Arnhem

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Gelderland
Flatarmál: 101,53 km²
Mannfjöldi: 150.827 (1. janúar 2014)
Þéttleiki byggðar: 1.486/km²
Vefsíða: www.arnhem.nl
Lega
Staðsetning Nijmegen í Hollandi

Arnhem er höfuðborg héraðsins Gelderland í Hollandi. Hún er þó aðeins þriðja stærsta borgin í héraðinu með 151 þús íbúa (2014). Hart var barist um borgina í heimstyrjöldinni síðari, er bandamenn reyndu að ná brúnni yfir Rín á sitt vald.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Arnhem liggur við ána Rín austarlega í Hollandi, en þetta er nyrðri Rínararmurinn og kallast Neder-Rijn (Neðrarín). Aðeins 15 km eru til þýsku landamæranna. Næstu borgir eru Nijmegen til suðurs (15 km), Apeldoorn til norðurs (25 km), Kleve í Þýskalandi til suðausturs (35 km) og Utrecht til vesturs (60 km).

Skjaldarmerki og fáni[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Arnhem er hvítur tvíhöfða örn á ljósbláum grunni. Örninn er tákn um þýska ríkið, en einnig merki um heiti borgarinnar (Arnarborgin). Ljónin sitthvoru megin eru tákn hertogadæmið Gelders, sem Arnhem tilheyrði áður fyrr. Kórónan efst vísar til konungsríkis Hollands. Fáninn er með sama tvíhöfða örn og sömu liti.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Á tímum Rómverja hét borgin Arenacum, sem merkir arnarstaður. Arenacum breyttist í Arentheem, svo í Arneym og loks í Arnhem. Þess má geta að örn á hollensku er enn arend.

Saga Arnhem[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf Arnhem má rekja til rómverskrar herstöðvar, en staðurinn var landamærastöð að Germaníu. Virkið í herstöðinni hét Castra Herculis (Herkúlesarvirkið), en staðinn kölluðu Rómverjar Arenacum (Arnarstaðinn). Áður fyrr var mikið um erni á svæðinu. Rómverjar hurfu af svæðinu og tóku frankar við búsetu þar. Eftir tíma Rómverja kom Arnhem fyrst við skjöl árið 893 í registur Prüm-klaustursins í Þýskalandi. Bærinn stóð þá nálægt ánni Ijssel, ekki við Rín eins og í dag. Á 13. öld voru greifarnir af Geldern eigendur bæjarins. 1233 veitti Ottó greifi Arnhem borgarréttindi, sem við það dafnaði vel. 1364 var mikill bruni í borginni, sem eyðilagði nær alla miðborgina. Það var þó ekki fyrr en á 15. öld sem Arnhem fékk borgarmúra og varnarturna. Íbúar voru þá orðnir um 4.000. 1433 gekk borgin í Hansasambandið. Borgin verslaði aðallega með bjór, en í Arnhem var mikið framleitt af þeirri vöru.

Frelsisstríð[breyta | breyta frumkóða]

Karl frá Egmond

1473 keypti Karl hinn djarfi frá Búrgúnd borgina og allt héraðið Geldern, þar sem hann hafði stutt Arnold greifa af Geldern í uppreisn þar. En aðeins fjórum árum seinna féll Karl í orrustu gegn Svisslendingum og urðu því Niðurlönd öll eign Habsborgar. Austurrískt setulið var sent til Arnhem, en borgin þurfti að sjá því fyrir húsaskjól og vistum. Síðasti erfingi Geldern, Karl frá Egmond, hóf hins vegar einkastríð gegn Habsborg. 1514 réðist hann á Arnhem og hrakti þaðan alla Austurríkismenn. Hann reyndi að frelsa aðrar borgir, en lést í Arnhem 1538. Á þessum árum, 1530-36 var árfarvegi nyrðri Rínararmsins (Nederrijn) breytt og færður örlítið norðar. Þar með sleikti fljótið syðri borgarmörk Arnhem. Þetta gerði það að verkum að útflutningur verslunarvara varð einfaldari og borgin efldist. 1543 erfði Karl V keisari Niðurlönd, sem eftirlét Filippus syni sínum þau. Filippus var einnig konungur Spánar og sendi hertogan af Alba til Niðurlanda, en hann stjórnaði þeim með harðri hendi. Norðurhéruð Niðurlanda gerðu því uppreisn. Arnhem var stofnfélagi í Utrecht-sambandinu 1579 gegn Spánverjum. Í frelsisstríðinu náðu Spánverjar aldrei að taka Arnhem. Þar var enskur her til aðstoðar í nokkur ár. Márits af Óraníu, arftaki ríkisstjórans Vilhjálms, sat í Arnhem 1619-23 og lét styrkja borgarmúrana verulega. En ekki var ráðist á Arnhem frekar í þessu stíði. Eftir að friður var saminn 1648, voru varnir borgarinnar vanræktar. Þegar þriðja verslunarstríð Hollendinga og Englendinga hófst 1672, réðust Frakkar á Arnhem og hertóku hana. Þeir yfirgáfu borgina aftur eftir tvö ár. Við tók friður og uppgangur í borginni.

Frakkar og 19. öldin[breyta | breyta frumkóða]

Ráðhúsið í Arnhem 1840

Franskur byltingarher hertók Holland 1795 og stofnaði Batavíu-lýðveldið. 17. janúar birtust Frakkar við borgardyr Arnhem, sem ekki gat varið sig. Vilhjálmur V af Óraníu flúði til Englands. Frakkar stjórnuðu borginni næstu árin. Við endurskipulagningu landsins varð Arnhem höfuðborg sýslunnar (département) Yssel-Supérieur. Eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi sóttu bandamenn til vesturs. Prússar frelsuðu borgina um sumarið 1813, sem aftur varð hollensk. Lítill iðnaður var í Arnhem á tímum iðnbyltingarinnar. 1850 bjuggu þar aðeins 9.000 manns. En borgin var vinsæl sem dvalarstaður fyrir hefðarfólk frá vesturhéruðunum (t.d. frá Amsterdam og Haag). Því mynduðust þar margar villur og stórir almenningsgarðar. Enn í dag kalla margir Hollendingar borgina ‚Parkstad,‘ sem merkir garðaborg. Einnig varð borgin vinsæl ráðstefnuborg, sem og viðkomustaður ferðamanna.

Orrustan um Arnhem[breyta | breyta frumkóða]

Brúin í Arnheim eftir að Bretar hörfuðu þaðan. Til hægri má sjá ónýtar byggingar.
Sama brúin í dag. Í forgrunni er minnisvarði um bardagann.
Rafstrætó

Síðan 1603 hefur aðeins flotbrú verið yfir Rín við Arnhem. Þegar kom fram á 20. öld jókst þörfin fyrir nýrri og betri brú, sökum aukinna samgangna. Núverandi brúin yfir Rín var smíðuð 1932-35 og þótti mikil samgöngubót. En aðeins fimm árum eftir víglsuna réðust Þjóðverjar inn í Holland. Þá tóku hollenskir verkfræðingar það til bragðs að sprengja miðskipið á brúnni til að gera nasistum erfiðara fyrir að komast um landið. Engu að síður náðu Þjóðverjar að hertaka borgina nær átakalaust. Fyrir hernaðinn settu þeir niður flotbrú yfir Rín og létu gera við stálbrúna. Smíðinni lauk ekki fyrr en í ágúst 1944. Aðeins mánuð síðar réðust bandamenn inn í Holland í þeirri viðleitni að frelsa landið og sækja lengra austur til Þýskalands. Verkefni þetta kallaðist Market Garden. Fyrsta skrefið var ná yfirráðum yfir öllum brúm yfir Maas og Rínararmana. Þetta gekk eftir í nokkrum borgum. Fámennur breskur her (740 manns) undir stjórn John Frost var sendur til Arnhem til að taka brúna. En þar mættu þeir mikilli andspyrnu Þjóðverja. Í fjóra daga héldu Bretarnir út gegn ofureflinu og var hart barist nær allan tímann. Þjóðverjar rýmdu borgina og sendu Hollendinga burt, en þar bjuggu þá 95 þús manns. Engin önnur hollensk borg lenti í harðari skotbardaga og ollu þeir talsverðum skemmdum. Að lokum létu Bretar undan síga og var bjargað af bandamönnum nálægt bænum Oosterbeek. Brúin sjálf skemmdist lítið við þessi átök, en 7. október sama ár sprengdu bandamenn brúna til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu notað hana fyrir hergagnaflutninga. Eftir stríð var gert við brúna. Það voru síðan kanadískar hersveitir sem frelsuðu borgina úr höndum nasista á vormánuðum 1945.

Eftir stríð[breyta | breyta frumkóða]

Skömmu eftir stríð hóf Arnhem að nota strætisvagna með rafkerfi (vírkerfi) fyrir ofan vagnana, eina borgin í Hollandi sem það gerir. Því nefna gárungar borgina oft Trolleystad, en Trolley kallast rafvagnarnir. Borgin dafnaði vel. Í dag eru uppi áætlanir um að reisa fleiri hverfi og er reiknað með að íbúafjöldinn fari yfir 160 þús á næstu árum.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er allt sem sýnist. Þessi stytta er lifandi manneskja.

World Statues Festival er árleg keppni í lifandi myndastyttum í borginni. Keppninni var hleypt af stokkunum 1996 og voru keppendur þá eingöngu Hollendingar. En með árunum fóru erlendir keppendur að taka þátt, þannig að eftir 2004 er talað um óopinbera HM í lifandi myndastyttum. Keppendur skreyta sig og klæða í ýmis gervi og stilla sér út sem myndastyttur. Keppnin fer fram síðustu helgina í ágúst. Á laugardegi fá krakkar að spreyta sig, en á sunnudeginum er keppni fullorðinna. Um 350 þús manns sækja borgina heim til að fylgjast með.

Á uppstigningardegi ár hvert er haldin Harley Davidson hátíð í Arnhem. Hún er skipulögð af Harley Davidson klúbbnum í Hollandi.

Rio aan de Rijn (Ríó við Rín) er heitið á sumarkarnevalinu í Arnhem. Hátíðin stendur yfir í miðborginni í þrjá daga og dregur hún að sér um 150 þús gesti.

Á köldum dögum á veturna er íshátíðin Warme Winter Weken haldin í borginni. Á hátíðinni er keppt í íshöggvi (icecarving), sett er upp ísbraut, settar eru upp leiksýningar og tónleikar, og ýmislega fleira.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Á síðustu árum hefur Arnhem hlotið ýmsar viðurkenningar.

  • 2007: Besta miðborg Hollands 2007-2009.
  • 2008: Grænasta borgin í Hollandi
  • 2009: Besta viðburðaborgin í Hollandi
  • 2009: Grænasta borgin í Evrópu

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Grote kerk
  • Stóra kirkjan (Groote kerk) var reist 1452-1560 og helguð heilögum Eusebiusi. Þar hvílir hertoginn Karl frá Egmond sem stríddi gegn Habsborg nær allt sitt líf. Í seinna stríðinu stórskemmdist kirkjan. Í viðgerðum eftir stríð fékk kirkjan nýjan turn sem er 93 metra hár. Kirkjan er þó ekki vígð. Engar guðsþjónustur fara þar fram, heldur ýmsir menningarviðburðir.
  • John Frost brúin yfir Rín var reist 1932-35. Hún var í brennidepli í heimstyrjöldinni síðari, er fáliðaður breskur her reyndi að ná yfirráðum yfir henni og lenti í stórorrustu við ofurefli nasista.
  • Nederlands Openluchtmuseum er nokkurs konar byggðasafn í Arnhem. Húsin sem þar eru til sýnis gefa innsýn í Holland síðustu 350 árin. Safnið var stofnað 1912 í því skyni að varðveita gamlar hollenskar alþýðubyggingar og opnað 1918. Í seinna stríðinu skemmdust mörg húsin. Þar eru nú 80 hús, íbúðarhús, verkhús, kirkja, vindmylla og verslanir. Árið 2005 var safn þetta kjörið sem safn ársins í Hollandi.
  • Maarten van Rossum Huis er einnig kallað Duivelshuis, sem merkir djöflahúsið. Það var reist 1545 af van Rossum hershöfðingja. En 1830 var það gert að ráðhúsi borgarinnar og er það enn. Styttan á þaki hússins er af van Rossum.
  • Sabelspoort er heiti á gömlu borgarhliði. Það var reist 1357 og var hluti af varnarmúrum borgarinnar, sem mikið reyndi á í sjálfstæðisstríðinu. Hliðið var einnig notað sem fangelsi. Fyrir heimstyrjöldina síðari voru aðrar byggingar allt í kringum hliðið, en sökum þess að þær eyðilögðust í átökum voru þær rifnar. Nú stendur hliðið því eitt og sér og nýtur sín vel.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Arnhem“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. júní 2011.