Froskur útgáfa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Froskur útgáfa er íslenskt bókaforlag sem sérhæfir sig í útgáfu myndasagna. Það hefur frá árinu 2005 séð um útgáfu myndasögublaðsins Neo-Blek, sem leysti af hólmi Hasarblaðið Blek sem hóf göngu sína árið 1996. Aðaleigandi og stjórnandi Frosks útgáfu er Jean Posocco, myndasöguhöfundur og teiknari sem fæddist í Frakklandi en hefur búið á Íslandi um langt árabil.

Útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Bókaútgáfa Frosks hófst árið 1993 með íslenskri þýðingu á sögunni Sam Pezzo eftir Vittorio Giradino. Í kjölfarið hafa fylgt tugir bóka. Fjölbreytileiki einkennir útgáfuna. Þannig inniheldur bókaskráin frumsamdar íslenskar myndasögur, bæði eftir Jean Posocco sjálfan og eftir aðra listamenn, þýðingar á nýlegum evrópskum myndasögum (s.s. Lóu-bækurnar), útgáfur á eldri og þekktari titlum (s.s. Ástríki, Sval & Val, Strumpana, Lukku-Láka og Viggó viðutan) og fyrstu íslensku fræðibókina um myndasögur eftir Úlfhildi Dagsdóttur. Þá hefur Froskur gefið út tvær stuttar myndasögur um Múmínálfana og þrjár stærri bækur.