Fara í innihald

Le Ranch maudit

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Le Ranch maudit (ísl. Reimleikar á búgarðinum) eftir teiknarana Morris og Michel Janvier og höfundana Claude Guylouis, Jean Léturgie og Xavier Fauche er 56. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1986 og hefur ekki komið út á íslensku.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin hefur að geyma fjórar styttri sögur um Lukku Láka. Í titilsögunni (Le Ranch maudit) eftir Claude Guylouis (pennaheiti þremenninganna Patrick Cauvin, Guy Vidal og Jean-Louis Robert) aðstoðar Lukku Láki eldri konu, Miss Bluemarket, við kaup á gömlum búgarði. Þegar hún flytur inn fara undarlegir atburðir að gerast og hana fer að gruna að reimt sé í húsinu. Önnur sagan (La bonne aventure) eftir Jean Léturgie og Xavier Fauche fjallar um bandítta sem reynir að hafa fé af fólki með því að þykjast vera spákona. Þriðja sagan (La statue) eftir Claude Guylouis gerist í bæ við rætur Rushmore-fjalls í Suður-Dakóta þar sem bæjarstjórinn fær þekktasta myndhöggvara Villta Vestursins til að gera höggmynd af Lukku Láka. Í fjórðu sögunni (Le flume) eftir Jean Léturgie segir frá raunum verkfræðings sem smíðað hefur trjábolarennibraut fyrir sögunarmyllu og glímu hans við óprúttinn keppinaut.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Le Ranch maudit var teiknuð af franska teiknaranum Michel Janvier undir handleiðslu Morris. Janvier átti síðar eftir að teikna nokkrar bækur í bókaflokknum um hundinn Rattata sem hóf göngu sína árið 1987.
  • Í sögunni Le Ranch maudit ber nokkuð á skopstælingum af frægu fólki; breska kvikmyndaleikaranum Christopher Lee (1922-2015), bandaríska háðfuglinum Groucho Marx (1890-1977), franska listamanninum Serge Gainsbourg (1928-1991) og leikstjóranum Alfred Hitchcock (1899-1980) sem hér birtist öðru sinni í hlutverki barþjóns (fyrra skiptið var í bókinni Póstvagninn). Í sögunni er skírskotað til einnar af hans frægustu kvikmyndum, Psycho.
  • Bókin fékk víða arfaslaka dóma, t.d. á vefmiðlinum Pipeline Comics. [1]