Eldri Daldónar
Eldri Daldónar (franska: Hors-la-loi) eftir belgíska teiknarann Maurice de Bevere (Morris) er sjötta bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1954, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1951-1952. Aðalsaga bókarinnar er að hluta byggð á raunverulegum atburðum, þ.e. misheppnuðu bankaráni Dalton gengisins í bænum Coffeyville í Kansas þann 5. október 1892.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Aðalsaga bókarinnar (Um eldri Daldóna) gerist á þriggja ára tímabili (1889-1892). Lukku Láki er ráðinn til starfa af járnbrautarfélagi til að hafa hendur í hári Daltón bræðra sem gengið hafa berseksgang með banka-, póstvagna- og járnbrautarránum. Lukku Láka tekst að koma í veg fyrir enn eitt rán bræðranna á járnbrautarlest og tekur bræðurna höndum á krá í bænum Mysugili. Daltón bræðurnir ná þó að strjúka úr haldi skerfarans og halda áfram fyrri iðju. Bræðurnir þurfa þó alltaf að vera á varðbergi þar sem mikið fé hefur verið sett til höfuðs þeim og halda norður til Kansas í þeirri von að þar um slóðir séu þeir óþekktir. Lukku Láki eltir og eftir aðra rimmu á krá í bænum Víkurtá (e. Wichita), þar sem Daltón bræður komast naumlega undan, gangast þeir undir lýtaaðgerð hjá lækni bæjarins til að breyta útliti sínu. Það reynist skammgóður vermir og Daltón bræðurnir flýja til bæjarins Kaffigils (e. Coffeyville). Þar ákveða þeir að ræna tvo banka bæjarins, sem standa sitt hvoru megin við sömu götu, í einu. Eftir að hafa rænt fyrri bankann tefjast bræðurnir í seinni bankanum þar sem peningaskápurinn er tímastilltur. Á meðan safna bæjarbúar liði og umkringja bankann. Upphefst mikill skotbardagi og lýkur sögunni með því að Daltón bræður liggja allir í valnum.
Aukasaga bókarinnar nefnist Daldónar ganga aftur og segir frá því þegar Lukku Láki og þrír félagar hans fletta ofan af lygahlaupnum Berta Bullu, frambjóðanda til skerfaraembættis, með því að þykjast vera hinir dauðu Daltón bræður.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Bókin styðst að allnokkru leyti við sögu hinna raunverulegu Daltón bræðra, sem voru uppi á seinni hluta 19. aldar, og tilraun þeirra til að ræna tvo banka í einu í bænum Coffeyville í Kansas þann 5. október 1892. Lýsingin á ráninu er að hluta til rétt, enda tókst snjöllum bankastarfsmanni að tefja ræningjana með því að telja þeim trú um að peningakassinn væri tímastilltur og yrði því engan veginn opnaður fyrr en eftir 45 mínútur. Að öðru leyti tekur höfundur sér skáldaleyfi í frásögninni með þátttöku Lukku Láka í atburðinum. Þá víkur bókin frá raunveruleikanum að því leyti að einungis þrír Daltón bræður tóku í raun þátt í bankaráninu en ekki fjórir auk þess sem aðeins tveir þeirra týndu lífi í ráninu, þ.e. bræðurnir Bob og Grat Daltón. Yngsti bróðirinn Emmett (Úmmi í bókinni) særðist alvarlega en lifði af. Hann sat í fangelsi í 14 ár, flutti síðan til Kaliforníu og gerðist fasteignasali, rithöfundur og leikari. Hann lést 66 ára gamall árið 1937.
- Í teiknimyndablaðinu Sval lýkur sögunni um eldri Daldóna á þann veg að Lukku Láki skýtur yngsta bróðurinn Búbba til bana. Þegar sagan kom út í bókarformi árið 1954 hafði endinum verið breytt og Lukku Láki klófestir Búbba lifandi í tunnu. Dauði Daldónanna fjögurra í bókarlok er því nokkur ráðgáta og ekki ljóst hvort þeir voru sallaðir niður í bankaráninu eða hengdir að því loknu eins og tíðkaðist í Villta Vestrinu.
- Morris lét hafa eftir sér í viðtali síðar að það hefðu verið mikil mistök að láta Daltón bræðurna tína lífi í sögunni.
- Karakterinn Berti Bulla kom einnig við sögu í eldri Lukku Láka bók, þ.e. Hroðreið sem kom út árið 1949 og telst vera önnur bókin í bókaflokknum.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Eldri Daldónar var gefin út af Fjölva árið 1982 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 31. bókin í íslensku ritröðinni. Íslenskt heiti bókarinnar er eflaust tilkomið vegna hættu á að lesendur rugluðu Daltón bræðrunum saman við hina yngri frændur þeirra, Daldónana, sem Morris og René Goscinny sköpuðu síðar og urðu reglulegir gestir í Lukku Láka bókunum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Lucky Luke. The Complete Collection 2. Cinebook. 2019.