Fara í innihald

Nitroglycérine

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

Nitroglycérine eftir belgíska teiknarann Morris og höfundinn Lo Hartog van Banda er 57. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1987 og hefur ekki verið gefin út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1862 ákveður Bandaríkjaþing að ljúka skuli lagningu járnbrautarteina milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna og felur tveimur fyrirtækjum, Central Pacific og Union Pacific, verkið. Á Central Pacific að leggja teinana frá Sacramento í Kaliforníu og Union Pacific frá Omaha í Nebraska. Óvægin samkeppni ríkir milli félaganna tveggja og útsendarar Union Pacific ákveða að tefja fyrir járnbrautarlagningunni frá vestri með því að koma í veg fyrir flutning á sprengiefni (Nítróglyseríni) til keppinautarins Central Pacific, en sprengiefnið er félaginu nauðsynlegt til þess að geta sprengt sér leið í gegnum Sierra Nevada fjallgarðinn í Kaliforníu. Central Pacific grunar keppinaut sinn um græsku og félagið ræður því Lukku Láka til að hafa eftirlit með flutningi efnisins. Fyrstu tilraun útsendara Union Pacific til að spilla fyrir verkinu lýkur með því að þeir sigla fljótabát fullum af sprengiefni á fangelsisvegg sem verður til þess að hinum illræmdu Daldónum tekst að flýja úr fangelsinu. Þegar Daldónarnir komast á snoðir um flutning á dýrmætum farmi með járnbrautarlest í fylgd Lukku Láka halda þeir að um gull sé að ræða og hefja tafarlausa eftirför.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Í annað skipti í bókaflokknum er fjallað um járnbrautarlagninguna miklu á sjöunda áratug 19. aldar, en fyrra skiptið var í bókinni Þverálfujárnbrautin. Rétt er farið með að Central Pacific járnbrautarfélagið gerði tilraun árið 1866 til að nota fljótandi nítróglyserín til að sprengja sér leið í gegnum Sierra Nevada fjöllin. Eftir mannskætt slys var allur slíkur flutningur á efninu þó bannaður í Kaliforníu.
  • Morris teiknaði kápumynd bókarinnar í raun átta árum fyrr í tilefni af annarri sögu, smásögunni Les Dalton prennent le train eftir Goscinny, sem birtist í bókinni La Corde du pendu et autres histoires.
  • Fyrirmynd kafteinsins á fljótabátnum í sögunni er augsýnilega Kolbeinn kafteinn úr Tinnabókunum.
  • Í umsögn um ensku útgáfu bókarinnar á vefmiðlinum Slings and Arrows fær hún fimm stjörnur af fimm mögulegum og er talin í hópi bestu bókanna í seríunni.