Fara í innihald

Le Daily Star

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Le Daily Star eftir belgíska teiknarann Morris og höfundana Jean Léturgie og Xavier Fauche er 53. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1984, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval á sama ári. Bókin hefur ekki komið út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Blaðamaðurinn og brautryðjandinn Horace Greeley.

Sagan hefst á því að Lukku Láki kemur blaðamanninum og ritstjóranum Horace P. Greeley til aðstoðar eftir að Horace lendir í útistöðum við nokkra kúreka vegna óvæginna skrifa sinna í dagblaðið The Daily Star. Lukku Láki og Horace halda saman til bæjarins Dead End City þar sem Horace býður Láka starf á útgáfu blaðsins. Eins og blaðamanna er siður fer Horace fljótlega að stinga á ýmsum kýlum í bæjarlífinu. Eftir að hann skrifar í blaðið um vafasama viðskiptahætti kráreigandans O´Callagan, sem selur kúnnum sínum vatnsþynnt áfengi, kaupmannsins Fenweek, sem okrar á viðskiptavinum í krafti einokunar, og útfararstjórans Fiddlededee, sem auglýsir ómerkilega viðarkassa sem sérsmíðaðar líkkistur, ákveða þeir þrír að bregða fæti fyrir útgáfu dagblaðsins. Þegar tilraunir þeirra til að stöðva dreifingu pappírs og bleks til útgáfunnar og fá bæjarbúa upp á móti The Daily Star fara út um þúfur grípa þeir til þess ráðs að hefja sjálfir útgáfu nýs fríblaðs, The Dead End City Epitaph, til þess að kippa stoðunum undan útgáfu The Daily Star.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Þrátt fyrir að sagan sé að langmestu leyti skáldskapur er persóna ritstjórans þó byggð á raunverulegri persónu, þ.e. Horace Greeley (1811-1872), stofnanda og ritstjóra stórblaðsins New-York Tribune og frambjóðanda Demókrata og frjálslyndra í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 1872. Hann fór halloka gegn frambjóðanda Repúblikana Ulysses S. Grant í kosningunum og lést sama ár.
  • Í niðurlagi sögunnar gerir ritstjóri New-York Tribune mann út af örkinni til að leita hins týnda landkönnuðar Dr. Livingstone í myrkviðum Afríku. Í raun var fundur Henry Morton Stanley og Livingstone árið 1871 þó New-York Tribune og Horace Greeley óviðkomandi þar sem Stanley var þá blaðamaður hjá dagblaðinu New-York Herald sem stóð fyrir og fjármagnaði leiðangurinn. Dagblöðin tvö runnu saman í eitt löngu síðar eða árið 1924.
  • Við sögulok kemur í ljós að vikapilturinn Pipo heitir réttu nafni Albert Londres. Þetta er tilvísun til franska rannsóknarblaðamannsins og rithöfundarins Albert Londres (1884-1932) sem af sumum er talinn vera fyrirmynd Hergé að blaðamanninum Tinna.
  • Vísundaveiðimanninum William F. Cody (1846-1917), betur þekktum sem Buffalo Bill, bregður fyrir í sögunni. Hann birtist aftur síðar í stærra hlutverki í bókinni Le Pony Express.
  • Útfararstjórinn Fiddlededee kom einnig við sögu í eldri Lukku Láka bók, Karlarígur í Kveinabæli.
  • Bókin hlaut góðar viðtökur, seldist í yfir milljón eintaka og hefur verið þýdd á yfir 20 tungumál. Handritshöfundarnir Léturgie og Fauche nefndu báðir bókina sem sína bestu Lukku-Láka bók í viðtölum á árunum 2016 og 2017. [1]