Fjársjóður Daldóna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Fjársjóður Daldóna (franska: Le Magot des Dalton) eftir Morris (Maurice de Bevere) og Vicq er 47. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1980, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í franska tímaritinu VSD árið 1979.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Daldónarnir sitja í fangelsi í Arizona og deila fangaklefa með alræmdum peningafalsara, Finni Forherta. Hann vill ólmur losna við Daldónana og spinnur því upp lygasögu um falinn fjársjóð undir furutré nærri Rauðhálsabæ (e. Red Rock Junction). Daldónarnir bíta á agnið, tekst að flýja úr fangelsinu með því að felast í súpuvagni og halda áleiðis til Rauðhálsabæjar. Þegar þangað er komið kemur í ljós að furutréð stendur innan múra eins rammgerðasta fangelsis Villta Vestursins. Daldónunum dettur það snjallræði í hug að fá sig dæmda í fangelsi til að komast í tæri við fjársjóðinn, en það setur strik í reikninginn að dómari Rauðhálsabæjar, Oddgeir, er einn sá umburðarlyndasti sem sögur fara af og dæmir helst engan til fangelsisvistar. Lukku Láki kemur í humátt á eftir Daldónunum af gömlum vana og ákveður að fylgjast með þeim úr fjarska til að komast að ráðabruggi þeirra. Daldónunum tekst að grafa göng inn í fangelsið og Lukku Láki eltir. Kemur þá í ljós að í fangelsinu er starfrækt glæsilegt gistihús fyrir fangana þar sem boðið er upp á allar lífsins lystisemdir gegn greiðslu. Að baki fyrirtækinu stendur Oddgeir dómari sem grípur Lukku Láka glóðvolgan á staðnum. Þegar Lukku Láki hafnar atvinnutilboði dómarans er hann samstundis dæmdur til að hengjast næsta morgun og eru þá góð ráð dýr.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Bókin hefst á því að Lukku Láki færir Daldónana í fylkisfangelsið í Yuma í Arisóna. Fangelsið, sem var starfrækt á tímabilinu frá 1876 til 1909 á einum afskekktasta stað í fylkinu, hýsti yfir 3000 fanga á starfstíma sínum. Einungis 26 föngum tókst að flýja þaðan sem þótti lítið á þeim tíma. Fangelsið átti eftir að koma við sögu síðar í bókaflokknum, t.d. í L'Amnésie des Dalton sem kom út árið 1991.
  • Fjársjóður Daldóna er önnur af tveimur Lukku Láka sögum sem belgíski teiknarinn og höfundurinn Vicq (Raymond Antoine, 1936-1987) samdi fyrir Morris. Hin er La Corde du pendu sem birtist í bókinni La Corde du pendu et autres histoires sem kom út árið 1982.

Íslensk þýðing[breyta | breyta frumkóða]

Fjársjóður Daldóna var gefin út af Fjölva árið 1980 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 25. bókin í íslensku ritröðinni.