Óaldarflokkur Jússa Júmm

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Óaldarflokkur Jússa Júmm (franska: Lucky Luke contre Joss Jamon) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 11. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1958, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1956-57. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst við lok Þrælastríðsins árið 1865. Sex varasamir náungar undir forystu Jússa Júmm, sem allir börðust með her suðurríkjanna í stríðinu, fremja rán í bænum Los Palitos. Fyrir tilviljun kemur Lukku Láki til bæjarins strax eftir ránið og er tekinn höndum af bæjarbúum sem telja hann vera einn af ræningjunum. Láki á að hengjast í hæsta tré, en rétt áður en hengingin fer fram fréttist af öðru ráni í nágrannabæ. Lukku Láki lofar þá bæjarbúum að hafa uppi á hinum raunverulegu bófum og koma þeim í hendur réttvísinnar innan sex mánaða. Láki er látinn laus með þessum skilmálum og heldur í humátt á eftir Jússa Júmm og bandíttum hans til bæjarins Frontier Gulch þar sem Jússi ætlar að koma undir sig fótunum með glæpsamlegri yfirtöku á öllu atvinnulífi bæjarins.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Kviðdómurinn "heiðarlegi" í sögunni er skipaður karakterum sem allir áttu eftir að birtast aftur í aðalhlutverkum síðar í bókaflokknum: Billa barnunga, Svölu Sjönu, Jesse James og síðast en ekki síst Daldónunum, yngri frændum hinna raunverulegu Daltón bræðra sem hér birtust í fyrsta sinn. Daldónarnir birtust aftur í óbreyttri mynd strax í næstu bók, Daldónum, ógn og skelfingu Vestursins, en Billi Barnungi, Svala Sjana og Jesse James eru ekkert lík karakterunum sem birtust síðar í samnefndum bókum.
  • Sagan fjallar m.a. um spilltar kosningar og óheiðarleg réttarhöld - viðfangsefni sem Goscinny átti eftir að gera betri skil í mörgum síðari bókum í bókaflokknum, t.d. í bókunum Allt í sóma í Oklahóma, Í skugga borturnsins, Billa barnunga og Grænjaxlinum.
  • Í sögunni skopstælir Morris félaga sinn Goscinny í gervi hins tækifærissinnaða Pete, eins af meðlimum bófagengis Jússa Júmm. Þá bregður franska kvikmyndaleikaranum Jean Gabin (1904-1976) einnig fyrir. Loks má sjá bandarísku vestrahetjuna Red Ryder og félaga hans, indíánann Little Beaver, á einum stað í sögunni, en teiknimyndasögurnar um Red Ryder birtust í dagblöðum í Bandaríkjunum um áratugaskeið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Lucky Luke. Nouvelle Intégrale 4. Dupuis. 2022.