Derby

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Derby

Dómkirkjan og nálæg gata
Staðsetning sveitarfélagsins
Nottingham í Englandi
Land England
Svæði Austur-Miðhéruð
Sýsla Derbyshire
Stofnuð Á tímum Danalaga
Flatarmál
 – Samtals

78,03 km²
Mannfjöldi
 – Samtals
 – Þéttleiki
(2012)
250.568
3.211,2/km²
Borgarstjóri Paul Bayliss
Tímabelti GMT
www.derby.gov.uk

Derby (framburður [/ˈdɑrbi/]) er borg í Austur-Miðhéruðum Englands. Derby hlaut borgarréttindi 1977 og var höfuðborg Derbyshire til 1997. Í borginni er mikil bílaframleiðsla, en þar eru Rolls Royce og Toyota með verksmiðjur. Íbúar eru tæpir 250 þúsund.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Derby liggur við ána Derwent miðsvæðis í Englandi. Næstu stærri borgir eru Nottingham til austurs (20 km), Leicester til suðausturs (40 km), Stoke-on-Trent til vesturs (50 km) og Birmingham til suðvesturs (60 km). London er 150 km til suðausturs.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Rómverjar voru með hervirki í grennd sem þeir kölluðu Derventio. Englisaxar nefndu staðinn Deoraby. Það er samsett úr orðunum Deor, sem merkir rádýr (sbr. deer á nútímaensku), og by, sem merkir bær. Sumir vilja þó meina að heiti borgarinnar sé dregið af ánni Derwent, sem merkir eikartré. Rithátturinn var lengi vel Darby, en breyttist í Derby með tímanum. Orðið Derby hefur fest sig í sessi sem heiti á veðreiðum allt síðan 1780. Orðið er þó ekki til komið frá borginni, heldur frá jarlinum af Derby (12th Earl of Derby). Derby getur einnig þýtt nágrannaslagur og þá í ýmsum öðrum íþróttum en veðreiðum.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Derby sýnir dádýr í girðingu ásamt tveimur eikartrjám. Dádýrið er nafngefandi fyrir borgina, en eikartrén gætu verið það líka (sjá orðsifjar). Merki þetta var veitt 1378 og staðfest 1637. 1939 var skjaldarberunum bætt við, en það eru tvö dádýr á afturfótunum. Efst er hjálmur með hrúti. Hrúturinn var merki Plantagenet-ættarinnar sem veitti Derby skjaldarmerkið 1378. Neðst er borði með áletruninni: INDUSTRIA VIRTUS ET FORTITUDO, sem merkir dugnaður, kjarkur og styrkur.

Saga Derby[breyta | breyta frumkóða]

Smábærinn Derby[breyta | breyta frumkóða]

Stytta af Bonnie Prince Charlie

Í upphafi reistu Rómverjar hervirki við Chester Green, sem í dag er við útjaðar borgarinnar. Þegar danskir víkingar tóku stóran hluta Englands var Derby einn af fimm meginbæjum Danalaga, en kom að öðru leyti lítið við sögu Englands næstu aldir. Í enska borgarastríðinu var þingher sendur til Derby, sem varði hana fyrir konungshernum. 1745 kom prins Karl (Bonnie Prince Charlie) við í Derby á leið til London til að krefjast krúnunnar ásamt 9 þús manna liði. Ferðin var til einskis, því liðið neitaði að halda áfram þegar til Derby var komið. Prinsinn sá því ekkert annað í stöðunni en að snúa til Skotlands. Stytta til heiðurs honum var reist í borginni á 20. öld.

Iðnbyltingin[breyta | breyta frumkóða]

Rolls Royce bifreiðar hafa verið smíðaðar í Derby síðan 1923

Iðnbyltingin hófst snemma í Derby. 1717 smíðuðu John Lombe og George Sorocold fyrstu vatnsknúnu spunavél Bretlands, en Lombe hafði lært aðferðina á Ítalíu. 1759 smíðaði Jedediah Strutt nýja spunavél (Derby Rib Attachment) í Derby. Iðnaður þessi varð til þess að Derby óx nokkuð á 18. öldinni. Þó voru íbúar árið 1801 aðeins 14 þús. Á 19. öldinni bættist vélaiðnaðurinn við og óx bærinn verulega. 1851 voru íbúarnir orðnir tæplega 50 þús og 1901 tæpir 120 þús. Eftir það hélt bærinn áfram að vaxa, en ekki eins hratt. Meiriháttar breytingar áttu sér stað snemma á 20. öld. Spunaiðnaðurinn minnkaði talsvert, en mikið af störfum sköpuðust er Rolls Royce samsteypan opnaði verksmiðju sína í Derby 1923. Verksmiðjan framleiddi bæði vélar í bíla og flugvélar. Einnig voru járnbrautir smíðaðar í Derby, en vélaiðnaður þessi var einn sá mesti í Englandi.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

1916 varð Derby fyrir loftárás frá Zeppelin loftfari í eitt skipti. Skemmdir urðu litlar, en 5 manns létu lífið. Bærinn varð hins vegar fyrir óverulegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari, þrátt fyrir hinn mikla vélaiðnað. Framleiðsla á járnbrautum og bílum jókst með tímanum. Í dag starfa um 11 þús manns í Rolls Royce verksmiðjunni einni saman. Elísabet drottning veitti Derby formleg borgarréttindi 7. júní 1977 og afhenti þau í eigin persónu 28. júlí. Í Derby er mikill fjöldi heyrnarskertra manna, sá mesti í Bretlandi utan London, vegna þess að borgin og samfélagið hefur skapað góðar aðstæður fyrir þá. Því flytja margir heyrnarskertir þangað. Fjöldi þeirra er þrisvar sinnum meiri hlutfallslega en í annars staðar í landinu.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Derby County. Liðið varð enskur meistari 1972 og 1975, bikarmeistari 1946 og vann góðgerðarskjöldinn 1975. Eftir velgengnina miklu á áttunda áratugnum hefur liðið leikið í neðri deildum. Það spilaði síðast í úrvalsdeildinni leiktíðina 2007-08 og hlaut aðeins 11 stig, en það er versti árangur allra liða í úrvalsdeild frá upphafi.

Körfuboltaliðið Derby Trailblazers var stofnað 2002 og leikur í efstu deild. Liðið varð enskur meistari 2010 og bikarmeistari 2012.

Aðrar íþróttir sem skipa háan sess í borginni eru krikket og rúgbý.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Derby viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Dómkirkjan
  • Dómkirkjan í Derby var reist á 14. öld, en kirkja hafði staðið á reitnum frá árinu 943. Turninn var reistur 1510-30 og er 65 m hár. Í kirkjunni fóru fram réttarhöld yfir Joan Waste 1556 (á tímum Blóð-Maríu), sem neitaði að hafna anglísku trú sinni fyrir kaþólsku. Hún var fundin sek og tekin af lífi. Kirkjan varð að dómkirkju 1927. Nokkrar grafir eru í grafhvelfingu undir kirkjunni.
  • Pride Park Stadium er knattspyrnuleikvangur og heimavöllur Derby County. Völlurinn var tekinn í notkun 1997 og tekur 33 þús manns í sæti.
  • Derby Silk Mill er gömul silkispunaverksmiðja sem tók til starfa 1721. Hún er safn í dag síðan 1974.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist