Fara í innihald

Ísrael

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ísrael
מדינת ישראל
Medinat Yisra'el (hebreska)
دولة اسرائيل
Daulat Isra'il (arabíska)
Fáni Ísraels Skjaldarmerki Ísraels
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Hatikvah
(
Vonin)
Staðsetning Ísraels
Höfuðborg Jerúsalem[ath 1]
Opinbert tungumál hebreska
Stjórnarfar Þingræði

Forseti Isaac Herzog
Forsætisráðherra Benjamín Netanjahú
Sjálfstæði frá umboðsstjórn Breta í Palestínu
 • Yfirlýst 14. maí 1948 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
150. sæti
20.770–22.072 km²
2,1
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
99. sæti
9.204.410
417/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 372,314 millj. dala (51. sæti)
 • Á mann 40.336 dalir (19. sæti)
VÞL (2018) 0.906 (22. sæti)
Gjaldmiðill nýsjekell (₪) (ILS)
Tímabelti UTC+2
sumartími UTC+3
Þjóðarlén .il
Landsnúmer +972
  1. Mörg ríki viðurkenna ekki Jerúsalem sem höfuðborg og hafa komið sendiráðum sínum fyrir annarsstaðar.

Ísrael (hebreska: מדינת ישראל Medinat Yisra'el; arabíska: دولة اسرائيل Daulat Isra'il) er land í Miðausturlöndum fyrir botni Miðjarðarhafs, stofnað árið 1948. Það á strönd að suðausturhluta Miðjarðarhafs og norðurhluta Dauðahafs. Ísrael á landamæri að Líbanon í norðri, Sýrlandi í norðaustri, Jórdaníu í austri, heimastjórnarsvæðum Palestínumanna á Gasaströndinni og Vesturbakkanum í austri og vestri, og Egyptalandi í suðvestri. Þótt Ísrael sé tiltölulega lítið land er það landfræðilega mjög fjölbreytt. Tel Avív er efnahagsleg höfuðborg landsins en stjórnaraðsetur og yfirlýst höfuðborg þess er Jerúsalem, þótt yfirráð Ísraels yfir borginni njóti takmarkaðrar viðurkenningar alþjóðasamfélagsins.

Í Ísrael hafa fundist menjar um elstu ferðir mannapa utan Afríku. Kananskir ættbálkar hafa skilið eftir sig fornleifar í landinu frá því á bronsöld, en konungsríkin Ísrael og Júda urðu til á járnöld. Ný-Assýríuveldið lagði Ísrael í rúst um 720 f.o.t. og Júda var síðar hernumið af Babýlóníu, Persaveldi og Hellenum. Uppreisn Makkabea leiddi til stofnunar sjálfstæðs konungsríkis Hasmonea um 110 f.o.t. en það varð leppríki Rómverja undir stjórn Heródea árið 63 f.o.t. Júdea var rómverskt skattland þar til mislukkaðar uppreisnir gyðinga urðu til þess að Rómverjar hröktu þá á brott og nefndu héraðið Syria Palestina árið 135. Við það fækkaði gyðingum mikið í landinu en þeir hurfu þó aldrei alveg. Á 7. öld unnu Arabar landið af Austrómverska ríkinu. Landið var undir stjórn múslima þar til krossferðirnar hófust undir lok 11. aldar. Ajúbídar lögðu landi svo undir sig árið 1187. Mamlúkaveldið í Egyptalandi lagði Mið-Austurlönd undir sig á 13. öld en Tyrkjaveldi sigraði það árið 1517. Á 19. öld varð til þjóðernissinnuð hreyfing síonista sem leit á Ísrael sem heimaland Gyðinga. Gyðingar hófu að flytjast til Palestínu í stórum stíl frá 1882.

Árið 1947 féllust Sameinuðu þjóðirnar á skiptingu Palestínu og stofnun tveggja ríkja, annars vegar Araba og hins vegar Gyðinga, með alþjóðlega stjórn yfir borginni Jerúsalem. Gyðingaskrifstofan í Ísrael féllst á skiptinguna en leiðtogar Araba höfnuðu henni. Næsta ár lýsti Gyðingaskrifstofan yfir stofnun sjálfstæðs Ísraels. Í kjölfar stríðs Araba og Ísraela 1948 lagði þetta ríki undir sig megnið af því landsvæði sem áður tilheyrði Palestínuumdæmi Breta, en Vesturbakkinn og Gasaströndin voru undir stjórn nærliggjandi Arabaríkja. Síðan þá hefur Ísrael háð nokkur stríð við nágrannaríki og hefur síðan í Sex daga stríðinu hernumið Vesturbakkann, Gasaströndina og Gólanhæðir. Ísrael hefur síðan í reynd innlimað Austur-Jerúsalem og Gólanhæðir, en ekki Vesturbakkann. Hernám Ísraels á svæðum Palestínumanna er lengsta herseta samtímasögunnar. Árið 2024 gaf Alþjóðadómstólinn út tilskipun þess efnis að hernám Ísraels á þessum svæðum væri ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum.[1] Tilraunir til að leysa deilur Ísraela og Palestínumanna hafa hingað til verið árangurslausar, en Ísrael hefur engu að síður undirritað friðarsamninga við Egyptaland, Jórdaníu og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Grunnlög Ísraels skilgreina landið sem lýðveldi og Gyðingaríki og þjóðríki Gyðinga. Landið er annað tveggja ríkja í Mið-Austurlöndum þar sem stjórnarfarið er frjálslynt lýðræði (hitt ríkið er Túnis), með þingræði, fulltrúalýðræði og almennum kosningarétti. Forsætisráðherra Ísraels er stjórnarleiðtogi og Knessetið er löggjafinn. Ísrael er þróað land og á aðild að OECD. Það er í 29. sæti á listanum yfir lönd eftir vergri landsframleiðslu og 13. sæti í landsframleiðslu á mann ,[2]og er þróaðasta landið sem á í hernaðarátökum.[3] Lífskjör eru þar þau mestu í Mið-Austurlöndum og landið er í efstu sætum yfir lönd eftir fjölda sem notið hefur herþjálfunar, fjölda sem lokið hefur háskólamenntun,[4] hlutfalli landsframleiðslu sem varið er til rannsókna og þróunar,[5] öryggi kvenna,[6] lífslíkum,[7] nýsköpun[8] hamingju [9],meðalauður á hvern fullorðinn[10] og menntun.[11]

Gagnrýnendur Ísraelsríkis hafa gjarnan sakað stjórn landsins um að viðhalda kynþáttaaðskilnaðarstefnu með langvarandi eða varanlegu hernámi sínu á landsvæðum sem heyra að nafninu til undir stjórn Palestínuríkis. Árin 2021 og 2022 gáfu Mannréttindavaktin og Amnesty International út skýrslur þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að framgangur Ísraela gagnvart hernámssvæðum sínum í Palestínu félli undir lagalega skilgreiningu á kynþáttaaðskilnaðarstefnu í skilningi Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.[12][13]

Á tímum bresku umdæmisstjórnarinnar var landið þekkt sem Palestína. Þegar landið fékk sjálfstæði árið 1948 tók það upp formlega heitið „Ísraelsríki“ (hebreska: מְדִינַת יִשְׂרָאֵל Medīnat Yisrā'el; arabíska: دَوْلَة إِسْرَائِيل‎ Dawlat Isrāʼīl) eftir að öðrum uppástungum, eins og Eretz Israel („Ísraelsland“), Ever (eftir ættföðurnum Eber), Síon og Júdea, hafði verið hafnað eftir nokkra yfirlegu. David Ben-Gurion mælti fyrir notkun Ísraelsríkis sem var samþykkt með 6 atkvæðum gegn 3. Fljótlega eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna ákvað ríkisstjórnin að nota „Ísraeli“ (enska: Israeli) yfir borgara landsins með formlegri yfirlýsingu utanríkisráðherrans Moshe Sharett.

Heitin „Ísraelsland“ og „börn Ísraels“ vísuðu til hins forna Ísraelsríkis sem Biblían segir frá og Gyðingaþjóðarinnar. Heitið „Ísrael“ (hebreska: Yisraʾel, Isrāʾīl; gríska: Ἰσραήλ Israēl) á rætur sínar að rekja til hebresku biblíunnar, Tanakh, þar sem Jakob er nefndur Ísrael af dularfullum andstæðingi sínum í glímukeppni („Jakobsglíman“ úr fyrstu Mósebók 32:22–32: „Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.“[14]). Ísrael þýðir „El (Guð) ríkir“ en hefur lengi verið túlkað sem „sá sem hefur glímt við Guð“ (eftir Hósea 12:4). Tólf synir Jakobs urðu síðan tólf ættkvíslir Ísraels, „börn Ísraels“ eða „Ísraelsmenn“. Jakob og synir hans bjuggu í Kanan en neyddust til að flýja þaðan til Egyptalands vegna hungursneyðar. Þar bjuggu þeir í fjórar kynslóðir, eða 420 ár, þar til afkomandi Jakobs, Móses, leiddi þá aftur til Kanans. Elstu minjar um heitið Ísrael eru á Merneptasteininum frá Egyptalandi hinu forna sem er talinn vera frá því seint á 13. öld f.o.t.[15]

Landið er líka þekkt sem „Landið helga“ vegna þess hve þar eru margir helgistaðir abrahamískra trúarbragða; gyðinga, kristinna, múslima og baháa. Í gegnum tíðina hefur það verið kallað ýmsum nöfnum, meðal annars Kanan, Djahi, Samaría, Júdea, Yehud, Syria Palestina og Suður-Sýrland.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Ísrael er eitt Botnalanda og er staðsett í Frjósama hálfmánanum. Landið liggur að austurströnd Miðjarðarhafs, með landamæri að Líbanon í norðri, Sýrlandi í norðaustri, Jórdaníu og Vesturbakkanum í austri og Egyptalandi og Gasaströndinni í suðvestri. Það er milli 29 og 34° N og 34 og 36° A.

Landsvæði Ísraels eftir Vopnahléssamningana 1949, án alls þess sem landið lagði undir sig í Sex daga stríðinu 1967, er um 20.770 ferkílómetrar að stærð og 2% þess er vatn. Landið er langt og mjótt, 400 km frá norðri til suðurs en aðeins 100 km frá austri til vesturs þar sem það er breiðast, og landhelgi landsins er tvöföld stærð þess. Landsvæðið sem er undir stjórn Ísraels, þar á meðal hernumdu svæðin og Heimastjórnarsvæði Palestínumanna, er 27.799 ferkílómetrar.

Þótt landið sé ekki stórt er Ísrael landfræðilega fjölbreytt land; frá Negeveyðimörkinni í suðri að hinum frjósama Jezreel-dal inni í landi, fjalllendið í Galíleu og Karmelfjall og Gólanhæðir í norðri. Langflestir íbúar landsins búa á strandsléttu Ísraels við strönd Miðjarðarhafsins. Austan við miðhálendið er Jórdandalurinn sem er hluti af Sigdalnum mikla. Áin Jórdan rennur um dalinn frá Hermonfjalli gegnum Húladal og Genesaretvatn út í Dauðahaf, sem er lægsti punktur á þurrlendi jarðar. Sunnar er eyðimörkin Arabah sem nær að Elíatflóa við Rauðahaf. Uppblástursgígar, makhteshim, eru sérkenni í landslagi Ísraels og Sínaískaga. Stærsti gígur heims af þessu tagi er Makhtesh Ramon í Negeveyðimörkinni, 40 km að lengd og 8 km á breidd.

Loftslagsbelti í Ísrael.

Veðurfar í Ísrael er mjög breytilegt eftir svæðum. Á strandsvæðum eins og við Tel Avív og Haífa er dæmigert Miðjarðarhafsloftslag með svölum og rökum vetrum og löngum heitum sumrum. Inni í landi, í kringum Beersheba og Norður-Negev er hálfþurrt loftslag með heitum sumrum, svölum vetrum og færri úrkomudögum en við ströndina. Í Suður-Negev og Arava er eyðimerkurloftslag þar sem sumrin eru mjög heit og þurr og veturnir hlýir, með nokkrum úrkomudögum. Hæsti hiti sem mælst hefur í Asíu, 54°C mældist á kibbútsinum Tirat Zvi í dal Jórdanárinnar árið 1942.

Veðrið í fjalllendi í Ísrael getur svo verið mjög vindasamt og kalt. Á svæðum í meira en 750 metra hæð yfir sjávarmáli (eins og Jerúsalem) snjóar venjulega að minnsta kosti einu sinni á ári. Úrkoma er sjaldgæf í Ísrael frá maí til september. Þar sem landið hefur takmörkuð vatnsból hafa ýmis ráð til að spara vatn verið tekin upp, eins og dreypiáveita. Ísraelar nýta sér sólarljós til raforkuframleiðslu með sólarorkuverum. Ásamt Kýpur er Ísrael það land sem framleiðir mesta sólarorku á íbúa.

Þar sem landið er staðsett á mörkum tempraða beltisins og hitabeltisins, með Miðjarðarhafið í austri og eyðimörk í vestri, eru þar fjögur plöntulandfræðileg svæði. Flóra og fána landsins eru mjög fjölbreyttar. 2.867 tegundir plantna er að finna í Ísrael, þar af 253 sem hafa verið fluttar þangað annars staðar frá. Þjóðgarðar og friðlönd í Ísrael eru 380 talsins.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Kort sem sýnir umdæmi Ísraels með heitum á ensku.

Ísrael er skipt í sex umdæmi (מחוזות mehozot, et. mahoz): Miðumdæmi, Haífaumdæmi, Jerúsalemumdæmi, Norðurumdæmi, Suðurumdæmi og Tel Avív-umdæmi, auk Júdeu og Samaríu á Vesturbakkanum. Yfirráð Ísraels yfir Vesturbakkanum og hluta Jerúsalem- og Norðurumdæmis eru ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Umdæmin skiptast í fimmtán undirumdæmi (נפות nafot, et. nafa) sem aftur skiptast í um 50 landsvæði.[16]

Umdæmi Höfuðstaður Stærsta borg Íbúar[17]
Gyðingar Arabar Alls aths.
Jerúsalem Jerúsalem 67% 32% 1.083.300 a
Norður Nof HaGalil Nasaret 43% 54% 1.401.300
Haífa Haífa 68% 26% 996.300
Mið Ramla Rishon LeZion 88% 8% 2.115.800
Tel Avív Tel Avív 93% 2% 1.388.400
Suður Beersheba Ashdod 73% 20% 1.244.200
Júdea og Samaría Ariel Modi'in Illit 98% 0% 399.300 b
^a  Þar á meðal yfir 200.000 Gyðingar og 300.000 Arabar í Austur-Jerúsalem.[18]
^b  Telur aðeins ísraelska ríkisborgara.
Götuskilti í Jerúsalem á þremur tungumálum.

Hebreska er eina opinbera tungumál Ísraels. Arabíska var áður annað opinbert tungumál en er það ekki lengur eftir að þingið samþykkti að gera hana að „máli með sérstaka stöðu“ með lagabreytingu árið 2018. Hebreska er jafnframt ríkismál og er algengasta mál meirihluta íbúa landsins. Arabískir íbúar landsins tala arabísku, en hebreska er kennd í arabískum skólum.

Ísrael er land innflytjenda, svo mörg mál eru töluð í landinu. Vegna mikils fjölda innflytjenda frá fyrrum Sovétlýðveldum og Eþíópíu eru rússneska og amharíska töluð af stórum hópum. Yfir milljón rússneskumælandi innflytjendur hafa flust til Ísraels frá fyrrum aðildarríkjum Sovétríkjanna og löndum í Austurblokkinni frá 1990 og yfir 130.000 eþíópískir gyðingar fluttu til landsins 1984 og 1991. Um 700.000 Ísraelar sem fluttust til landsins frá Frakklandi og Norður-Afríku tala frönsku sem fyrsta mál. Enska var opinbert mál í landinu meðan á umboðsstjórn Breta í Palestínu stóð, en missti þá stöðu eftir stofnun Ísraels. Hún hefur þó enn hálfopinbera stöðu eins og sést af götuskiltum, sem eru á þremur tungumálum: hebresku, arabísku og ensku. Enskukunnátta er nokkuð almenn og enska er kennd frá unga aldri í skólum. Háskólar í Ísrael bjóða einnig upp á námskeið á ensku.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Summary of the Advisory Opinion of 19 July 2024 | INTERNATIONAL COURT OF JUSTICE“. www.icj-cij.org (enska). Sótt 7. október 2024.
  2. „Israel and the IMF“. IMF (enska). Sótt 19. október 2023.
  3. „Current conflicts“.
  4. „Education at a Glance: Israel“. Organisation for Economic Co-operation and Development. 15. september 2016. Sótt 18. janúar 2017.
  5. „Research and development (R&D) - Gross domestic spending on R&D - OECD Data“. data.oecd.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. janúar 2017. Sótt 10. febrúar 2016.
  6. Australia, Chris Pash, Business Insider. „The 10 safest countries in the world for women“. Business Insider. Sótt 23. mars 2019.
  7. „Health status - Life expectancy at birth - OECD Data“. theOECD.
  8. „These Are the World's Most Innovative Countries“. Bloomberg.com. Sótt 24. janúar 2019.
  9. Report, World Happiness (14. mars 2018). „World Happiness Report 2018“. World Happiness Report (bandarísk enska). Sótt 26. febrúar 2019.
  10. „Global Wealth Report“. Credit Suisse (enska). Sótt 5. nóvember 2023.
  11. „Education index by country“. Rankedex (enska). Sótt 5. nóvember 2023.
  12. Þorvaldur S. Helgason (28. apríl 2021). „Segja Ísrael stunda aðskilnaðarstefnu í Palestínu“. Fréttablaðið. Sótt 16. maí 2021.
  13. „Aðskilnaðarstefna Ísraels gegn palestínsku fólki: Grimmilegt stjórnkerfi og glæpur gen mannúð“. Amnesty International. 1. febrúar 2022. Sótt 16. júlí 2021.
  14. „1. Mósebók“. snerpa.is. Sótt 7. júní 2020.
  15. Barton, John; Bowden, Julie (2004). The Original Story: God, Israel and the World. Wm. B. Eerdmans Publishing Company., s. 126. "The Merneptah Stele ... is arguably the oldest evidence outside the Bible for the existence of Israel as early as the 13th century BCE."
  16. „Introduction to the Tables: Geophysical Characteristics“. Central Bureau of Statistics. Afrit af upprunalegu (doc) geymt þann 21. febrúar 2011. Sótt 4. september 2007.
  17. „Localities and Population, by Population Group, District, Sub-District and Natural Region“. Israel Central Bureau of Statistics. 6. september 2017. Sótt 19. september 2017.
  18. „Population of Jerusalem, by Age, Religion and Geographical Spreading, 2015“ (PDF). Jerusalem Institute for Israel Studies. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. september 2017. Sótt 19. september 2017.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.