Þverálfujárnbrautin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

Þverálfujárnbrautin (franska: Des rails sur la Prairie) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er níunda bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1957, en sagan sem hún hefur að geyma birtist í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1955-1956. Þverálfujárnbrautin er fyrsta Lukku Láka bókin sem Goscinny samdi og markar þannig upphaf samstarfs hans og Morris.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Bakgrunnur bókarinnar er glæsilegur kafli í sögu villta vestursins, þ.e. lagning járnbrautarteina milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna (Kaliforníu og Chicago) sem lokið var við árið 1869. Lukku Láki er ráðinn af járnbrautarfélaginu til að hafa eftirlit með járnbrautarlagningunni frá Dauðyfladal (e. Dead Ox Gulch) vestur til Kaliforníu. Leiðin er löng og ströng og verkamennirnir þurfa að yfirstíga ýmsar hindranir og hættur á leiðinni, svo sem herskáa indíána, himinhá fjöll, snarbrött gljúfur og skrælnaðar eyðimerkur. Ekki bætir úr skák að þar sem lagning járnbrautarinnar ógnar starfsemi póstvagnaþjónustunnar sendir aðaleigandi hennar, Villi svarti, hóp illvirkja til að spilla fyrir lagningu teinanna.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

Lokið við lagningu járnbrautarteina milli austurs og vesturs í Utah 10. maí 1869.
  • René Goscinny samdi Þverálfujárnbrautina þrátt fyrir að Morris sé skráður höfundur hennar og markar bókin þannig upphaf samstarfs þeirra félaga við bókaflokkinn. Ef grannt er skoðað má sjá upphafsstafi Goscinny (R.G.) á hverri blaðsíðu. Áhrifa Goscinny fór þó ekki að gæta fyrir alvöru fyrr en með útgáfu Rangláta dómarans tveimur árum síðar, en þá fóru Lukku Láka bækurnar að verða heilsteyptari og höfða til eldri lesendahóps en áður.
  • Meginþema bókarinnar - hættulegt ferðalag um óbyggðir Villta Vestursins - átti síðar eftir að verða viðfangsefni annarra Lukku Láka bóka. Sjá t.d. Vagnalestina og Söngvírinn.
  • Einn farþegi með lestinni er síkvartandi alla leiðina til Kaliforníu. Sami karakter átti eftir að birtast síðar í bókinni Fúlspýt á Fúlalæk og þá sem farþegi á fljótabát niður Mississippifljót.
  • Atriðið þar sem Lukku Láki glímir við beljubaróninn og framsóknarmanninn Framsóknar-Frans (f. Entrecôte Harry) er endurvinnsla Goscinny á senu úr Tinnabókinni Sjö kraftmiklar kristallskúlur þar sem Kolbeinn kafteinn fær nautshaus yfir höfuðið. Morris og Goscinny áttu síðar eftir að gera beljubarónum Villta Vestursins betri skil í bókinni Gaddavír á gresjunni.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Þverálfujárnbrautin var gefin af Fjölva árið 1981 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 27. bókin í íslensku ritröðinni. Heiti bókarinnar virðist hafa skolast til í frágangi, enda nefnist hún Þverálfujárnbrautin framan á kápu en Járnbrautarlagningin aftan á kápu og á kili.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Lucky Luke. The Complete Collection 3. Cinebook. 2019.