La Ballade des Dalton et autres histoires

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

La Ballade des Dalton et autres histoires eftir Morris (Maurice de Bevere), René Goscinny og Greg er 55. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1986, en sögurnar sem hún hefur að geyma höfðu áður komið fyrir sjónir lesenda í teiknimyndablaðinu Sval og fleiri tímaritum á árunum 1978-1980.

Sögurnar[breyta | breyta frumkóða]

Bókin hefur að geyma fjórar styttri sögur um Lukku Láka. Fyrsta sagan (La Ballade des Dalton) er endurgerð samnefndrar kvikmyndar um Lukku Láka frá árinu 1978. Í tengslum við gerð kvikmyndarinnar kom árið 1978 út myndskreitt saga um Lukku Láka, Þjóðráð Lukku Láka, sem Fjölvi gaf út í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen sama ár. Í sögunni er frændi Daldónanna, Henry Dalton, hengdur fyrir margvíslega glæpi. Hann hafði auðgast mjög á löngum glæpaferli og arfleiðir Daldónana að öllum auðæfunum með því skilyrði að þeir drepi dómarann og kviðdómendurna átta, sem dæmdu hann til dauða. Í erfðaskránni er einnig sett það skilyrði að Lukku Láki fylgi Daldónunum og sjái til þess að skilyrði erfðaskrárinnar séu uppfyllt. Að öðrum kosti renni auðæfin til góðgerðarmála. Daldónarnir flýja úr fangelsinu og hefjast handa við að hafa uppi á Lukku Láka og væntanlegum fórnarlömbum sínum. Léttfeti er í aðalhlutverki í annarri sögunni (Un amour de Jolly Jumper) þar sem hann glímir við þunglyndi og sömuleiðis í þriðju sögunni (Grabuge à Pancake Valley) þar sem honum er rænt. Fjórða sagan (L' École des Shérifs) fjallar um lögregluskóla sem Lukku Láki tekur þátt í að koma á fót.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Belgíski myndasöguhöfundurinn og teiknarinn Greg (1931-1999) er höfundur annarrar sögunnar í bókinni (Un amour de Jolly Jumper). Hann var einkum þekktur fyrir sögur sínar um Alla Kalla auk þess að vera handritshöfundur nokkurra ævintýra um Sval og Val. Un amour de Jolly Jumper er eina Lukku Láka sagan sem hann samdi.
  • Morris er sjálfur höfundur þriðju sögunnar í bókinni (Grabuge à Pancake Valley). Hún er upprunalega frá árinu 1955 og birtist í teiknimyndablaðinu Risque-Tout sama ár, en Morris endurteiknaði söguna árið 1980.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Tvær af sögunum í bókinni, þ.e. La Ballade des Dalton og L'École des shérifs, birtust í íslenskri þýðingu í bókinni Á léttum fótum. Spes tilboð sem Fjölvi gaf út árið 1982. Aðrar sögur í bókinni hafa ekki komið út í íslenskri þýðingu.