Muhammad Ali

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ali, 1967

Muhammad Ali (fæddur Cassius Marcellus Clay, Jr.; 17. janúar 1942, dáinn 3. júní 2016) var bandarískur hnefaleikamaður.

Ali náði fyrst athygli íþróttaheimsins þegar hann varð ólympíumeistari í hnefaleikum í Róm árið 1960, þá í léttþungavigt, og hét enn Cassius Clay. Fjórum árum síðar vann hann fyrsta heimsmeistaratitilinn af þremur sem atvinnumaður, og þá í þungavigt, er hann lagði Sonny Liston að velli. Þá var hann aðeins 22 ára gamall og fáir höfðu trú á að honum tækist að leggja Liston að velli, sem ekki hafði tapað atvinnubardaga fram að því. Alli snerist til íslamstrúar og breytti nafni sínu.

1971 tapaði Ali sínum fyrsta bardaga á atvinnuferlinum gegn Joe Frazier. Þremur árum síðar heimti hann titlinn aftur úr hnefum George Foremans í frægum bardaga í Kinshasa í Zaíre, sem nú heitir Lýðstjórnarlýðveldið Kongó.

Ali vann 56 af 61 bardaga á atvinnumannaferlinum. Hann var útnefndur íþróttamaður aldarinnar af BBC og bandaríska tímaritinu Sports Illustrated.

Ali var friðarsinni og árið 1967 gagnrýndi hann Víetnamstríðið og neitaði að gegna herþjónustu og var af þeim sökum sviptur keppnisleyfi og heimsmeistaratitlinum.

Hann lést eftir stutta sjúkrahúslegu vegna veikinda í öndunarfærum árið 2016. Hafði hann árið 1984 greinst með Parkinsonsveiki. Ali kvæntist í fjórgang og lét eftir sig sjö dætur og tvo syni. Laila Ali, dóttir hans, gerðist hnefaleikakona þrátt fyrir mótmæli Ali. [1]

Tilvísanir

  1. Muhammad Ali látinn Rúv. skoðað 4. júní, 2016.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.