Karlarígur í Kveinabæli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Karlarígur í Kveinabæli (franska: Les Rivaux de Painful Gulch) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 19. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1962, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval árið 1961.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Frá því elstu menn muna hafa ættir Nefjólfa og Eiríka eldað saman grátt silfur, þótt enginn muni lengur hvað olli þeim fjandskap til að byrja með. Er hatur Nefjólfa og Eiríka hvor á öðrum svo takmarkalaust að stöðugar illdeilur þeirra í millum spilla öllu sem til framfara horfir í bænum Kveinagili (e. Painful Gulch) og héraðinu í kring. Þegar Lukku Láki kemur til bæjarins leita bæjarbúar til hans um aðstoð og Lukku Láki er snarlega skipaður bæjarstjóri. Það reynist Lukku Láka þó þrautin þyngri að stilla til friðar í illdeilum Nefjólfa og Eiríka þrátt fyrir ýmsar tilraunir hans til að koma þeim í skilning um fáránleika deilunnar. Það er ekki fyrr en eiginkonur ættarhöfðingjanna fá sig fullsadda og grípa til sinna ráða að hjólin fara að snúast.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Karlarígur í Kveinabæli er fyrsta Lukku Láka bókin sem René Goscinny var formlega skráður höfundur að. Í raun var þetta þó tíunda bókin í bókaflokknum sem hann samdi.
  • Bókin er sú fyrsta í seríunni þar sem konur koma við sögu að einhverju marki. Konur Nefjólfa og Eiríka taka engan þátt í illdeilum þeirra og það eru þær (en ekki Lukku Láki) sem knýja fram sættir í bókarlok. Íslenska þýðingin á heiti bókarinnar ber þetta glöggt með sér. Þá koma engin illmenni við sögu í bókinni: drifkraftur sögunnar er hið tilgangslausa hatur Nefjólfa og Eiríka hvor á öðrum.
  • Á seinni hluta 19. aldar geisuðu um áratugaskeið miklar deilur milli tveggja fjölskyldna, Hatfield fjölskyldunnar og McCoy fjölskyldunnar, á svæðum í Vestur Virginíu og Kentucky í Bandaríkjunum sem kostuðu fjölmörg mannslíf áður en yfir lauk. Þessir atburðir munu vera innblástur sögunnar.
  • Morris þurfti að endurteikna bókarkápuna þar sem upprunalega útgáfan fór fyrir brjóstið á útgefandanum Dupuis: þar mátti sjá bæði byssur og áfengisflöskur.
  • Í bókinni talar Léttfeti, þótt ekki komi til beinna tjáskipta milli hans og Lukku Láka. Léttfeti byrjaði þó að tala ári fyrr í bókinni Í fótspor Daldóna (Sur la piste des Dalton) sem kom út árið 1961. Í þeirri bók var hundurinn Rattati einnig kynntur til sögunnar.
  • Útfararstjórinn í Kveinabæli átti eftir að birtast aftur í mörgum síðari bókum í ritröðinni, t.d. í Le Daily Star, og í teiknimyndum um Lukku Láka.
  • Í umsögn á aðdáendasíðu Lukku Láka (www.fandeluckyluke.com) kemur fram að könnun hafi leitt í ljós að Karlarígur í Kveinabæli sé ein allra vinsælasta Lukku Láka bókin meðal lesenda á öllum aldri.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Karlarígur í Kveinabæli var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er fimmta bókin í íslensku ritröðinni.