Allt í sóma í Oklahóma
Allt í sóma í Oklahóma (franska: Ruée sur l´Oklahoma) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 14. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1960, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árinu 1958. Sagan er að hluta byggð á raunverulegum atburðum, þ.e. landnámi Oklahóma árið 1889.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur keypt land í Oklahóma af indíánum og hyggst opna héraðið fyrir landnám hvítra manna. Lukku Láki er ráðinn til að hafa eftirlit með framkvæmdinni og tryggja að allir landnemar sitji við sama borð. Skrautleg flóra ævintýramanna flykkist til Oklahóma til að taka þátt í kapphlaupinu um lönd og lóðir, þar á meðal þremenningarnir Tóti Tófa, Bíssi Bulla og einfeldningurinn Slubbi Slen. Landnemarnir koma sér fyrir við rásmark og á hádegi þann 22. apríl 1889 eru þeir ræstir af stað með fallbyssuskoti og upphefst þá æðisgengið kapphlaup um bestu löndin þar sem ýmsum brögðum er beitt. Í kjölfarið rís á methraða borg í sandauðninni, Hvellborg (e. Boomville), og vegna stöðugrar óaldar neyðist Lukku Láki til að banna vopnaburð, áfengissölu og fjárhættuspil í borginni. Þremenningarnir Tóti, Bíssi og Slubbi sjá sér leik á borði með rekstri ólöglegs spilavítis sem Lukku Láka tekst þó að uppræta. Í hönd fara borgarstjórakosningar í Hvellborg með metfjölda frambjóðenda, en öllum að óvörum er Slubbi Slen kosinn borgarstjóri með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Slubbi reynist fyrirmyndar borgarstjóri og segir skilið við félagana Tóta og Bíssa. Þegar matvæla- og vatnsskortur fer að gera vart við sig í Hvellborg tekst Tóta og Bíssa þó að ala á vaxandi óánægju borgarbúa með ástand mála. Eftir að mikill sandbylur eyðir ræktarlandi og fyllir vatnsból verður ljóst að borgin er dauðadæmd og hún hverfur með sama hraða og hún reis. Ríkisstjórnin selur indíánunum aftur landið fyrir eina hálsfesti.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Allt í sóma í Oklahóma er ein af fáum Lukku Láka sögum sem hægt er að dagsetja nákvæmlega, en kapphlaup hvítra landnema um Oklahóma hófst á hádegi 22. apríl 1889 eins og lýst er í bókinni. Stormuðu þá tugþúsundir landnema yfir þurrar gresjurnar í æðisgengnu kapphlaupi um bestu landnámsjarðirnar í héraðinu. Rétt er farið með í bókarlok að nokkrum árum eftir landnámið fundust miklar olíulindir í Oklahóma, ekki síst á þeim svæðum sem indiánar héldu þá enn eftir.
- Með Allt í sóma í Oklahóma voru Lukku Láka sögurnar farnar að höfða til eldri lesendahóps en áður, en sagan fjallar m.a. um græðgi, afbrýðissemi og misbeitingu valds. Uppbygging heilsteyptrar sögu verður áberandi á meðan eldri sögur einkenndust fremur af röð skemmtilegra atvika og aðstæðna. Sagan er pólitískari en fyrri sögur í bókaflokknum.
- Einn eftirminnilegasti karakter sögunnar, borgarstjórinn Slubbi Slen, er skopstæling á svissneska leikaranum Michel Simon (1895-1975).
- Þegar kosningabaráttan í Hvellborg stendur sem hæst má sjá kú bera skilti með áletruninni "Kjósið Culliford". Þetta er tilvísun til belgíska teiknarans Peyo (Pierre Culliford), höfundar teiknimyndasagnanna um Strumpana og Hinrik og Hagbarð.
- Í kosningu um bestu íslensku Lukku Láka bókina, sem Stefán Pálsson gekkst fyrir á samfélagsmiðlinum Twitter vorið 2017, varð Allt í sóma í Oklahóma hlutskörpust.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Allt í sóma í Oklahóma var gefin út af Fjölva árið 1977 í íslenskri þýðingu Þórs Stefánssonar. Þetta er þriðja bókin í íslensku ritröðinni.