Fingers
Fingers eftir belgíska teiknarann Morris (Maurice de Bevere) og höfundinn Lo Hartog van Banda er 52. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1983 og hefur ekki verið gefin út í íslenskri þýðingu.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Sagan hefst á því að stelsjúkur sjónhverfingamaður frá Evrópu, Fingers, er lokaður inni í fangelsi í Texas. Fingers er færður í fangaklefa með Daldónunum, en tekst að stela lyklum að fangaklefanum frá fangaverði og flýja ásamt Daldónunum. Nokkrum bankaránum síðar hefur Lukku Láki uppi á fimmenningunum og skilar Daldónunum í fangelsið, en fellst á að biðja ríkisstjóra Texas um að veita Fingers sakaruppgjöf. Ríkisstjórinn verður við því, en gerir Lukku Láka ábyrgan fyrir því að töframaðurinn haldi sig á mottunni. Þeir félagar lenda í klónum á herskáum Síuxa-indíánum, en ná að strjúka til nálægs bæjar. Þegar töframaðurinn hverfur ásamt miklum gullfarmi þarf Lukku Láki að hefja eftirför á nýjan leik. Hann hefur hendur í hári Fingers og fram fara réttarhöld yfir honum í bænum. Fingers nær hins vegar að koma sér í mjúkinn hjá eiginkonum dómarans og ríkisstjórans og réttarhöldunum lýkur með því að Lukku Láki er dæmdur í fimm daga fangelsi. Í kjölfarið ráðast indíánarnir á bæinn.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Í sögunni um Fingers er Lukku Láki hættur að reykja og markar bókin þannig ákveðin þáttaskil í seríunni. Morris hlaut sérstaka viðurkenningu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni árið 1988 fyrir framtakið. Líklegt er að viðskiptalegar ástæður hafi búið að baki ákvörðun Morris um að fjarlægja sígarettuna, en sama ár og bókin kom út hóf hann samstarf við bandaríska fyrirtækið Hanna-Barbera Productions um framleiðslu á teiknimyndum um Lukku Láka fyrir sjónvarp.
- Fingers er ein af þremur Lukku Láka bókum sem Morris teiknaði í samstarfi við hollenska höfundinn Lo Hartog van Banda (1916-2006). Hinar tvær eru Nitroglycérine og Chasse aux fantômes sem komu út árin 1987 og 1992. Í æviágripi Lo Hartog van Banda á hollensku vefsíðunni www.lambiek.net, sem er nokkurs konar alfræðirit um teiknimyndasöguhöfunda, kemur fram að Fingers sé almennt talin ein af bestu Lukku Láka bókunum sem komu út eftir lát René Goscinny. Sjálfum fannst Van Banda sér hafa tekist best upp með Fingers og taldi hinar tvær bækurnar síðri [1] Geymt 10 nóvember 2018 í Wayback Machine