Í skugga borturnsins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Í skugga borturnsins (franska: A l'ombre des Derricks) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 18. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1962, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval árið 1960. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst árið 1857 í bænum Titusville í Pennsylvaníu. Drake ofursti kemur til bæjarins ásamt félaga sínum, Billy Smith, í því skyni að bora eftir olíu. Þegar Drake finnur olíulind þann 27. ágúst 1859 grípur um sig mikið gullæði og fjölda manns drífur að til að taka þátt í olíuævintýrinu. Bæjaryfirvöldum líst ekki á blikuna og ráða Lukku Láka til starfa sem skerfara til að halda uppi lögum og reglu í bænum. Lukku Láki fær strax í nógu að snúast og eitt af hans fyrstu verkum verður að bjarga manni nokkrum, sem gripinn er við að stela olíutunnu, frá hengingu. Fram fara réttarhöld yfir kauða og þar skýtur upp kollinum vafasamur lögfræðingur frá Texas, Barry nokkur Blunt. Brátt kemur í ljós að Barry og kumpánar hans ætla sér að komast yfir allar olíulindir í héraðinu með óvönduðum meðulum og það reynist Lukku Láka þrautin þyngri að koma í veg fyrir ætlunarverk þeirra, enda misnotar Barry lagabókstafinn purrkunarlaust í þágu málstaðarins. Fljótlega er Drake ofursti sá eini sem enn heldur yfirráðum yfir olíulind sinni og hann og Lukku Láki ráða ráðum sínum til að koma lögum yfir Barry Blunt.

Edwin L. Drake frumkvöðull í olíuleit.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Sögusvið bókarinnar er olíuæðið mikla sem greip um sig í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum undir lok sjötta áratugar 19. aldar, nánar tiltekið árið 1859 þegar Edwin L. Drake (1819-1880) varð fyrsti maðurinn til að bora eftir olíu með árangri. Eins og rakið er í bókinni átti þessi sögulegi atburður sér stað þann 27. ágúst 1859 í bænum Titusville í Pennsylvaníu þegar borinn náði rúmlega 20 metra dýpt og Drake tókst loksins að dæla upp olíu. Spruttu í kjölfarið upp borholur og hreinsistöðvar um allt héraðið og olían varð fljótt ein verðmætasta framleiðsluafurð landsins.
  • Í sögunni er fjallað um ágirnd og fégræðgi á svipuðum nótum og í Allt í sóma í Oklahóma sem kom út tveimur árum fyrr. Nánast allar persónur sögunnar, að Lukku Láka undanskildum, verða helteknar af gróðavon í kjölfar olíuuppgötvunar Drake ofursta.
  • Í skugga borturnsins hefur nokkra sérstöðu í bókaflokknum um Lukku Láka þar sem sagan gerist nánast eingöngu í austurríkjum Bandaríkjanna, þ.e. í Titusville í Pennsylvaníu.
  • Fégráðugi lögfræðingurinn Barry Blunt er skopstæling á belgíska teiknaranum Victor Hubinon (1924-1979) sem er þekktastur fyrir að hafa teiknað sögurnar um flugkappann Buck Danny og sjóræningjann Rauðskegg.
  • Í skugga borturnsins er ein af örfáum bókum í bókaflokknum þar sem Lukku Láki raular ekki lagið um einmana kúsmalann í sögulok.