Zíonismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Síonismi)

Zíonismi (einnig ritað síonismi) er stefna í stjórnmálum, sem telur að gyðingar eigi rétt á eigin landi, Fyrirheitna landinu. Stefnan er afbrigði þjóðernishyggju og á sér djúpar rætur í gyðingdómi. Zíonisma óx fiskur um hrygg eftir útkomu bókar ungverska blaðamannsins Theodor Herzl, Gyðingaríkið, árið 1896. Eftir stofnun Ísraelsríkis 1948 hafa fylgjendur stefnunnar stutt ríkið. Fylgjendur stefnunnar eru andvígir því að gyðingar samlagist öðrum þjóðum og telja að gyðingar um víða veröld eigi að snúa til Ísrael til að komast undan mismunun vegna gyðingahaturs.

Árið 1903 kom út í Rússlandi rit að nafni Gjörðabækur öldunga Zíons. Það var þýtt á ótal tungumál og hlaut mikla útbreiðslu. Ritið lýsir áætlunum gyðinga til að ná heimsyfirráðum og er falsað. Því var tekið sem ófölsuðu af nasistum í Þýskalandi sem og víðar, til að mynda í Bandaríkjunum þar sem bílaframleiðandinn Henry Ford dreifði hálfri milljón eintaka um Bandaríkin á þriðja áratugnum. Ritið ól mjög á kenningum um heimsyfirráðastefnu gyðinga.

Eftir helförina naut zíonismi mikillar hylli á Vesturlöndum, ekki síst í BNA, sem eiga sterk tengsl við Ísraelsríki, bæði efnahagsleg og stjórnmálaleg. Stefnan nýtur þó lítillar hylli í íslamsríkjum og er víða fordæmd þar. Eftir ólgu í Palestínu síðustu áratugi 20. aldar hefur gagnrýni Vesturlanda á zíonisma aukist og telja gagnrýnendur zíonisma vera heimsvaldastefnu, byggða á kynþáttahyggju.

  Þessi stjórnmálagrein sem tengist trúarbrögðum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.