Fara í innihald

Lukku-Láki og Langi Láki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

Lukku Láki og Langi Láki (franska: Lucky Luke et Phil Defer) eftir belgíska teiknarann Maurice de Bevere (Morris) er áttunda bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1956, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust í tímaritinu Moskítóflugunni (f. Le Moustique) árið 1954.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalsaga bókarinnar gerist í bænum Bokkugili (e. Bottleneck gulch) þar sem veitingamaðurinn Ó´lafur, eigandi krárinnar Spaðaássins, ræður ríkjum. Ó´lafur þolir enga samkeppni og þegar gamall vinur Lukku Láka, Ó´rækja, opnar nýja krá við hlið Spaðaássins fær Ó´lafur frægasta leigumorðingja landsins, hinn hávaxna og hjátrúarfulla Langa Láka, til að ráða niðurlögum Ó´rækju. Fyrir tilviljun kemst Lukku Láki á snoðir um fyrirætlanir Ó´lafs og tekur höndum saman með Ó´rækju að standa vörð um samkeppnina. Eftir ýmsar skærur, þar sem beitt er dulargervum, dýnamíti og mexíkóskum stökkbaunum, setur Langi Láki nafna sínum úrslitakosti og þeir félagar mætast í lokauppgjöri sem fram fer á aðalstræti bæjarins. Þegar Langi Láki heldur að Lukku Láki hafi tæmt magasínið í byssu sinni með sex skotum kemur hann úr felum og gerir sig líklegan til að plaffa Lukku Láka niður í rólegheitum. En byssa Lukku Láka er eina sjöhleypan í villta vestrinu og hann sendir byssukúlu í öxl Langa Láka sem liggur óvígur eftir. Læknir kveður upp þann úrskurð að ferli hans sem byssubófa sé lokið. Ó´lafur er rekinn burt úr bænum og Ó´rækja sameinar krárnar í nýja krá, Tvo Ása.

Aukasaga bókarinnar nefnist Lukku Láki og aumingja Pilli. Þar er Lukku Láki aðeins í hlutverki sögumanns og segir ferðafélögum sínum sögu af nærsýnum skerfara sem var sýnd veiði en ekki gefin. Sagan er líklega sú ofbeldisfyllsta í öllum bókaflokknum um Lukku Láka, en hvorki fleiri né færri en sex byssubófar falla þar fyrir hendi Pilla.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
Leikarinn Jack Palance á ljósmynd frá árinu 1974.
  • Bókin um Langa Láka er ein af þremur svonefndum "contre" bókum um Lukku Láka þar sem Láki etur kappi við einhver illmenni Villta Vestursins. Hinar tvær eru Spilafanturinn og Óaldarflokkur Jússa Júmm, en sú síðarnefnda hefur ekki komið út á íslensku. Löngu síðar bættist við fjórða "contre" bókin, Lucky Luke contre Pinkerton, sem kom út árið 2010.
  • Langi Láki er augljós skopstæling á kvikmyndaleikaranum Jack Palance (1919-2006). Ári áður en sagan birtist fyrst lék Jack Palance miskunnarlausan byssubófa í vestranum Shane.
  • Í upprunalegri útgáfu sögunnar sem birtist í Moskítóflugunni skýtur Lukku Láki nafna sinn Langa Láka til bana á Aðalstræti. Þegar sagan kom út í bókarformi hafði sögulokunum verið breytt þannig að Langi Láki lifði af skotsárið. Ofbeldið í sögunum, ekki síst í þeirri styttri um skerfarann Pilla, er trúlega ástæða þess að þær birtust ekki í teiknimyndablaðinu Sval á sínum tíma.
  • Í umsögn um bókina á aðdáendasíðu Lukku Láka fandeluckyluke.com Geymt 2 febrúar 2011 í Wayback Machine er hún talin sú besta sem Morris samdi sjálfur um ævintýri kúrekans.
  • Útgefandinn Dargaud gaf í janúar 2016 út sérstaka viðhafnarútgáfu af Langa Láka í tilefni af sjötíu ára afmæli Lukku Láka. Bókin, sem kom út í 3.000 eintökum, hefur að geyma upprunalega útgáfu sögunnar eins og hún birtist í Moskítóflugunni árið 1956.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Lukku Láki og Langi Láki var gefin út af Fjölva árið 1980 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 24. bókin í íslensku ritröðinni.

  • Lucky Luke. The Complete Collection 3. Cinebook. 2019.