Fúlspýt á Fúlalæk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Fúlspýt á Fúlalæk (franska: En remontant le Mississippi) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 16. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1961, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) árið 1959. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Olíumálverk af fljótabátnum Robert E. Lee.

Sagan hefst í New Orleans í Louisiana. Lukku Láki, sem lokið hefur við að reka kúahjörð til bæjarins, bregður sér á krána þar sem á sér stað heiftarlegt rifrildi milli tveggja skipstjóra, þ.e. Barrows kafteins á fljótabátnum Daisy Belle og Lowriver kafteins á fljótabátnum Asbestos D. Plower. Þegar Lowriver dregur upp byssu skerst Lukku Láki í leikinn og afvopnar kafteininn. Lowriver vill sitja einn að flutningum um Mississippifljót og hann skorar á Barrows í kappsiglingu upp fljótið til að gera út um málið: sá sem verður á undan að ná til hafnar í Minneapolis í Minnesota fær einkarétt á flutningaleiðinni. Barrows hefur tröllatrú á Daisy Belle, en grunar að Lowriver muni beita brögðum til að hafa sigur í keppninni og fær Lukku Láka til að slást með í för sem lóðs á Daisy Belle. Morguninn eftir leggja bátarnir af stað og fljótt kemur í ljós að ótti Barrows skipstjóra reyndist á rökum reistur - vafasamur spilasvindlari í farþegahópnum á vegum Lowriver skipstjóra gerir sitt besta til að tefja för bátsins með því að féfletta vélstjórann í póker. Eftir ævintýralega siglingu, þar sem Lukku Láki þarf bæði að takast á við útsendara Lowriver og ýmsar hættur á siglingunni upp hið kenjótta Mississippifljót, nær Daisy Belle loks til hafnar í Saint Louis í Missouri. Þegar þangað er komið grípur Lowriver skipstjóri til örþrifaráða og ræður byssubófann Pístólu Pétur til að koma Láka fyrir kattarnef. Fáir standast Pétri snúning með sexhleypuna, en hann reynist sérlega ótalnaglöggur og það kemur honum í koll í viðureigninni við Lukku Láka. Bátarnir leggja hnífjafnir af stað síðasta spölinn til Minneapolis og skipstjórarnir Barrows og Lowriver leggja allt í sölurnar til að hafa sigur í einvíginu.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Sagan er að nokkru leyti byggð á æðisgenginni kappsiglingu fljótabátanna Robert E. Lee og Natchez upp Mississippifljót árið 1870. Bátarnir lögðu af stað frá New Orleans og varð Robert E. Lee fyrri að ná áfangastað í St. Louis á fjórða degi, en vegalengdin var rúmir 1.850 km. Sagan segir að skipstjórinn á Robert E. Lee, John W. Cannon, hafi tryggt sér sigur í einvíginu með því að fjarlægja allan ónauðsynlegan farm og sigla aðeins með örfáa farþega. Segja má því að úrslitunum sé snúið á haus í sögunni þar sem það er Lowriver skipstjóri Asbestos D. Plower sem rekur farþega sína frá borði áður en komið er til áfangastaðar í Minneapolis.
  • Sagan er einnig innblásin af endurminningum rithöfundarins Mark Twain (1835-1910) sem vann um tíma sem stýrimaður og lóðs á fljótabát á Mississippi og þurfti m.a. að fylgjast með dýpt árinnar fyrir framan stefni bátsins eins og Lukku Láki gerir í sögunni. Rithöfundurinn, sem hét réttu nafni Samuel L. Clemence, tók upp pennaheitið "Mark Twain" sem lóðsararnir á Mississippi kölluðu þegar dýpið mældist tveir faðmar.
  • Sú mynd sem dregin er upp af þeldökkum Bandaríkjamönnum í Fúlspýt á Fúlalæk hefur þótt einkennast af staðalímyndum og jafnvel kynþáttafordómum. Hefur bókin af þessum sökum verið þýdd á færri tungumál en flestar aðrar bækur í bókaflokknum um Lukku Láka og kom til að mynda ekki út á ensku fyrr en á árinu 2021. Í eftirmála íslensku útgáfunnar af bókinni Bardaginn við Bláfótunga kemur fram að Fjölvi hafi ekki treyst sér til að gefa bókina út.
  • Lowriver skipstjóri minnir bæði í útliti og háttum nokkuð á Fláráð stórvesír, eitt af sköpunarverkum René Goscinny sem kom fram á sjónarsviðið árið 1962 í samstarfi við teiknarann Jean Tabary.
  • Farþeginn á Asbestos D. Plower, sem Lowriver kastar frá borði í sögunni, hafði birst áður í bókinni Þverálfujárnbrautin sem kom út nokkrum árum fyrr.
  • Pístólu-Pétur er ýmist talinn vera skopstæling á bandaríska kvikmyndaleikaranum James Coburn (1928-2002) eða leikaranum Lee Marvin (1924-1987). Þá svipar stýrimanninum Ned mjög til bandaríska leikarans og þjóðlagasöngvarans Burl Ives (1909-1995), en þremur árum áður en bókin kom út hlaut Ives Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í vestranum The Big Country.