Lukku Láki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Lukku Láki er teikmyndapersóna í samnefndri myndasögu eftir belgíska teiknarann Maurice De Bevere, betur þekktur sem Morris. Sögurnar um Lukku Láka gerast á tímum villta vestursins í Bandaríkjunum og er Lukku Láki, kúrekinn sem þekktur er fyrir það „að vera sneggri en skugginn að skjóta“ þar í aðalhlutverki.

Ásamt Ævintýrum Tinna og sögunum af Ástríki eru myndasögurnar um Lukku Láka einar af vinsælustu og mest seldu myndasögum meginlands Evrópu og hafa verið þýddar á yfir 23 tungumál, þar á meðal ensku, íslensku, arabísku, þýsku, dönsku, grísku, hebresku, tyrknensku og ítölsku.

Ekki er að finna neinar vísbendingar í sköpunarsögu Lukku-Láka, sem til dæmis má lesa í Allt um Lukku-Láka, um að hann hafi verið til eða eigi sér ákveðna fyrirmynd. Hins vegar eiga fjölmargar aðrar persónur í Lukku-Lákabókunum sér beinar fyrirmyndir, annað hvort teknar beint úr sögu villta vestursins eða þekktar ímyndir úr samtímasögu Vesturlanda þegar bækurnar voru gerðar.

Útgáfusaga[breyta | breyta frumkóða]

Morris teiknaði Lukku Láka frá árinu 1946 og þangað til hann lést árið 2001. Fyrsta ævintýrið um hann, Arizona 1880 kom út 7. desember árið 1946 og birtist í teiknimyndablaðinu Sval sem varð vettvangur sagnanna næstu tvo áratugi, árið 1967 færðist útgáfan hins vegar yfir til teiknimyndablaðsins Pilote, sem gefið var út af útgáfufyrirtækinu Dargaud. Eftir að hafa unnið að sögunum einn í nokkur ár hóf hann samstarf með René Goscinny og var sá tími sem samstarfið stóð yfir í talinn vera gullöld Lukku Láka. Samstarfið stóð yfir frá því sagan Des rails sur la Prairie kom út árið 1955 og þangað til hann lést árið 1977. Lukku Láki kom fyrst út í bókaformi árið 1949 og komu út alls 78 bækur og af þeim hafa 33 verið þýddar á íslensku. Lukku-Láka bækurnar hafa verið þýddar á 30 tungumál.

Einnig komu út leiknar myndir um Lukku-Láka á 10. áratug síðustu aldar en þær fengu ekki góða dóma.

Árið 2008 kom út barnamyndin Lukku Láki og Dalton Bræður. Hún var meðal annars talsett á íslensku og fjallaði um ferð Lukku-Láka til New York þar sem hann fylgdi Dalton bræðrum í réttarhöld.

Eftir lát Goscinny komu m.a. Vicq, Bob de Groot, Jean Léturgie og Lo Hartog Van Banda að gerð ævintýra Lukku Láka og eftir lát Morris árið 2001 tók franski listamaðurinn Achdé við af honum í samstarfi við rithöfundinn Laurent Gerra.

Sögurnar[breyta | breyta frumkóða]

Lukku Láki er sérstaklega þekktur fyrir ótrúlega skothæfni sína og einstaka útsjónasemi. Hann ríður um á hesti sínum Léttfeta, dyggum fáki sem hann kallar „gáfaðasta hest í heimi“ og Rattati, „heimskasti hundur í heimi“ er einnig oft með þeim félögum í för. Lukku Láki lendir ítrekað í útistöðum við óheppnu glæpamennina, Dalton bræður og jafnvel móður þeirra líka.

Ártöl koma aldrei fram í sögunum og Lukku Láki er ætíð jafn gamall. Sögusviðið er þó yfirleitt raunsætt og persónur sagnanna sóttar í bandaríska sögu. Margar raunverulegar hetjur og skúrkar villta vestursins hafa orðið á vegi Lukku Láka, til dæmis Billy the kid, Jesse James og Roy Bean. Einnig hafa aðrar persónur úr mannkynssögunni komið við sögu, eins og Abraham Lincoln og Sigmund Freud. Goscinny sagði eitt sinn að hann og Morris reyndu, hvenær sem mögulegt var, að byggja ævintýri Lukku Láka á raunverulegum atburðum en sagði jafnframt að þeir myndu ekki láta staðreyndir eyðileggja góða sögu.

Bækur á íslensku[breyta | breyta frumkóða]

Lukku Láka bækurnar eru eftirfarandi, raðað í röð eftir því hvenær þær voru gefnar út á íslensku (innan sviga eru nöfnin á frummáli og upprunalegt útgáfuár, innan hornklofa er útgáfuár á Íslandi):


 1. Kalli keisari - (L'Empereur Smith) (1976) [1977]
 2. 20. riddarasveitin - (Le 20éme de cavalerie) (1965) [1977]
 3. Allt í sóma í Oklahóma - (Ruée sur l'Oklahoma) (1960) [1977]
 4. Sálarháski Dalton bræðra - (La guérison des Dalton) (1975) [1977]
 5. Karlarígur í Kveinabæli - (Les Rivaux de Painful Gulch) (1962) [1978]
 6. Daldónar, ógn og skelfing Vestursins - (Les cousins Dalton ) (1958) [1978]
 7. Rex og pex í Mexíkó - (Tortillas pour les Dalton) (1967) [1978]
 8. Svala Sjana - (Calamity Jane) (1967) [1978]
 9. Apasagjáin - (Canyon Apache) (1971) [1978]
 10. Mamma Dagga - (Ma Dalton) (1971) [1978]
 11. Daldónar á ferð og flugi - (Les Dalton courent toujours) (1964) [1978]
 12. Billi Barnungi - (Billy the Kid) (1962) [1978]
 13. Batnandi englar - (Les Dalton se rachétent) (1965) [1978]
 14. Ríkisbubbinn Rattati - (L'Héritage de Rantanplan) (1973) [1978]
 15. Þjóðráð Lukku Láka - (La Ballade des Dalton et autres histoires) (1986) [1978]
 16. Allt um Lukku Láka - (7 histoires complètes – série 1) (1974) [1978]
 17. Leikför um landið - (Western Circus) (1970) [1979]
 18. Rangláti dómarinn - (Le juge) (1959) [1979]
 19. Heiðursvörður Billa Barnunga - (L'Escorte) (1966) [1979]
 20. Gaddavír á gresjunni - (Des barbelés sur la prairie) (1967) [1979]
 21. Söngvírinn - (Le fil qui chante) (1977) [1979]
 22. Meðal róna og dóna í Arisóna og Gullnáman - (Arizona / La mine d´or de Dick Digger) (1951 / 1949) [1980]
 23. Vagnalestin - (La caravane) (1964) [1980]
 24. Lukku Láki og Langi Láki - (Lucky Luke contre Phil Defer) (1956) [1980]
 25. Fjársjóður Daldóna - (Le magot des Dalton) (1980) [1980]
 26. Grænjaxlinn - (Le Pied-tendre) (1968) [1980]
 27. Þverálfujárnbrautin - (Des rails sur la prairie) (1957) [1981]
 28. Spilafanturinn - (Lucky Luke contre Pat Poker) (1953) [1981]
 29. Einhenti bandíttinn - (Le bandit manchot) (1981) [1981]
 30. Á léttum fótum. Spes tilboð - (Défi) (1968) [1982]
 31. Eldri Daldónar - (Hors-la-loi) (1954) [1982]
 32. Sara Beinharða - (Sarah Bernhardt) (1982) [1982]
 33. Bardaginn við Bláfótunga - (Alerte aux Pieds Bleus) (1958) [1983]


 • Þjóðráð Lukku Láka er gerð eftir teiknimynd og ekki eftir Morris, en þó um Lukku Láka.
 • Á léttum fótum. Spes tilboð er lítið hefti / smásaga í minna broti en aðrar Lukku Láka bækur.

Reykingarnar[breyta | breyta frumkóða]

Í langan tíma var Morris gagnrýndur fyrir sígarettuna sem Lukku Láki hafði alltaf uppi í sér. Gagnrýninni svaraði hann þó á þann veg að þetta tilheyrði karakternum hans Lukku Láka. Morris varð þó að láta undan, aðallega til að eiga greiðari aðgang að amerískum markaði. Þar með var ímyndin um „harða“ Lukku Láka farin fyrir bí en til að uppfylla tómarúmið sem sígarettan hafði skapað, kom strá í staðinn.

Morris fékk verðlaun frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni fyrir að taka út tóbakið og innleiða stráið.

Kvikmyndir og sjónvarp[breyta | breyta frumkóða]

Fjórar teiknimyndir voru gerðar um Lukku Láka. Þríleikurinn, „Daisy Town“, „La Ballede des Dalton“ og „Les Dalton en cavale“ kom út á árunum 1971-1983 og fjórða myndin, „Tous à l'Ouest: Une aventure de Lucky Luke“ kom út árið 2007.

 • Árið 1983 framleiddi Hanna-Barbera myndverið teiknimyndaseríu um Lukku Láka, alls 52 þætti.
 • Árið 1991 komu tvær leiknar kvikmyndir út um Lukku Láka og árið 1992 var gefin út leikin þáttaröð þar sem Terence Hill fór með hlutverk Lukku Láka.
 • Árið 2009 kom út myndin Lucky Luke og fór þá franski leikarinn Jean Dujardin með hlutverk skyttunnar knáu.

Tölvuleikirnir[breyta | breyta frumkóða]

Í gegnum árin hafa nokkrir tölvuleikir komið út um Lukku Láka, mest þó í Evrópu. Einnig var gerður leikur um hann sem hægt er að spila í símum. Helstu tölvurnar sem leikirnir höfðuðu til voru Nintendo DS Nintendo WII og PC.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Unnar Árnason. „Var Lukku-Láki til? Er einhver ljósmynd til af honum?“. Vísindavefurinn 28.1.2003. http://visindavefur.is/?id=3074. (Skoðað 21.4.2012).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]