Fara í innihald

Le Pony Express

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Le Pony Express eftir belgíska teiknarann Morris (Maurice de Bevere) og höfundana Jean Léturgie og Xavier Fauche er 59. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1988 og hefur ekki verið gefin út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Póstsamgöngur eru mikið vandamál í Villta Vestrinu þar sem það tekur póstvagna 30 daga að ferðast milli Sacramento í Kaliforníu í vestri og St. Joseph í Missouri í austri. Ríkisstjórnin heitir því 50.000 dollara verðlaunum hverjum þeim sem finnur leið til að koma póstinum milli staða á innan við tíu dögum. Athafnamaðurinn William H. Russell grípur tækifærið og kemur á fót hraðpóstþjónustu sem ætlað er að uppfylla skilyrðin. Hugmynd hans er að ráða bestu knapa landsins til að flytja póstinn á hestbaki á innan við tíu dögum þótt vegalengdin milli Sacramento og St. Joseph sé tæpir 3000 km. Áform Russell falla hins vegar í grýttan jarðveg hjá Kyrrahafsjárnbrautarfélaginu, enda mun félagið hreppa verðlaunaféð verði skilyrðum ríkisstjórnarinnar ekki fullnægt innan sex mánaða. Russell ræður Lukku Láka til starfa sem knapa hjá hraðpóstþjónustunni og eftir stranga þjálfun leggur Lukku Láki af stað í fyrstu póstferðina frá Sacramento til St. Joseph þann 3. apríl 1860. Útsendarar Kyrrahafsjárnbrautarinnar fylgja í humátt á eftir, staðráðnir í að koma í veg fyrir að pósturinn skili sér innan 10 daga.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
Fjórir af knöpum The Pony Express á ljósmynd frá árinu 1860. Standandi frá vinstri eru Billy Richardson og Johnny Fry.
  • Hraðpóstþjónustunni (e. Pony Express) var komið á fót árið 1860 til að tryggja greiðari póstflutninga milli vestur- og austurstrandar Bandaríkjanna. Er framtakið sveipað miklum ævintýraljóma í sögu Villta Vestursins, enda var pósturinn fluttur milli Kaliforníu og Missouri eins og lýst er í bókinni, þ.e. á hestbaki um tæplega 3000 km veg yfir Sléttuna miklu og Klettafjöllin. Þótt Hraðpóstþjónustan hafi stytt verulega þann tíma sem póstflutningarnir tóku eða úr 30 dögum í um 10 daga reyndist verkefnið fjárhagslega óarðbært og lagði fyrirtækið upp laupana rúmu ári síðar þegar ritsíminn varð að veruleika.
  • Margar raunverulegar persónur, sem komu við sögu Hraðpóstþjónustunnar, birtast á síðum bókarinnar. Er þar helst að nefna frumkvöðulinn William H. Russell (1812-1872), einn af stofnendum Hraðpóstþjónustunnar, og nokkra af frægustu knöpum félagsins eins og William F. Cody (1846-1917), Billy Richardson (1834-1867) og Johnny Fry (1840-1863). Margar minna þekktar persónur koma einnig við sögu, t.d. W. Shattuck, borgarstjóri Sacramento á árunum 1859-1862, og Edson nokkur Cody sem gerði misheppnaða tilraun til að flytja póst með múlösnum frá Sacramento til Salt Lake City árið 1852.
  • Fangelsisstjórinn í sögunni hafði birst áður í bókinni Ríkisbubbinn Rattati.
  • Le Pony Express er síðasta Lukku Láka bókin sem kom út undir merkjum útgáfufélagsins Dargaud.