Joseph Goebbels

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Joseph Goebbels
Kanslari Þýskalands
Í embætti
30. apríl 1945 – 1. maí 1945
ForsetiKarl Dönitz
ForveriAdolf Hitler
EftirmaðurLutz Schwerin von Krosigk
Áróðursmálaráðherra Þýskalands
Í embætti
14. mars 1933 – 30. apríl 1945
KanslariAdolf Hitler
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurWerner Naumann
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. október 1897
Rheydt, Mönchengladbach, þýska keisaradæminu
Látinn1. maí 1945 (47 ára) Berlín, Þýskalandi nasismans
DánarorsökSjálfsmorð
StjórnmálaflokkurNasistaflokkurinn
MakiMagda Ritschel (g. 1931)
BörnHelga, Hildegard, Helmut, Holdine, Hedwig, Heidrun
HáskóliHáskólinn í Bonn
Háskólinn í Würzburg
Háskólinn í Freiburg
Háskólinn í Heidelberg
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Paul Joseph Goebbels (29. október 18971. maí 1945) var þýskur stjórnmálamaður. Hann er þekktastur fyrir störf sín sem áróðursmálaráðherra í ríkisstjórn nasista í Þýskalandi 1933-1945.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Æska og uppvöxtur[breyta | breyta frumkóða]

Goebbels fæddist 1897 í Rheydt þar sem í dag er sambandslandið Nordrhein-Westfalen. Hann var sonur Friedrich Göbbels og Katarínu, konu hans. Goebbels átti tvo eldri bræður og tvær yngri systur.

Goebbels dúxaði á stúdentsprófi sínu 1917 og gaf sig að því loknu fram sem sjálfboðaliða við þýska herinn. Af heilsufarsástæðum þótti Goebbels óhentugur til herþjónustu og herinn tók ekki við honum.

Goebbels nam bókmenntafræði og heimspeki og skilaði 1921 inn doktorsritgerð sinni um Christian Wilhelm von Schütz. Eftir námsárin vann Goebbels ýmis störf, þar á meðal sem blaðamaður og í banka.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Eftir ósigur þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni var Goebbels rótlaus í stjórnmálunum. Hann hafnaði kapítalisma og var bæði þjóðernissinni og gyðingahatari. Um tíma gældi Goebbels bæði við hugmyndir þjóðernissinnaðra og sósíalískra flokka.

1924 gekk Goebbels til liðs við þjóðernisjafnaðarmannaflokkinn. Hann þótti framan af ferli sínum tilheyra vinstri væng flokksins, sem þótti leggja meiri áherslu á jafnaðarmennsku en á þjóðernisstefnu. Hann klifraði hratt metorðastigann innan flokksins og var gerður að yfirmanni flokksins í Berlín og Brandenborg. Hann þótti vinna þróttmikið starf fyrir flokkinn á svæði, sem að öllu jöfnu var talið vera vígi sósíaldemókrata og kommúnista. Goebbels var gerður að yfirmanni áróðursstarfs flokksins á landsvísu og eftir valdatöku nasista 1933 að áróðursmálaráðherra.

Áróðursmálaráðherra[breyta | breyta frumkóða]

Í starfi sínu sem áróðursmálaráðherra var það ábyrgð Goebbels að koma boðskapi flokksins og foringjans til þýsku þjóðarinnar. Hann þótti góður ræðumaður og var oft álitinn einskonar holdgervingur stefnu ríkisstjórnarinnar. Frægasta ræða Goebbels mun vera ræða sem hann flutti í Sportpalast-íþróttahöllinni í Berlín 1943 þar sem hann kunngjörði að Þjóðverjar hyggðust heyja hið algera stríð.

Goebbels var mjög kvensamur og nýtti sér aðstöðu sína sem áróðursmálaráðherra til þess að stíga í væng við margar helstu leikkonur í Þýskalandi á þessum tíma. Albert Speer sagði síðar að helstu leikstjórar Hollywood hefðu öfundað Goebbels af „svefnsófanum þar sem hann úthlutaði hlutverkunum.“[1]

Andlát og eftirmæli[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Adolf Hitler framdi sjálfsmorð varð Goebbels kanslari Þýskalands í samræmi við erfðaskrá foringjans. Goebbels gegndi þessu embætti aðeins í einn dag en framdi síðan sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi í Berlín þann 1. maí 1945. Goebbels og eiginkona hans, Magda frömdu bæði sjálfmorð eftir að hafa gefið börnum sínum sex eitur.

Goebbels er fyrst og fremst minnst sem talsmanns nasista, þar sem hann kom svo oft fram fyrir hönd flokksins og foringjans. Hans er líka minnst sem gyðingahatara, en Goebbels fór aldrei leynt með óbeit sína á gyðingum. Hinsvegar er umdeilt hvort Goebbels hafi átt hlut að skipulagningu helfararinnar, sérílagi eftir að dagbækur Goebbels voru gefnar út en hann færði dagbækur frá 1923 til dauðadags.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Goebbels, áróðurssnillingur Hitlers: I. hluti af fjórum“. Vikan. 3. maí 1962. bls. 8-9; 28-31.
  • „Áróðursmeistari Hitlers: „Árás táknar alltaf styrk" – 2. hluti af fjórum“. Vikan. 10. maí 1962. bls. 16-17; 30-33.
  • „Áróðursmeistari Hitlers, þriðji hluti af fjórum: Hreinsanir, morð, brennur og börn“. Vikan. 17. maí 1962. bls. 16-17; 30-33.
  • „Áróðursmeistari Hitlers, fjórði og síðasti hluti: Sviðsetning tortímingarharmleiks“. Vikan. 24. maí 1962. bls. 12-13; 28-32.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Albert Speer: 15 heiðarleg svör við 15 beinskeyttum spurningum“. Alþýðublaðið. 7. júlí 1971. bls. 6-8.


Fyrirrennari:
Adolf Hitler
Kanslari Þýskalands
(30. apríl 19451. maí 1945)
Eftirmaður:
Lutz Schwerin von Krosigk