Fara í innihald

Dresden

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dresden
Skjaldarmerki Dresden
Staðsetning Dresden
SambandslandSaxland
Flatarmál
 • Samtals328,31 km2
Hæð yfir sjávarmáli
112 m
Mannfjöldi
 • Samtals536.308 (31 des 2.014)
 • Þéttleiki1.634/km2
Vefsíðawww.dresden.de

Dresden er höfuðborg þýska sambandslandsins Saxlands og er með 536 þúsund íbúa (31. desember 2014). Hún er þó ekki nema næststærsta borg Saxlands (Leipzig er fjölmennari). Dresden var áður fyrr höfuðborg kjörfurstadæmisins og konungsríkisins Saxlands. Borgin er þekkt fyrir ægifagrar byggingar og mikla menningu. Hún var nánast þurrkuð út af landakortinu í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Glæsibyggingar í miðborg Dresden. Til hægri er Saxelfur.

Dresden liggur við Saxelfi um miðbik sambandslandsins, rétt norðan við tékknesku landamærin. Næstu borgir eru Chemnitz til vesturs (40 km), Leipzig til norðvesturs (60 km), Cottbus til norðausturs (70 km) og Prag í Tékklandi til suðausturs (90 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Dresden er lóðrétt tvískiptur skjöldur. Til vinstri er svart ljón á gulum grunni, en ljónið er tákn markgreifadæmisins Meissen. Til hægri eru tvær lóðréttar svartar rendur á gulum grunni en rendurnar tákna markgreifadæmið Landsberg. Bæði táknin voru þegar til árið 1309 sem innsigli borgarinnar.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Dresden er dregið af slavneska orðinu drezdany, sem merkir mýraskógabúar.[1] Upphaflega er um tvær borgir að ræða, Dresden og Altendresden, en borgirnar sameinuðust ekki fyrr en 1549. Dresden er stundum kölluð Flórens við Elfina (Elbflorenz, Florenz an der Elbe) og er með þeim orðum vísað til hinna frægu listaverka og listasafna sem eru í borginni.

Saga Dresden[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Snemma á 10. öld náði Hinrik I keisari að leggja undir sig héraðið úr höndum slava. Hann stofnaði markgreifadæmið Meissen og þegar Dresden byggðist upp sem bær tilheyrði hann því. Bærinn kom fyrst við skjöl 1206. Í öðru skjali frá 1216 kemur fram að Dresden sé þegar komin með borgarréttindi. Dresden reis við vestari bakka Saxelfar. Við eystri bakkan myndaðist önnur byggð sem kallaðist Altendresden (Gamla Dresden). 1403 fékk Altendresden borgarréttindi og er því hér um tvær aðskildar borgir að ræða. 1429 lögðu hússítar borgirnar í rúst. Þær voru ekki sameinaðar í eina borg fyrr en 1549. Þrátt fyrir það var Dresden á þessum tíma enn frekar lítil og ómerk. 1485 var Saxlandi skipt í tvennt er synir kjörfurstans erfðu landið eftir föður sinn. Einn sonanna, Albert, ákvað að gera Dresden að aðsetri sínu. Í kjölfarið óx borgin og margar skrautbyggingar risu. Eftirmaður hans innleiddi siðaskiptin í borgina og varð einnig að kjörfursta. Þar með varð Dresden að einni mikilvægustu borg lúterstrúarmanna í þýska ríkinu.

Stríðstímar[breyta | breyta frumkóða]

Dresden 1750

Í 30 ára stríðinu var Dresden hlutlaus til að byrja með. En þegar leið á stríðið kaus borgin að ganga til liðs við keisaraherinn og mótmælendur til skiptis, allt eftir því hvernig aðstæður voru hverju sinni. Borgin var víggirt og var aldrei hernumin í stríðinu. Þannig var Dresden með fáum stórborgum sem sluppu við stríðsátök og hersetu. Hins vegar ríkti oft hungursneyð í borginni og drepsóttir herjuðu á íbúa á stundum. 1685 eyddi stórbruni Altendresden gjörsamlega. Eftir uppbygginguna var hætt að nota heitið Altendresden heldur Neustadt, sem í dag er miðborgin sjálf. Glanstími borgarinnar hófst 1697 er furstinn Friðrik Ágúst I (kallaður hinn sterki) varð konungur Póllands í gegnum erfðir. Þá varð Saxland og Pólland undur stjórn sama manns. Í kjölfarið voru reistar ýmsar skrautbyggingar í Dresden, bæði kirkjur og kastalar. Einnig myndarleg herstöð, því konungur varð að hafa her. Á fyrri hluta 18. aldar þrefaldaðist íbúafjöldi borgarinnar og fór upp í 63 þús í manntali árið 1755. Meðan erfðastríðið í Austurríki geysaði í Evrópu hertóku prússar Dresden og héldu borginni til stríðsloka. Friðarsamningar stríðsins voru gerðir í Dresden 1745 og kallast Dresden-samningarnir. Aðeins örfáum árum seinna hófst 7 ára stríðið og hertóku prússar borgina þá á nýjan leik 1756. Þeir héldu henni í þrjú ár, þangað til austurrískur her gerði árás á borgina og náði að hrekja prússa þaðan. Mestu skemmdir á borginni urðu hins vegar í júlí 1760 er prússar komu aftur og réðust á Austurríkismenn í borginni. Þeir fengu ekki unnið hana, en skemmdir urðu miklar, enda var mikið skotið úr fallbyssum. Skemmdir urðu svo miklar og tjónið svo mikið að það tók 50 ár þar til íbúafjöldinn var aftur orðinn sá sami og fyrir stríð.

Napóleonsstríðin[breyta | breyta frumkóða]

Orrustan við Dresden

Borgin var endurreist og talsvert víkkuð. Í frönsku byltingunni komu margir flóttamenn til Dresden, en einnig margir eftir skiptingu Póllands. 1806 barðist Saxland gegn Napóleon við Jena og Auerstedt, þar sem Frakkar unnu stórsigra. Í kjölfarið hernámu Frakkar Dresden 25. október. Í desember gekk Saxland í Rínarbandalagið og sveigðist með Frökkum. Saxland varð að konungsríki og kjörfurstinn varð að konungi. Dresden varð því að konungsborg og varði það í rúm 100 ár, allt til 1918. Árið 1812 var haldin mikil ráðstefna í Dresden, er Napóleon hitti þar Frans I keisara Austurríkis og Friðrik Vilhjálm III konung Prússlands, ásamt ýmsum öðrum smáfurstum. Þar var rætt um framtíð Evrópu. Næsta ár gerðu rússneskir kósakkar Frökkum ýmsar skráveifur með skæruhernaði. Á tímabili náðu kósakkarnir að hertaka Dresden, en urðu brátt frá að hverfa aftur. 26. – 27. ágúst 1813 fór orrustan við Dresden fram. Þar réðust bandamenn á Frakka, sem á þessum tíma voru frekar fáliðaðir í borginni. Napóleon var að fást við Blücher herforingja í Slesíu en yfirgaf svæðið með her sinn og náði til Dresden í tæka tíð. Í bardaganum sem fylgdi sigruðu Frakkar, en aðeins vegna þess að sú frétt breiddist út að annar franskur her væri á leiðinni. Orrustan við Dresden var síðasta orrustan sem Napóleon sigraði í á þýskri grundu. Fáum mánuðum seinna fór Napóleon af stað í hina misheppnuðu herferð til Rússlands. Í kjörfarið yfirgáfu allir Frakkar borgina.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Dresden í rústum eftir loftárásir í heimstyrjöldinni síðari

Á Vínarfundinum 1815 var alvarlega talað um að leysa upp konungsríkið Saxland, en það var ekki gert. Í iðnbyltingunni varð Dresden þekkt fyrir fíniðnað, sjónglerjaiðnað og matargerð. Hún var einnig gjarnan notuð sem ráðstefnuborg. Um aldamótin voru íbúar orðnir um hálf milljón og var Dresden þá fjórða stærsta borg Þýskalands. Þegar Þjóðverjar töpuðu heimstyrjöldinni fyrri, sagði Friðrik Ágúst III, konungur Saxlands, af sér, rétt eins og Vilhjálmur II keisari Þýskalands. Dresden var ekki lengur konungsborg. Saxland varð að lýðveldi innan Weimar-lýðveldisins, ásamt ýmsum öðrum héruðum Þýskalands. Lengi vel slapp Dresden við loftárásir í heimstyrjöldinni síðari. Þær hófust hins vegar í ágúst 1944, en voru tiltölulega léttar og miðaðar við þann litla iðnað sem í borginni var. En 13.-14. febrúar 1945 var borgin fyrir gífurlegum loftárásum. Nær öll borgin var lögð í rúst, miðborgin sjálf var gjöreyðilögð. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um mannfall en það mun ekki hafa verið undir 25 þús manns og trúlega langtum fleiri. Það er þó rangt sem gjarnan er sagt að Dresden hafi verið sú þýska borg sem eyðilagðist hvað mest í stríðinu. Bæði Hamborg og Berlín eyðilögðust meira, sömuleiðis smáborgin Pforzheim. Hins vegar er enn deilt um tilgang loftárásanna. Sumir vilja meina að þær hafi verið hefnd fyrir loftárásir nasista á ensku borgina Coventry. Hins vegar varð eyðilegging Dresden að orðatiltæki í ensku máli en Bretar töluðu um að gera eitthvað eins og Dresden (like Dresden), sem þýðir að leggja eitthvað í rúst. Sovétmenn hertóku Dresden, sem var á þeirra hernámssvæði. Sem austurþýsk borg var hin skemmda miðborg látin vera í rústum að mestu leyti. Nokkrar byggingar voru gerðar upp, eins og Zwingerkastalinn og Semperóperan, aðrar rifnar niður. En stór hluti miðborgarinnar var í rústum allt til sameiningar Þýskalands. Þá var byrjað að endurgera ýmsar frægar byggingar, eins og Frúarkirkjuna. Við sameiningu Þýskalands 1990 varð Saxland að sambandslandi og Dresden varð að höfuðborg á ný. 2004 voru bakkarnir sitt hvoru megin við Saxelfi í borginni settir á heimsminjaskrá UNESCO en þeir voru teknir af skrá aftur þegar borgin lagði brú yfir fljótið á þessum stað.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Dixie-skrúðganga í Dresden

Ýmsir listviðburðir eru í Dresden. Í apríl er kvikmyndahátíðin Filmfest Dresden í gangi. Hér er aðallega um teiknimyndir og stuttmyndir að ræða. Í júní er tónlistarhátíðin Dresdner Musikfestspiele sem sótt er af 150 þús manns árlega. Dixieland-hátíðin er haldin í maí en það er stór jazzhátíð með tónleikum, skrúðgöngum og ýmsu öðru. Hin alþjóðlega dansvika í Dresden er einnig haldin í maí en þar eru sýndir dansar úr ýmsum áttum og stefnum, allt frá ballett til nútímadansa.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Dynamo Dresden sem átta sinnum varð austurþýskur meistari, síðast 1990. Liðið komst í undanúrslit í Evrópukeppni meistaraliða 1989 en tapaði þá fyrir VfB Stuttgart. Meðal þekktra leikmanna félagsins má nefna Matthias Sammer og Ulf Kirsten. 1995 var liðið dæmt niður um tvær deildir þar sem það er enn. Kvennaliðið í blaki hefur tvisvar orðið þýskur meistari (1999 og 2007). Árið 2010 varð liðið Evrópumeistari en þá var úrslitakeppnin (kölluð Final Four) haldin í Dresden.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Dresden viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Frúarkirkjan er einkennisbygging Dresden
Semperoper
Kastalasamstæðan Zwinger. Fyrir aftan kastalann er Semperóperan.
  • Frúarkirkjan er þekktasta kirkja borgarinnar og stendur við markaðstorgið Neumarkt í miðborginni. Hún var reist 1726-43 í barokk-stíl. Hún tók við af eldri kirkju sem vígð var Maríu mey en var of lítil fyrir vaxandi fólksfjölda. Núverandi kirkja er úr sandsteini og er rúmlega 91 metra há. 1945 gjöreyðilagðist kirkjan í loftárásum og voru rústir einar í nær 50 ár. 1994 hófst endurbyggingin og voru notaðir í hana gamlir steinar og nýir saman. Það sést á kirkjunni í dag. Eldri steinarnir eru sótsvartir, þeir nýju ljósir. Kirkjan var vígð á ný 2005 í beinni útsendingu sjónvarps. Frúarkirkjan er einkennisbygging Dresden.
  • Semperóperan er eitt frægasta óperuhús Þýskalands (heitir opinberlega Sächsische Staatsoper Dresden). Núverandi hús var reist 1871-78 af Gottfried Semper sem konunglegt leik- og óperuhús. Semper reisti líka fyrirrennara hússins 1838-41 en það hús brann. Yfir innganginum voru styttur af Díonýsosi og Aríöðnu. Inni voru fleiri styttur af Goethe, Schiller, Shakespeare, Sófókles, Molière og Evripídes. Hús þetta eyddist algjörlega í loftárásum 1945. Það var þó endurreist 1977-85 og hefur verið í noktun síðan.
  • Dresdner Zwinger er kastalasamstæða í miðborginni. 1709 var hátíðarsvæði umgirt af litlum trjábyggingum við gamla borgarmúrinn, enda merkir Zwinger búr, varðturn og kastalavirki allt í senn. Þar lét Ágúst sterki reisa núverandi byggingar 1710-28 í barokkstíl en nokkrar viðbætur voru reistar á seinni tímum. Húsin skemmdust töluvert í loftárásum seinna stríðsins. Endurreisnin og viðgerðum lauk ekki fyrr en 1963.
  • Dómkirkjan í Dresden kallast Hofkirche. Hún var reist 1739-55 í barokk-stíl og er stærsta kirkjan í Saxlandi. Hún er að sama skapi mjög óvenjuleg að formi til. Kirkjan nær gjöreyðilagðist í loftárásum 1945. Endurreisnin stóð alveg til 1965. Í grafhvelfingu liggja tugir fyrirmenna Saxlands.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 81.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]