Á léttum fótum. Spes tilboð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa íslensku útgáfu bókarinnar.

Á léttum fótum - spes tilboð eftir Morris (Maurice de Bevere), René Goscinny og Bob de Groot er teiknimyndabók um ævintýri Lukku Láka sem gefin var út af Fjölva í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen árið 1982. Bókin hefur að geyma nokkrar styttri sögur um ævintýri Lukku Láka og er í minna broti en aðrar bækur í seríunni sem komu út hjá Fjölva. Bókin kom út í samstarfi útgefenda á Norðurlöndum og er ekki hluti af opinberu ritröðinni um Lukku Láka.

Sögurnar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu fjórar sögurnar í bókinni, Gula hættan (f. La Bataille du riz), Áskorandinn (f. Défi à Lucky Luke), Glymskratti Villta Vestursins (f. Arpèges dans le vallée) og Kynnisferð um Kaktusmýri (f. Promenade dans la ville), birtust fyrst í Super Pocket Pilote á árunum 1968-1969. Þær birtust síðar í bókinni La Bataille du riz sem franska olíufélagið Total gaf út árið 1972. Olíufélagið færði viðskiptavinum á bensínstöðvum sínum bókina að gjöf og var hún því aldrei aðgengileg á almennum bókamarkaði í Belgíu og Frakklandi og hefur ekki verið endurútgefin þar. Fyrsta sagan sem bókin dró nafn sitt af, Gula hættan, segir frá hatrömmum átökum tveggja kínverskra veitingahúsaeigenda í smábæ einum. Önnur sagan, Áskorandinn, segir frá sveitastrák sem vill verða byssubófi og efnir til illinda við Lukku Láka. Í þriðju sögunni, Glymskratti Villta Vestursins, kynnist Lukku Láki barþjóni sem ferðast með píanó í vagni sínum. Sú fjórða, Kynnisferð um Kaktusmýri, fjallar um eltingaleik Lukku Láka við bíræfinn nautgripaþjóf.

Fimmta sagan í bókinni, Hefnd Daltón-bræðra (f. La Ballade des Dalton), er í raun endurgerð samnefndrar kvikmyndar um Lukku Láka sem leit dagsins ljós árið 1978. Í tengslum við kvikmyndina kom sama ár út myndskreytt saga um ævintýri Lukku Láka, Þjóðráð Lukku Láka, sem gefin var út af Fjölva í íslenskri þýðingu. Teiknimyndasagan birtist fyrst í franska teiknimyndablaðinu Pif Gadget árið 1978 og síðar í bókinni La Ballade des Dalton et autres histoires sem kom út árið 1986 og telst 55. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka.

Sjötta sagan í bókinni, Orð á borði (f. La bonne parole), og sú sjöunda, Lipri og lúnkni Kínverjinn (f. Li-Chi´s story), birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1979-1980 og síðar í La Corde du pendu et autres histoires sem kom út árið 1982 og telst vera 50. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Sögurnar tvær eru ekki eftir René Goscinny heldur belgíska teiknarann Bob de Groot þótt þess sé hvergi getið í bókinni.

Áttunda og síðasta sagan, Skerfaraskólinn (f. L'École des Shérifs), birtist fyrst í franska teiknimyndablaðinu Pif Gadget árið 1978 og síðar í La Ballade des Dalton et autres histoires árið 1986.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Á léttum fótum er kilja í minna broti en hinar reglulegu Lukku Láka-bækur. Þykir bókin nokkurt fágæti og hefur verið eftirsótt af söfnurum. [1]