20. riddarasveitin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

20. riddaraliðssveitin (franska: Le 20e de cavalerie) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 27. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1965, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) árið 1964.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríski kvikmyndaleikarinn Randolph Scott.

Ófriður vofir yfir í Wyoming héraði þar sem Kayenna-indíánar saka hvíta landnema um óleyfilegar vísundaveiðar. Lukku Láki er sendur af ríkisstjórninni til Kayenna-virkis þar sem 20. riddaraliðssveitin hefur aðsetur undir stjórn hins stranga Skarpgeirs ofursta. Lukku Láka gengur illa að koma á friðarsamningum við indíánana þar sem í þeirra röðum er fúlmennið Flónjón, liðhlaupi úr 20. riddaraliðssveitinni sem hefur svarið þess eið að ná sér niðri á riddarasveitinni og kyndir undir ófriði. Kayennar koma á hernaðarbandalagi við aðrar indíánaþjóðir - Oglalagg-síuxa, Eld-síuxa og Araphóa - og hefja umsátur um virkið. Þegar matarbirgðaskemman brennur til kaldra kola eftir áhlaup indíánanna verður ljóst að eina von 20. riddaraliðssveitarinnar er að senda Lukku Láka og Geirskarp riddara, son ofurstans, til að sækja hjálp til Framneskaupstaðar (e. Frontier Gulch) þar sem riddarafylkið hefur aðalbækistöð. Er það mikil hættuför þar sem virkið er umkringt af indíánunum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Bókin er lauslega byggð á vestrunum Fort Apache frá árinu 1948 og Rio Grande frá árinu 1950 sem báðum var leikstýrt af John Ford og skörtuðu John Wayne, Henry Fonda, Maureen O´Hara og Shirley Temple í aðalhlutverkum. Fyrri myndin er oft talin fyrsta Hollywood kvikmyndin þar sem frumbyggjar Ameríku eru sýndir í jákvæðu ljósi. Að sama skapi er dregin upp mun geðfelldari mynd af indíánum í 20. riddaraliðssveitinni heldur en gert var í Bardaganum við Bláfótunga sem kom út sjö árum fyrr. Þremur árum síðar kom út önnur Lukku Láka bók sem byggð var á kvikmynd eftir John Ford, Póstvagninn (f. La Diligence).
  • 20. riddaraliðssveitin er fyrsta Lukku Láka bókin þar sem Asíubúi er í áberandi hlutverki: þvottahússeigandinn frá Kanton Ming Lí Fú.
  • Bókin er oft talin í hópi bestu Lukku Láka bókanna. Gagnrýnandinn Frank Plowright var á sama máli í ritdómi á vefmiðlinum Slings and Arrows um enska útgáfu bókarinnar, en gaf henni þó aðeins tvær stjörnur (af fimm mögulegum) þar sem hann taldi teikningar Morris af Ming Lí Fú einkennast af kynþáttafordómum.
  • Skarpgeir ofursti er skopstæling á bandaríska leikaranum Randolph Scott (1898-1987) sem lék í fjölda vestrakvikmynda á ferli sínum.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

20. riddaraliðssveitin var gefin út af Fjölva árið 1977 í íslenskri þýðingu Þórs Stefánssonar. Þetta er önnur bókin í íslensku ritröðinni.