Einhenti bandíttinn
Einhenti bandíttinn (franska: Le Bandit manchot) eftir Morris (Maurice de Bevere) og Bob de Groot er 48. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1981.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Bræðurnir Adolf og Arthúr Kelasynir eru uppfinningamenn frá náttúrunnar hendi og hafa fundið upp nýja spilavél, Svarta köttinn. Þeir hyggja á sýningarferð með gripinn um Villta Vestrið og þingmaður kjördæmisins, Alli Allsodd, fær Lukku Láka til að fylgja þeim í öryggisskyni. Spilavélin slær strax í gegn, en þegar vélin er kynnt á krá í bænum Pókurgili (e. Poker Gulch) vekur hún ugg hjá tveimur fjárhættuspilurum sem óttast að vélin muni ganga frá atvinnugrein þeirra dauðri. Þeir reyna ýmislegt til að stöðva för Lukku Láka og Kelabræðra, en eru gripnir af Láka þegar þeir sprengja brú yfir gil á leið til Ásabæjar. Þeim tekst þó að komast undan og bræðurnir halda áfram ferðinni.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Sagan um einhenta bandíttan er lauslega byggð á sögu bræðranna Adolf og Arthur Caille frá Saginaw í Michigan sem smíðuðu sína fyrstu spilavél, sem þeir kölluðu "svarta köttinn", árið 1889. Í daglegu tali var vélin kölluð einhenti bandíttinn.
- Einhenti bandíttinn er fyrsta Lukku Láka bókin sem belgíski teiknarinn og höfundurinn Bob de Groot samdi fyrir Morris. Hann samdi alls þrjár bækur í bókaflokknum, en hinar eru Marcel Dalton sem kom út árið 1998 og L'Artiste peintre sem kom út árið 2001. Hann starfaði einnig með Morris að bókaflokknum um hundinn Rattata á árunum 1995-2001.
- Fjárhættuspilararnir tveir, sem reyna að bregða fæti fyrir Lukku Láka í sögunni, eru skopstælingar á frönsku kvikmyndaleikurunum Louis de Funès (1914-1983) og Patrick Prejéan.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Einhenti bandíttinn var gefin út af Fjölva árið 1981 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 29. bókin í íslensku ritröðinni.