var nyrsti háskóli Þýskalands allt til 1946 er háskóli var stofnaður í Flensborg.

19. öldin[breyta | breyta frumkóða]

1813 var Kíl hertekin af Svíum, sem myndað höfðu bandalag gegn Napoleon. Kíl tilheyrði tæknilega séð Danmörku, en Danmörk hafði kosið að versla við Frakka, í trássi við hafnbannið sem Bretar höfðu sett á Frakkland. Í janúar 1814 var gert friðarsamkomulag í Kíl. Þar voru Danir neyddir til að ganga í bandalagið gegn Napoleon og misstu auk þess Noreg til Svíþjóðar. Danir fengu þó að halda Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. 1848 var myndað nokkurs konar lýðþing í Kíl, þar sem krafist var slita við Danmörku og sameiningu við þýska ríkið. Menn gripu til vopna, en Danir sigruðu uppreisnarmenn í orrustunni við Idstedt (nálægt Flensborg). 1864 sagði Bismarck kanslari Dönum stríð á hendur og hertók Slésvík-Holtsetaland. Kíl varð því endanlega þýsk borg, þó að flestir borgarbúar hafi öldum saman frekar tengst þýska ríkinu en Danmörku. 1867 var Kíl formlega gerð að herskipahöfn. Þar voru einnig skipasmíðastöðvar, bæði fyrir herskip og almenn skip. 1882 fór fyrsta Kílarvikan fram. 1895 var Kílarskurðurinn (á þýsku:Nord-Ostsee-Kanal) tekinn í notkun, en hann varð strax að mest notaða skipaskurði heims.

Nýrri saga[breyta | breyta frumkóða]

Í nóvember 1918 gerðu sjóliðar í Kíl uppreisn. Þetta var upphafið að nóvemberbyltingunni í Þýskalandi, sem leiddi að stórum hluta til þess að Þjóðverjar gáfust upp í heimstyrjöldinni fyrri og stofnað var Weimar-lýðveldið. En Kíl galt þess dýru verði að vera herskipahöfn. Borgin varð fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari. Um 80% af borginni eyðilagðist. Bretar hernámu borgina 1945 og var hún á hernámssvæði þeirra. 1947 var stofnað þing í Kiel og 1949 gekk Slésvík-Holtsetaland í nýstofnað Sambandsríki Þýskalands.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Kílarvikan er heimsþekkt siglingakeppni sem fer árlega fram í Kíl
  • Kíl er Ólympíuborg. Tvisvar hefur siglingakeppni Ólympíuleikanna farið fram þar. Þegar sumarleikarnir fóru fram í Berlín 1936, var siglingakeppnin haldin í Kíl. Aftur fór siglingakeppnin fram í borginni 1972, meðan sumarleikarnir fóru fram í München.
  • Kíl er ein mesta siglingaborg heims. Árlega fer þar fram Kílarvikan, en þá keppa þar þúsundir seglbátar og skútur hvaðanæva að í heiminum. Fyrsta Kílarvikan fór fram 1882.
  • Handboltaliðið THW Kiel er margfaldur þýskur meistari og Evrópumeistari. Þar hafa ýmsir íslenskir leikmenn komið við sögu. Tveir Íslendingar leika með liðinu í dag, en það eru FH-ingurinn Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson, sem lék með Gróttu og KA á Íslandi áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Alfreð Gíslason war þjálfari liðsins frá 2008 til 2019. 1983-1986 þjálfaði Jóhann Ingi Gunnarsson liðið.
  • Besta knattspyrnulið borgarinnar er Holstein Kiel. Það varð þýskur meistari 1912, en hefur leikið í neðri deildum síðustu áratugina.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Kíl viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]