Daldónar á ferð og flugi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Daldónar á ferð og flugi (franska: Les Dalton courent toujours) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 23. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1964 en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust fyrst í dagblaðinu Le Parisien Libéré á árinu 1962.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna hefur ákveðið almenna sakaruppgjöf og í kjölfarið er hinum alræmdu Daldónum sleppt lausum úr fangelsi. Eftir misheppnað bankarán í bænum Aumagili (e. Awful Gulch) tekst Daldónunum að ræna póstvagn og flýja til bæjarins Pokapókerpláss (spænska: Pocopoco pueblo). Á flótta undan Lukku Láka halda Daldónarnir vatnslausir út í brennandi heita eyðimörkina, en eru klófestir af Lukku Láka og stungið í steininn. Adam var þó ekki lengi í paradís og eftir að herskáir Apasa-indíánar ráðast á fangelsið tekst Daldónum að flýja á nýjan leik. Þeir eru gripnir af indíánunum, en örlögin grípa í taumana og Daldónarnir fá indíánana í lið með sér við banka- og póstvagnarán. Eru þá góð ráð dýr fyrir Lukku Láka og riddaraliðið.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Bókin hefur í raun að geyma tvær sögur sem báðar eru þó án titils. Fyrri sagan er styttri og lýkur með sólarlagsramma (bls. 14 í íslensku útgáfunni). Hin síðari er um bandalag Daldóna og Apasa. Sögurnar tvær birtust upphaflega í dagblaði en ekki í teiknimyndablaðinu Sval sem kom út vikulega. Er þetta skýringin á því að rammarnir í bókinni eru minni en venjulega þannig að hver blaðsíða er skreytt með mynd af Lukku Láka skjóta í epli á höfði Léttfeta.
  • Í bókinni kallar einn indíáninn á félaga sína "Úbbaúbba! Hopphopp!" Þetta er tilvísun í gormdýrið í teiknimyndasögunum um Sval og Val.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Daldónar á ferð og flugi var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 11. bókin í íslensku ritröðinni.